Útboð


Útboð

Líkamsræktaraðstaða í Ásvallalaug

Útboð

  • 25.5.2021 - 9.6.2021, 8:00 - 11:00, Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarbær óskar eftir tilboðum í leigu á aðstöðu í Ásvallalaug þar sem skal vera rekstur líkamsræktarstöðvar. Hafnarfjarðarbær á og rekur þrjár sundlaugar í bæjarfélaginu, Sundhöll Hafnarfjarðar við Herjólfsgötu, Suðurbæjarlaug við Suðurgötu og Ásvallalaug, Ásvöllum 2. Í húsnæði síðarnefndra lauganna er aðstaða ætluð fyrir rekstur líkamsræktarstöðva og hafa einkaaðilar rekið þar líkamsræktarstöðvar. Nú er boðin út leiga á aðstöðu undir líkamsræktarstöð í húsnæði Ásvallalaugar. Húsnæðið leigist frá og með 3. ágúst 2021 og er leigutíminn 5 ár. Möguleiki er á framlengingu leigusamningsins um 3 ár, sé húsnæðið áfram nýtt undir sömu starfsemi og ef báðir aðilar eru sammála um framlengingu.

Smella hér til að nálgast útboðsgögn

Grunn upplýsingar um húsnæði og rekstur í húsnæði

Húsnæðið leigist án alls búnaðar og leggur leigutaki til þann búnað sem þarf til starfsemi líkamsræktarstöðvar. Leigutaki tekur við húsnæðinu í núverandi ástandi, án lauss búnaðar. Í rýminu eru speglar, hljóðkerfi og sérútbúnar innstungur fyrir hlaupabretti/hjól sem eru hluti af föstum búnaði. Leigutaki leggur til allan annan búnað sem hann þarfnast til rekstursins. Rafmagnskapla frá vegg að tækjum leggur leigutaki til. Allt almennt viðhald sem tengist starfseminni sem og þrif á hinu leigða rými er á höndum leigutaka. Einnig eru allar breytingar á húsnæðinu háðar samþykki leigusala. Í hinu leigða rými er leigutaka einungis heimilt að starfrækja líkamsræktarstöð. Líkamsræktarstöðin skal vera með gilt starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti. Óheimilt er að stunda þar annan rekstur, t.d. verslun eða veitingarekstur nema með samþykki leigusala.

Tegund líkamsræktar í húsnæði

Leigusali gerir kröfu um að sú líkamsræktarstöð sem sett verður upp í húsnæðinu sé að lágmarki útbúin sambærilegum tækjum og búnaði og er í núverandi líkamsræktarstöð við Suðurbæjarlaug. Hafi leigjandi áhuga á að breyta starfsemi líkamsræktarstöðvarinnar (tegund líkamsræktar) á leigutímanum skal það ekki gert nema með samþykki leigusala og skal um hana gerður sérstakur samningur. Í tilboði sínu skal leigutaki gera grein fyrir gerð og áætlaðs fjölda búnaðar og tækja sem hann hyggst setja upp í stöðinni. Leigusali mun fylgjast með að sá búnaður sem settur verður upp í stöðinni sé samskonar og sá sem tiltekinn er í tilboðinu. Líkamsræktaraðstaðan er aðskilin frá öðrum hlutum húsnæðisins með sér bað- og búningsklefum sem leigutaki sér alfarið um þrif á. Önnur aðstaða er samnýtt með sundlauginni en leigutaki greiðir sérstaklega fyrir aðgang að lauginni þegar korthafar líkamsræktarstöðvarinnar sækja hana. Hafnarfjarðarbær sér um talningu gesta og sendir leigutaka reikning reglulega. Aðgengi leigutaka að hinu leigða og opnunartími líkamsræktarstöðvarinnar skal fylgja opnunartíma Ásvallalaugar, nema um annað sé samið.

Helstu upplýsingar um tímasetningar og framkvæmd útboðsins eru eftirfarandi:

  • Fyrirspurnarfrestur rennur út 2. júní kl. 11. Allar fyrirspurnir eiga að berast á netfangið: raggi@hafnarfjordur.is   
  • Svarfrestur rennur út 4. júní kl. 11
  • Skilafrestur og opnunartími tilboða er miðvikudagurinn 9. júní 2021 kl. 11
  • Opnunarstaður tilboða er þjónustuver Hafnarfjarðarbæjar, Strandgötu 6, 220 Hafnarfjörður miðvikudaginn 9. júní kl. 11
  • Afhending húsnæðis er 3. ágúst 2021
  • Upphaf leigutíma er 3. ágúst 2021
  • Hægt er að bóka skoðun á tilboðstíma hjá forstöðumanni sundlauga Hafnarfjarðar í gegnum netfangið: adalsteinnh@hafnarfjordur.is eða í síma 664-5790

Skilastaður tilboða er þjónustuver Hafnarfjarðarbæjar, Strandgötu 6, 220 Hafnarfjörður eða hafnarfjordur@hafnarfjordur.is fyrir kl. 11 miðvikudaginn 9. júní 2021.

Tilboð skal gera á sérstakt tilboðsblað sem fylgir útboðsgögnum og skila skal með tilboði útprentuðu og undirrituðu. Auk þess skal skila með tilboði öllum öðrum umbeðnum upplýsingum. Tilboðum og umbeðnum fylgigögnum skal skila á íslensku.

Útboðsgögn eru afhent rafrænt af þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar.
Smella hér til að nálgast útboðsgögn