Styrkir og sjóðir


Styrkir og sjóðir

Yfirlit yfir styrki og sjóði Hafnarfjarðarbæjar 


Styrkir bæjarráðs

Bæjarráð veitir ár hvert félagasamtökum, fyrirtækjum eða einstaklingum styrki til starfsemi og þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur og forgangsröð sveitarfélagsins. Úthlutun styrkja fer fram tvisvar á ári. Reglur um styrkveitingar bæjarráðs

 

Viðburða- og verkefnastyrkir menningar- og ferðamálanefndar

Menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar auglýsir eftir umsóknum um styrki til verkefna, viðburða og samstarfssamninga á sviði menningar og lista í Hafnarfirði tvisvar sinnum á ári. Fyrri úthlutun er auglýst er fyrir 15. janúar ár hvert og miðað við að úthlutun sé lokið fyrir 1. mars. Seinni úthlutun er auglýst eigi síðar en 15. ágúst og úthlutun skal lokið fyrir 1. október. Markmiðið er að styðja við menningarstarfsemi í samræmi við menningarstefnu bæjarins og styrkja einstaklinga og félagasamtök til lista- og menningarsköpunar. Úthlutunarreglur vegna menningarstyrkja. Fyrri umsóknarfrestur 2022 var til og með 8. febrúar.  Seinni umsóknarfrestur 2022 er til og með 13. september.

Sjóður Friðriks Bjarnasonar og Guðlaugar Pétursdóttur

Hlutverk sjóðsins er að efla tónlistarlíf í Hafnarfirði og styrkja hafnfirska nemendur til framhaldsnáms í tónlist og fræðimenn í tónlist. Hjónin Friðrik Bjarnason og Guðlaug Pétursdóttir arfleiddu Hafnarfjarðarbæ af miklum hluta eigna sinna.  Mæltu þau  svo fyrir að bækur og munir skyldu varðveittar í bókasafninu og að stofnaður væri sjóður til að "efla tónlistarlíf í Hafnarfirði með þeim hætti er best þykir fara hverju sinni, þó einkum til eflingar sönglífs í bænum“, og „styrkja nemendur til tónlistarnáms og fræðimenn í tónlist“. Styrkveitingar fara fram á afmælisdegi Friðriks 27. nóvember.

Styrkir íþrótta- og tómstundanefndar

Íþrótta- og tómstundafélög sem er með rekstrar- eða þjónustusamning við Hafnarfjarðarbæ geta sótt um sérstaka styrki utan samninga sem skulu lagðar fyrir íþrótta- og tómstundanefnd sem afgreiðir þá. Sjá reglur

 

Afreksmannasjóður ÍBH

Afreksmannasjóður ÍBH var stofnaður af stjórn Íþróttabandalags Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarbæ í janúar 1988 með stofnframlagi hvors aðila um sig.
Afreksstyrkir eru veittir vegna Evrópumóta félagsliða og landsliða, heimsmeistarakeppni, Ólympíuleika og ferðastyrkir vegna keppnisferða til útlanda.

 

Reglur um styrki til niðurgreiðslu fasteignaskatts félagasamtaka

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar er heimilt að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi æskulýðs- menningar- og mannúðarsamtaka sem ekki er rekin í ágóðaskyni, sbr. heimild í 2. mgr. 5 gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Rétt til styrks eiga félög og félagasamtök sem uppfylla skilyrði reglna um styrki til greiðslu fasteignaskatts félaga og félagasamtaka . Þau félög sem uppfylla framangreind skilyrði og hafa áður fengið styrk til greiðslu fasteignaskatts hjá Hafnarfjarðarbæ þurfa ekki að sækja um styrkinn ef hann er í fjárhagáætlun ársins.

Styrkir vegna námskostnaðar og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks

Hafnarfjarðarbæ er heimilt að veita styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga, enda teljist námið hafa gildi sem hæfing eða endurhæfing. Einnig er heimilt að veita fötluðu fólki, 18 ára og eldra, styrk til verkfæra- og tækjakaupa vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi. Starfsemin teljist hafa gildi sem félagsleg hæfing eða endurhæfing sem miði að því að auðvelda fötluðu fólki að skapa sér atvinnu.

Húsverndarstyrkir

Hlutverk húsverndarsjóðs Hafnarfjarðar er að stuðla að varðveislu og viðhaldi eldri húsa í Hafnarfirði og veita styrki til viðhalds og endurbóta. Sjóðnum er einnig heimilt að veita styrki til viðhalds og verndunar annarra mannvirkja í bænum sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi enda séu framkvæmdir í samræmi við upprunalegan byggingarstíl húss og sjónarmið húsverndar. Auglýst er eftir umsóknum í janúar ár hvert. Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna í reglugerð húsverndarsjóðs Hafnarfjarðar.

Styrkir til hljóðvistar

Hafnarfjarðarbær veitir styrki vegna aðgerða á gluggum húsa við umferðarþungar götur. Styrkir eru veittir til endurbóta á hljóðeinangrun glugga á þeim hliðum húss þar sem hljóðstig reiknast 65 dB(A) eða hærra. Við úthlutun styrkja hafa þeir forgang sem búa við verstar aðstæður. Umsækjendur skulu í umsókn sinni greina frá fyrirhuguð aðgerðum og metur umhverfis- og skipulagsþjónusta hvort þær eru fullnægjandi en það er forsenda styrkveitingar.

Frístundastyrkir

Mánaðarlega styrkir Hafnarfjarðarbær hvern iðkanda frá 6-18 ára aldurs til lækkunar á þátttökugjöldum um kr. 4.500.- Markmið frístundastyrkja er að gera börnum með lögheimili í Hafnarfirði kleift að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag fjölskyldna og að efla íþróttastarf og annað forvarnastarf í Hafnarfirði. Einnig á styrkurinn að vinna gegn óæskilegu brottfalli í eldri aldurshópum iðkenda. Reglur um frístundarstyrki

Styrkur við íþrótta- og tómstundaiðkun eldri borgara

Hafnarfjarðarbær niðurgreiðir íþrótta- og tómstundaiðkun íbúa á aldrinum 67 ára og eldri. Markmiðið með niðurgreiðslunum er að gera eldri íbúum í Hafnarfirði kleift að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag og að efla almennt heilbrigði og hreysti þessa aldurshóps. Niðurgreiðsla er kr. 4000.- fyrir hvern iðkenda á mánuði eða allt að kr. 48.000 í heildargreiðslu á árinu. Sjá reglur um niðurgreiðslur


Var efnið hjálplegt? Nei