Tilkynningar  • Sorpa

Tímabundin breyting: Plast beint á Sorpu eða í grenndargáma

26. mar. 2020

Höldum áfram að flokka samviskusamlega og skilum beint í endurvinnslu. 

Umhverfisstofnun ákvað nýlega, að höfðu samráði við sóttvarnarlækni, að leggja til að flokkun úrgangs með loftblæstri verði hætt tímabundið til að draga úr smithættu vegna COVID-19 veirunnar. Það þýðir að ekki má nýta Kára vindflokkara fyrir plast í pokum í móttöku- og flokkunarstöð SORPU á meðan þetta ástand varir. Um er að ræða búnað sem notaður er til að flokka plast í pokum frá heimilisúrgangi í Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi.

Plast beint á Sorpu eða í grenndargáma

Frá 1. mars 2018 hafa íbúar í Hafnarfirði getað hent flokkuðu plasti í sér plastpoka með almennu rusli í gráu heimilistunnuna en í ljósi Covid19 verður nú tímabundin breyting á. Við biðjum íbúa um að halda flokkun sinni áfram og skila flokkuðu plasti í næsta grenndargám eða á endurvinnslustöðvar þar til tilkynnt verður um annað. Endurvinnslustöð Sorpu að Breiðhellu í Hafnarfirði er opin alla virka daga frá kl. 8:00-18.30 og um helgar frá 12:00-18.30. Í Hafnarfirði eru grenndargámar á sjö stöðum: Hólshraun við Fjarðarkaup, Miðvangur við Nettó, Fjarðargata við Fjörð, Melabraut, Tjarnartorg við Bónus, Staðarberg við Iceland áður 10-11 og við Sólvang. Að gefnu tilefni er rétt að benda íbúum á að skilja poka ekki lausa eftir fyrir framan grenndargámana.

Hér má finna upplýsingar um grenndargáma og endurvinnslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Dagatal og hverfaskiptingu sorphirðu í Hafnarfirði (grátunna og blátunna) er að finna hér  

Aðgerðaáætlun Sorpu vegna Covid19