Ný trjáræktarstefna - kallað eftir ábendingum
Ábendingar vegna nýrrar trjáræktarstefnu
Starfshópur um nýja trjáræktarstefnu fyrir Hafnarfjörð 2021-2024 óskar eftir ábendingum og hugmyndum frá íbúum og öðrum áhugasömum til viðbótar því efni sem þegar prýðir drög að trjáræktarstefnu auk athugasemda við efnið. Allar ábendingar og hugmyndir skal senda á netfangið: skipulag@hafnarfjordur.is í síðasta lagi föstudaginn 16. apríl 2021.
Hafnarfjörður er grænn bær í þéttbýli, bær í örum vexti þar sem íbúum fjölgar með tilheyrandi stækkun íbúðar- og atvinnusvæða. Í slíkum vexti þarf að huga að hönnun almenningsrýma því nútímagarðar og -torg, hjóla- og gönguleiðir kalla á grænt skipulag.
Um nýja trjáræktarstefnu fyrir Hafnarfjörð
Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs 15. júní 2020 var tekin ákvörðun um að setja saman starfshóp til að móta skýra stefnu um tré og annan gróður fyrir Hafnarfjörð. Ákvörðunin
var tekin út frá bókun sem lögð var fram á fundi ráðsins 3.6.2020 þar sem lagt var til að Hafnarfjarðarbær myndi móta skýra stefnu um bæjartré, staðsetningu trjáa í bænum, hvaða tegundir henta á hverjum stað og forgangsröðun ræktunarsvæða. Til hliðsjónar var bent á stefnu sem Reykjavíkurborg hefur mótað um trjárækt innan borgarinnar. Lagt var til að stefnan yrði hluti af umhverfisstefnu Hafnarfjarðarbæjar, liður nr. 6.7, við næstu endurskoðun hennar. Einnig var bent á kosti trjáræktar í þéttbýli þar sem þau grípa svifryk, draga úr umferðarhraða, auka skjól og bæta þar af leiðandi veðurgæði. Starfshópurinn samanstendur af: Þóreyju S. Þórisdóttur, Helgu Björgu Arnardóttur og Berglindi Guðmundsdóttur.
Von starfshóps að stefnan hvetji almenning til þátttöku í þessu verkefni
Starfshópurinn var samróma um að tryggja þyrfti að tré og græn svæði hefðu forgang, bæði með því að skrásetja og greina eldri græn svæði og skrásetja heilbrigði allra trjáa ásamt því að meta hvaða tegundir henta á hverjum stað. Skrásetningin og fyrri reynsla gæti nýst við að koma með tillögur að úrlausnum. Þá telur starfshópurinn nauðsynlegt að stefna þessi fylgi með við skipulag nýrra hverfa til að tryggja græn svæði og að í upphafi hönnunarferlisins séu tilgreind tré og gróður sem hentar því svæði upp á hagnýt, fagurfræðileg og sjálfbær gildi. Það er von starfshópsins að trjáræktarstefna þessi sé skýr og auðveld aflestrar, að hún auki áhuga og hvetji almenning til þess að taka þátt í þessu verkefni.