Gasmengun gæti lagt yfir höfuðborgarsvæðið í dag
Gasmengun gæti í dag og á morgun borist frá eldgosinu við Fagradalsfjall til höfuðborgarinnar, samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun og Veðurstofu Íslands.
Þegar mengun frá eldgosinu í Geldingadölum berst inn á höfuðborgarsvæðið geta komið háir mengunartoppar sem hafa oftast gengið fljótt yfir. Mengun í lægri styrk getur þó varað í lengri tíma. Viðkvæmir einstaklingar (þar með talin öll börn), forsvarsmenn barna og atvinnurekendur eiga að fylgjast með loftgæðamælingum, hafi borist tilkynningar um háan styrk SO2.
Mælingar má sjá á loftgæðavef Umhverfisstofnunar
Almennar ráðleggingar varðandi gasmengun eru eftirfarandi:
- Lungna og hjartasjúklingar hafi sín lyf tiltæk
- Andið sem mest með nefi og forðast líkamlega áreynslu utandyra í mikill mengun því það dregur úr SO2 sem kemst niður í lungu.
- Dvöl innanhúss með lokaða glugga og slökkt á loftræstingu veitir verulega vörn fyrir menguninni.
- Athugið að rykgrímur veita enga vörn gegn gasmengun
Ráðstafanir til varnar SO2 mengun innandyra:
- Lokaðu gluggum og minnkaðu umgengni um útidyr.
- Hækkaðu hitastigið í húsinu.
- Loftaðu út um leið og loftgæði batna utandyra.
Auk ofangreindra upplýsinga má finna ráðleggingar vegna heilsufarslegra áhrifa að völdum loftmengunar á síðu landlæknis. Þar má einnig finna nýuppfærðan leiðbeiningabækling fyrir almenning á þremur tungumálum: Hætta á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum.