HlaðvarpHlaðvarp

Velkomin í  Vitann, hlaðvarp Hafnarfjarðarbæjar 

Í Vitanum er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem vinna í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Eins þau mál sem eru í brennidepli hverju sinni.

Hægt er að nálgast alla þætti Vitans hér á þessari síðu en einnig á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast og Podcast Addict. Unnið er að því að gera Vitann aðgengilegan á fleiri veitum.

Þáttur #6: Anna Bára Gunnarsdóttir, deildarstjóri þjónustuvers

Hér er rætt við Önnu Báru Gunnarsdóttir, deildarstjóra þjónustuvers Hafnarfjarðarbæjar. Anna Bára er lykilmanneskja í þjónustu bæjarins og fáir sem hafa betri sýn á þjónustu við íbúa og gesti bæjarins. Hún veitir okkur innsýn í dagleg verkefni og hvernig þjónusta bæjarins hefur þróast sl. 15 ár og skemmtilegar sögur af samskiptum við íbúa. Anna Bára er búsett í Hafnarfirði en ólst upp í Keflavík og segir okkur frá uppvexti sínum þar, áhugamálum og fjölskyldu. Hún er hlaupakona, prjónakona og mikil fjölskyldumanneskja sem sinnir barnabörnum og vinnur með Oddfellow í sínum frítíma. Upptökudagur: 4. október 2019

Þáttur #5: Gunnþóra Guðmundsdóttir arkitekt og Þormóður Sveinsson skipulagsfulltrúi á umhverfis- og skipulagssviði

Í þessum þætti er spjallað við tvo af þeim starfsmönnum sem standa í brú skipulagsmála hjá Hafnarfjarðarbæ á degi hverjum. Skipulagsmál geta í eðli sínu verið flókin í undirbúningi og framkvæmd á sama tíma og þau eru afar skemmtileg og skapandi. Gunnþóra og Þormóður segja hér frá sjálfum sér, áhugamálum sínum og framtíðardraumum ásamt því að reyna að útskýra á mannamáli út á hvað skipulagsmál ganga. Hvað er aðalskipulag? Hvað er deiliskipulag? Hvað er forskrift? Og hvernig tengist þetta allt saman? Hvar er uppbygging að eiga sér stað? Hvaða svæði hafa verið skilgreind sem þéttingarsvæði og afhverju? Þetta og margt fleira í þessum áhugaverða þætti um skipulagsmálin í Hafnarfirði. Upptökudagur: 27. september 2019. 

Þáttur #4: Ægir Örn Sigurgeirsson, deildarstjóri stoðdeildar í málefnum hælisleitenda og flóttafólks

Í þessum þætti kynnumst við málefnum hælisleitenda og flóttafólks hjá Hafnarfjarðarbæ. Einnig kynnumst við starfsmanninum Ægi Erni Sigurgeirssyni sem gegnir stöðu deildarstjóra stoðdeildar í málefnum hælisleitenda og flóttafólks. Ægir er litríkur karakter og hefur mjög áhugaverðar sögur að segja frá sínum uppvexti, erfiðri lífsreynslu, skólagöngu, lífi bakarans, kennarans, félagsráðgjafans, handboltadómarans og skýrum markmiðum sem hann hefur sett sér í lífi og starfi. Upptökudagur: 20. september 2019.

Þáttur #3: Andri Ómarsson, verkefnastjóri viðburða

Í þessum þætti Vitans, hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar, ræðir Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri við Andra Ómarsson, verkefnastjóra viðburða. Hafnarfjörður hefur stimplað sig rækilega inn sem menningarbærinn síðustu árin og fjöldi fjölbreyttra viðburða og skemmtana í boði í viku hverri sem hefur haft mjög jákvæð áhrif á samfélagið í heild og rekstur á svæðinu. Þannig hefur m.a. fjöldi nýrra veitingastaða og kaffihúsa sprottið upp út um allan bæ og fjöldi innlendra og erlendra gesta aukist til muna. Hingað koma gestir í margþættum tilgangi, til að upplifa fallegt umhverfi og náttúruperlur, skella sér á tónleika í hjarta Hafnarfjarðar, leiksýningar og listasýningar, á kaffihús eða út að borða eða til að upplifa list, sögu, hönnun og hvers kyns hamingju í verslunum og búðum víðs vegar um bæinn. Andri fer hér yfir þá föstu viðburði sem í boði eru yfir árið, ræðir um einstakan samhug Hafnfirðinga og mikilvægi einstaklingsframtaksins. Það styttist í jólin og er undirbúningur Jólaþorpsins í Hafnarfirði kominn á fullt enda um að ræða stóra hátíð sem stendur yfir allar helgar í desember og margar hendur koma að. Hátíð sem er flestum Íslendingum orðin að góðu kunn og orðin fastur liður og hefð á aðventunni. Upptökudagur: 13. september 2019.

Þáttur #2: Eva Michelsen, verkefnastjóri Lífsgæðaseturs St. Jó

Í öðru viðtali Vitans ræðir Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri, við Evu Michelsen, verkefnastjóra Lífsgæðaseturs St. Jó en þann 5.september síðastliðinn var húsnæði St. Jó opnað að nýju eftir 6 ára óvissu. Í dag eru fimmtán fyrirtæki starfandi innan veggja setursins sem öll eiga það sammerkt að starfa í þágu samfélagins á sviði heilsueflingar og bættra lífsgæða. Eva rekur hér forsöguna og segir frá framkvæmdunum sem hafa staðið yfir síðustu tvö árin. Þessi fyrsti áfangi í uppbyggingu St. Jó sem nú hefur verið formlega opnaður, þykir einstaklega vel lukkaður og tilfinningin sem skapast hefur með tilkomu flottra fyrirtækja og félagasamtaka einstök. Á sýningu í anddyri St. Jó hefur sögu St. Jósepssystra í húsinu verið gerð mjög góð skil. Sýningin er öllum opin og velkomið að kíkja í kaffi í „hjartað“ samkomustað starfsmanna og gesta fyrir miðju þeirrar hæðar sem nú hefur verið opnuð.  Upptökudagur: 6. september 2019. 

Þáttur #1: Björn Pétursson, bæjarminjavörður

Í fyrsta viðtali Vitans, hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar, ræðir Sigurjón Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs, við Björn Pétursson, bæjarminjavörð. Viðtalið er tekið upp í hinu sögufræga húsi Bookless Bungalow við Vesturgötu þar sem Björn leiðir okkur í gegnum áhugaverða þætti í starfsemi safnsins, sögu bæjarins og segir skemmtlegar sögur m.a. af draugagangi, atkvæðasmölun Siggu í Siggubæ og gefur okkur uppskrift að góðum sunnudegi í Hafnarfirði.  Upptökudagur: 30. ágúst 2019


Var efnið hjálplegt? Nei