Hlaðvarp


Hlaðvarp

Velkomin í  Vitann, hlaðvarp Hafnarfjarðarbæjar 

Í Vitanum er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem vinna í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Eins þau mál sem eru í brennidepli hverju sinni.

HladvarpVitinn

Hægt er að nálgast alla þætti Vitans hér á þessari síðu en einnig á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast, Apple Podcast og Pocketcast

Þáttur #24: Andri Ómarsson, verkefnastjóri viðburða 


Menningarhátíðin Bjartir dagar verður haldin í Hafnarfirði í allt sumar. Hátíðin mun verða hattur fjölbreyttra hátíðarhalda vítt og breytt um bæinn, sem gleðja mun bæjarbúa og gesti bæjarins og endurspegla allt það fjölbreytta menningarstarf sem á sér stað í Hafnarfirði. Í venjulegu ári stendur þessi fyrsta bæjarhátíð landsins yfir í fimm daga en ákveðið hefur verið að hátíðin, sem hófst síðasta vetrardag með vali á bæjarlistamanni Hafnarfjarðar, afhendingu menningarstyrkja og sumarsöng nemenda, standi yfir í allt sumar. Fjármagn til frumkvæðisverkefna hefur verið aukið og allir áhugasamir hvattir til að sækja um örstyrki til viðburða og skemmtunar á Björtum dögum sumarið 2021.

Tryggvi Rafnsson og Andri Ómarsson fara, í þessum fyrsta þætti eftir hlé, yfir hvernig hátíðinni verður háttað í sumar ásamt því að ræða sérstaklega örstyrkina sem hægt er að sækja um til þess að halda viðburði og uppákomur um allan bæ í sumar.

Facebooksíða Bjartra daga í Hafnarfirði

Örstyrkir til verkefna á Björtum dögum í allt sumar - umsóknarfrestur er 15. maí 

Þáttur #22: Ingibjörg Einarsdóttir, upphafsmaður Stóru upplestrarkeppninnar

Ingibjörg Einarsdóttir er ein af upphafsmanneskjum Stóru upplestrarkeppninnar og hefur fylgt þessu merka framtaki allt frá upphafi en saga keppninnar spannar alls 24 ár.  Í viðtalinu heyrum við um bakgrunn Ingibjargar sem hefur alla tíð búið í Reykjavík en tengst Hafnarfirði sterkum böndum í starfi. Frá sjö ára aldri var hún staðráðin í því að verða kennari en alls kenndi hún í 25 ár. Síðar varð Hafnarfjarðarbær starfsvettvangur Ingibjargar þar sem hún starfaði á skólaskrifstofu í 20 ár eða frá 1996.

Stóra upplestrarkeppnin á upphaf sitt í Hafnarfirði veturinn 1996-1997 sem tilraunaverkefni um upplestur en hefur síðan breiðst út um allt land. Keppnin snýst ekki um að komast fyrstur í mark heldur um þjálfun og vanda sig í upplestri. Vandvirkni, virðing og ánægja eru einkunnarorð keppninnar. Í þættinum deilir Ingibjörg með hlustendum kraftaverkasögum um börn sem voru seinlæs en stóðu svo uppi sem sigurvegarar. Börnum af erlendum uppruna hefur einnig vegnað vel í keppninni. Í þættinum spjallar Ingibjörg um upphaf, tilgang og mikilvægi þess að rækta ylhýra íslenska tungu með þjálfun og vönduðum upplestri ásamt því að viðra nýjar hugmyndir um framtíð keppninnar sem hefur haldist nánast óbreytt í nær aldarfjórðung.

Þessi merkilega keppni hefst ár hvert á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi, eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu. Lokahátíðin í Hafnarfirði er ávallt haldin í Hafnarborg í apríl og í ár fer hún fram 26. maí en vegna Covid19 þurfti að færa hátíðina aftur um tvo mánuði. Þess ber að geta að viðtal við Ingibjörgu var tekið upp í mars.

Þáttur #21: Birgir Örn Guðjónsson (Biggi lögga), lögreglumaður og verkefnastjóri

Birgir Örn Guðjónsson er fyrsti viðmælandi Vitans sem er ekki starfsmaður hjá Hafnarfjarðarbæ en vinnur þó í Ráðhúsi bæjarins í áhugaverðu tilraunaverkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Hafnarfjarðarbæjar sem kallast Þorpið. Markmiðið með Þorpinu er að draga úr eða koma í veg fyrir vímuefnaneyslu barna og ungmenna með samstarfi aðila sem byggir á hugmyndum um snemmtæka íhlutun t.d. með því að koma í veg fyrir að börn búi við ofbeldi, vanrækslu eða aðrar aðstæður sem gera þau útsettari fyrir áhættuhegðun.

Biggi, sem ólst upp á Akureyri, ætlaði sér aldrei að verða lögreglumaður en sendi inn umsókn af rælni í Lögregluskólann og þá varð ekki aftur snúið. Um stutt skeið tók Biggi sér hlé frá starfi lögreglumannsins og vann sem flugþjónn en einnig þekkja margir Bigga úr þjóðmálaumræðunni. Hann hefur verið virkur í stjórnmálum og er m.a. varabæjarfulltrúi í dag í Hafnarfirði. Viðtalið snýst þó fyrst og fremst um starfið hans í Þorpinu en mikil ánægja hefur verið með verkefnið. Biggi tekur áhugaverð dæmi um hvernig þetta verkefni hefur skilað ánægjulegum árangri ekki síst í samskiptum við unga fólkið í Hafnarfirði og vonar innilega að framhald verði á þessu spennandi tilraunaverkefni.

Þáttur #20: Kristrún Sigurjónsdóttir, kennsluráðgjafi


Kristrún Sigurjónsdóttir er listakokkur og stundar sína hugleiðslu við bakstur og eldamennsku sem vinir og ættingjar sækja í. Hún er með nám á meistarastigi í fjölmenningu, hnattrænum tengslum og fólksflutningum og starfar sem kennsluráðgjafi hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem hún sinnir ráðgefandi hlutverki á sviði fjölmenningar í öflugu samstarfi við leik- og grunnskóla sveitarfélagsins og aðra hagsmunaaðila. Kristrún er hreinræktaður Hafnfirðingur (fæddist þó ekki hér) og vill hvernig annars staðar búa. Unglingsárunum varði hún við vélritun orðtaka og málshátta og við vangaveltur um bakgrunn þeirra og sögu enda mikill áhugi á íslensku máli strax frá unga aldri.

Brennur fyrir jafnrétti, mannréttindamálum og félagslegu réttlæti

Kristrún er mikil hugsjónamanneskja sem hefur alla tíð þótt mikilvægt að lifa í takt við og starfa að hugsjónum sínum og brennur sjálf fyrir jafnrétti, mannréttindamálum, félagslegu réttlæti og hefur alla sína starfstíð unnið í þessu geira. Hún kenndi í Lækjarskóla í 20 ár og kom síðar að uppbyggingu og stofnun móttökudeildar fyrir nemendur af erlendum uppruna. Hún hefur upplifað í gegnum sína vinnu þann mikla vöxt sem hefur orðið í fjölda erlendra nemenda í hafnfirsku skólasamfélagi og hefur tekið virkan þátt þróun nýrra leiða, lausna og áætlana fyrir þennan hóp nemenda þannig að hægt sé að mæta þörfum þeirra. Í spjallinu segir Kristrún okkur frá því hvernig áhugi hennar á fjölmenningu kviknaði og hvernig hún fór sjálf að lesa sér til og leita leiða til að taka betur á móti vaxandi fjölda erlendra barna og ungmenna. Með auknum fjölda hefur úrræði horfið frá því að vera lítil móttökudeild í einum skóla í það að allir skólar geti tekið af öryggi á móti nýju erlendum nemendum. Eitt af stóru þróunarverkefnum sem í gangi eru hjá Hafnarfjarðarbæ er innleiðing á stöðumati fyrir nýja nemendur af erlendum uppruna og sér Kristrún um innleiðinguna fyrir hönd sveitarfélagsins. 

Þáttur #19: John Friðrik Bond Grétarsson, verkefnastjóri Hamarsins 

Sviðsljósið í Vitanum þessa vikuna á John Friðrik Bond Grétarsson, verkefnastjóri Hamarsins, ungmennahúss sem opnað var í gömlu Skattstofunni að Suðurgötu 14 í Hafnarfirði fyrir rétt tæpu ári síðan. Í þessum þætti segir John okkur frá orkunni sem hann var uppfullur af sem ungt barn og baráttu hans við að beisla orkuna og finna sinn farveg. Ungur ákvað hann að mennta sig í tómstunda- og félagsmálafræði og nýta þannig reynslu sína og sögu öðrum ungmennum til eflingar og hvatningar.

John Bond var, að eigin sögn, kátur, hress og hvatvís og uppátækjasamur með eindæmum og skólinn ekki endilega sá vettvangur þar sem þessir eiginleikar hans fengu að njóta sín. Hann var um nokkurra ára skeið í uppreisn en ákvað, við 16 ára aldur, að spila með foreldrum og barnaverndarnefnd þegar honum voru settir afarkostir um að fara í langtímaúrræði út á land eða taka þátt í forvarnarverkefni hér í Hafnarfirði sem sniðið var í kringum hann og fleiri orkumikla stráka og vini. Hópurinn skýrði verkefnið UÁB – unglingar á batavegi – og mótaði í framhaldinu umhverfi og félagsstarf þar sem þeir fengu að blómstra á eigin forsendum og út frá eigin hæfileikum undir góðri handleiðslu. Á þessum tímapunkti sá John ljósið og kosti þess að hætta í uppreisn og taka þátt og verða fyrirmynd og vinur ungmenna sem eru að fóta sig í lífinu. Eftir útskrift starfaði John um árabil í Vinakoti, heimilislegu búsetuúrræði og þjónustumiðstöð fyrir ungmenni með fjölþættan vanda.

John segir okkur einnig frá starfinu sem er að eiga sér stað í Hamrinum og hvernig hann vill ekki vera „hausinn“ í starfinu. Ungmennin sjálf sjá alfarið um að skipuleggja kvöldopnanir en dagstarfið og móttaka ólíkra og fjölbreyttra ungmenna á öllum aldri með mismunandi áhugamál yfir daginn er á hans hendi. John og ungmennin mótuðu og sköpuðu ungmennahúsið og starf hússins frá grunni og er starfið enn í mótun og mun verða áfram.

Þáttur #18: Helena Unnarsdóttir, deildarstjóri barnaverndar Hafnarfjarðar

Barnavernd er fagleg þjónusta með góðan tilgang. Helena Unnarsdóttir, deildarstjóri barnaverndar Hafnarfjarðar, hefur verið búsett í Hafnarfirði frá tólf ára aldri og þykir óendanlega vænt um bæinn sinn og hafnfirskt bæjarsamfélag. Helena og samstarfsfólk hennar hjá barnavernd halda utan um mikilvæga þjónustu hjá sveitarfélaginu sem snýr að því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. 

Eðli málsins samkvæmt getur þjónustan verið umdeild og margir sem hafa sterkar skoðanir á meðferð mála og afgreiðslu þeirra. Sér í lagi á stóru og erfiðu málunum sem eiga það til að enda í opinberri umræðu og mögulega ein hlið málsins fær sviðsljósið. Langflestum barnaverndarmálum ljúki farsællega og foreldrar/forráðamenn oft á tíðum ekki tilbúnir til að „útskrifast“ eftir handleiðslu og ráðgjöf þar sem veitt hafa verið viðeigandi og aðlöguð úrræði. Sterkt og náið samband myndist á milli hlutaðeigandi og sérstaklega gefandi fyrir starfsfólk að fylgjast með börnum og fjölskyldum blómstra eftir „útskrift“. Heilt yfir þá er það tilfinning hennar að mál séu orðin flóknari og erfiðari. 

 Í þessu viðtali segir Helena okkur frá því ferli sem á sér stað þegar tilkynning berst inn á borð barnaverndar. Vikulegir fundir marka afstöðu til tilkynninga og hvort mál fari í könnun og þá skráð sem barnaverndarmál. Þá tekur við ákveðið ferli sem felur m.a. í sér greiningu, gagnaöflun, innleiðingu á aðlöguðum úrlausnum og eftirmeðferð. Í þættinum segir hún okkur líka nokkrar kraftaverkasögur eins og starfsmenn barnaverndar kjósa að kalla þær.

Þáttur #17: Björn Bögeskov Hilmarsson, forstöðumaður þjónustumiðstöðvar

Björn Bögeskov Hilmarsson fagnar 30 ára starfsafmæli hjá Hafnarfjarðarbæ í apríl. Böddi, eins og hann er gjarnan kallaður, er klárlega á réttum stað í starfi sem forstöðumaður þjónustumiðstöðvar. Hann er þjónustulundaður fram í fingurgóma, er menntaður í skrúðgarðyrkju og hefur nýtt sína menntun vel í starfi.

Böddi er Kópavogsbúi, búið alla tíð þar og er harður stuðningsmaður Breiðabliks. Í hans tilviki er það líklega kostur að búa ekki í Hafnarfjarðarbæ þar sem hann kæmist tæplega úr vinnunni því verkefnin eru jú nánast óþrjótandi í viðhaldi og þjónustu. Þjónustumiðstöðin fær mikið af ábendingum um það sem má gera betur og 19 starfsmenn gera sitt besta til að greiða úr þeim á degi hverjum. Á 30 árum hefur margt áhugavert drifið á daga í starfi og í þessu viðtali deilir Böddi með okkur skemmtilegum sögum af samskiptum við íbúa, bæjarstjóra og samstarfsmenn. Stundum fá starfsmenn þjónustumiðstöðvar skammir og einstök atvik eru skemmtilegri en önnur eins og Böddi lýsir svo skemmtilega varðandi kvörtun íbúa um garðslátt í Hvömmunum. Annasamasti tími ársins er líklega í janúar þegar von er á öllum veðrum og sumartíminn er einnig mjög annasamur þegar 800 til 1000 manns bætast við starfsmannahópinn með Vinnuskólanum.

Þjónustumiðstöðin hefur lagt sitt af mörkum til að styðja við samfélagsverkefni og í viðtalinu ber á góma afar gott verkefni, sem er nefnt ÁFRAM , og snýst um að koma fólki sem hefur dottið út af vinnumarkaði og á sér stundum sögu sem er niðurbrotið og þarf stuðning til að koma sér aftur inn á vinnumarkaðinn. Í viðtalinu var einnig rætt um hvernig snjalltækni kemur til með að breyta ýmsum verkefnum í þjónustu við íbúa og spennandi verkefni til framtíðar. Margt fleira bar á góma enda ærin verkefnin hjá hinum öfluga hópi þjónustumiðstöðvarinnar.

Þáttur #16: Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, Hafnarfjarðarbæjar 

Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, hefur alltaf verið heillaður af starfi félagsmiðstöðva og eflingu ungmenna í gegnum uppbyggjandi verkefni. Hann er einn þeirra starfsmanna sem hafa meira og minna alla sína starfsævi starfað innan sveitarfélagsins. Þar hefur Geir sinnt mörgum og mismunandi störfum sem flest eiga þau það þó sameiginlegt að snúa að börnum og ungmennum og eflingu þeirra á einn eða annan máta. Þar spila forvarnir, hreyfing og heilsa mjög stórt hlutverk og hefur Geir komið að og hrint í framkvæmd áhugaverðum forvarnarverkefnum og heilsuverkefnum sem eru til þess að auðga samfélagsandann og elfa andlega og líkamlega heilsu Hafnfirðinga heilt yfir. Geir starfar einnig sem forsvarsmaður starfshóps um heilsueflandi samfélag en síðustu árin hefur Hafnarfjörður verið að stimpla sig inn sem Heilsubærinn Hafnarfjörður og það í öflugu samstarfi við hafnfirskt samfélag, félagasamtök, íþróttafélög, einstaklinga og starfsfólk. Hafnarfjörður hefur löngum verið mikill íþróttabær og hefur árum saman alið af sér meistara á nær öllum sviðum íþróttalífsins og árið 2015 gekk Hafnarfjarðarbær til samninga við Embætti landlæknis um formlega þátttöku í verkefninu Heilsueflandi samfélag. 

Þáttur #15: Hulda Björk Finnsdóttir, verkefnastjóri Brúarinnar

Hulda Björk Finnsdóttir, verkefnastjóri Brúarinnar , er orkurík og jákvæð gömul fimleikastjarna úr Garðabænum sem lauk námi sínu í félagsráðgjöf í Noregi þar sem hún bjó um nokkurra ára skeið og hlaut m.a. sína fyrstu starfsreynslu á fósturgreiningardeild á Sjúkrahúsinu í Þrándheimi. Hún er yngst fjögurra systkina og skilgreinir sig sem örverpi fjölskyldunnar. Uppeldismál hafa alltaf átt hug hennar allan og var hún snemma að árum farin að hafa sterkar skoðanir á uppeldi barna. Sóttist því mikið eftir því að vinna á leikskólum, æfði og þjálfaði fimleika og fannst öll þessi vinna með börnum og fjölskyldufræði í heild sinni afar áhugaverð. Þessi áhugi hefur endurspeglast í námi hennar og störfum og starfar hún í dag sem verkefnastjóri Brúarinnar hjá Hafnarfjarðarbæ.

Hafnarfjarðarbær hefur frá og með haustinu 2018 starfrækt BRÚNA sem er nýtt verklag í þjónustu við börn í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins og hefur það stóra markmið að auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra. Áhugavert verkefni sem vaknaði sem hugmynd 2016 og ákveðið var að ráðast í framkvæmd og innleiðingu á haustið 2018. Nýlega hlaut Brúin tilnefningu til evrópskra verðlauna og hélt hópur frá Hafnarfirði til Brussel til að taka þátt í verðlaunahátíð valinna verkefna.

Þáttur #14: Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, hefur alltaf verið meðvituð um sínar sterku hafnfirsku rætur þrátt fyrir að hafa búið í Hlíðunum í Reykjavík fyrstu tíu æviárin. Við tíu ára aldurinn flutti hún full eftirvæntingar í norðurbæinn í hús sem foreldrar hennar byggðu sjálf. Í þessu viðtali við Rósu er víða komið við. Rætt var um hvernig var að alast upp í Hafnarfirði, skólagönguna, áhuga hennar á gömlum munum, fyrstu íbúðakaupin, dvölina í Bandaríkjunum, áhuga á útgáfu, prentun, matargerð og ræktun hvers konar. Komið er inn á erfitt tímabil í sögu fjölskyldunnar vegna barnsmissis og starf hennar að málefnum krabbameinsveikra barna. Starfsferill Rósu er fjölbreyttur og er ekki síst tengdur fjölmiðlum og útgáfu áður en pólitíkin knúði dyra. Við ræðum um þann feril og svo vitanlega um starf hennar í bæjarstjórn, fyrst í minnihluta, síðar meirihluta og loks sem bæjarstjóri frá 2018. Rósa fer yfir fjölþætt verkefni hennar sem framkvæmdastjóri í 30.000 manna bæjarfélagi og 2.000 manna vinnustað.

Þáttur #13: Halla Harpa Stefánsdóttir, forstöðuþroskaþjálfi

Halla Harpa Stefánsdóttir er forstöðuþroskaþjálfi Hæfingarstöðvarinnar að Bæjarhrauni í Hafnarfirði. Hundakona mikil sem hefur gert það að ævistarfi sínu að þjálfa, efla og þróa aðferðir og leiðir sem stuðla að notkun óhefðbundinna tjáskipta. Halla Harpa ákvað það 10 ára gömul að verða gæslusystir (sem síðar varð að starfsheitinu þroskaþjálfi) og hefur frá 16 ára aldri unnið að málefnum fatlaðs fólks, þá fyrst á gamla Kópavogshæli eftir að hafa fylgt móður sinni í störfum hennar á Kópavogshælinu frá unga aldri. Vann þar sjálf í átján ár í ýmsum hlutverkum og sér ekki eftir einum degi. Halla Harpa er fæddur sem frumbyggi í Kópavogi en á sterkar rætur í Hafnarfirði þar sem hún bjó til tuttugu ára áður en hún flutti á Álftanes þar sem hún býr í dag og ætlar sér að búa allt sitt líf með öllum sínum hundum og köttum og eiginmanni. Halla Harpa er alin upp við mikla prúðmennsku og heimasaumaða sparikjóla. Hún er yngst fjögurra systra og hafa tvær þeirra búið í Ameríku nær allt sitt líf. Hún flakkaði ung að árum milli systra sinna til að passa systkinabörn sín og þóttu það mikil forréttindi og upplifun að fá tækifæri til að ferðast erlendis á þessum tíma.

Halla Harpa hefur unnið mikið brautryðjendastarf með Bliss tungumálið, þróun þess og möguleika en Bliss tungumálið er dæmi um árangursríka og áhugaverða nálgun og aðferð í óhefðbundnum tjáskiptum. Hún situr í alþjóðlegri nefnd fyrir Bliss tungumálið og kemur þannig beint að þróun þess í alþjóðlegu samhengi og það í beinu samstarfi við þjónustunotendurna sjálfa og samstarfsfélaga sem hafa mikið um framgang tungumálsins að segja. Halla Harpa lítur á tjáskipti sem sjálfsögð grundvallarmannréttindi og elur á því að allir eigi strax frá unga aldri að fá tækifæri til tjáskipta. Þannig eigi enginn að hefja lífið án þess að geta tjáð sig. Hæfingarstöðin í Bæjarhrauni er einn af þeim mikilvægu og sérhæfðu starfsstöðvum sem Hafnarfjarðarbær rekur. Þangað koma daglega 23 þjónustunotendur með langvarandi stuðningsþörf til vinnu og snýr skipulögð þjónusta Hæfingarstöðvarinnar sér í lagi að þjálfun í notkun óhefðbundinna tjáskipta og í skynörvun sem leiðir til aukinna lífsgæða, aukinnar stjórnar á eigin lífi og til virkari þátttöku í samfélaginu.

Þáttur #12: Hördís Jónsdóttir, deildarstjóri 1.- 5. bekkjar í Áslandsskóla

Hjördís Jónsdóttir er mikil hugsjónamanneskja og með hjartað á réttum stað. Hjá henni er fólkið í forgrunni og ung að árum ákvað hún að umönnun og uppeldi væri hennar köllun í lífinu. Í dag starfar Hjördís sem deildarstjóri 1. – 5. bekkjar í Áslandsskóla og hefur blómstrað í störfum sínum hjá grunnskólum Hafnarfjarðar þar sem hún hefur alið manninn allt frá útskrift. Hjördís ólst upp á Sauðárkróki og hafði þaðan greiðan aðgang að sveit ömmu og afa og varði þar öllum sínum sumrum sem ung stúlka hlaupandi innan um kindur, kýr og hesta. Hún hafði þann draum að verða sjúkraþjálfi en eftir að hafa tekist á við móðurhlutverkið ung að árum ákvað hún að leggja fyrir sig kennarastarfið. 

Hjördís er ein þeirra sem af persónulegum ástæðum fór að tileinka sér núvitund og hugleiðslu og finna þannig eigin leiðir til að takast á við allar þær áskoranir sem lífið býður upp á. Hún lítur á núvitund og hugleiðslu sem góð tæki og tól í verkfærakistu lífsins. Hjördís er ein þeirra sem staðið hefur í brúnni við innleiðingu á núvitund í skólastarfið hér í Hafnarfirði, bæði í eigin skóla og víðar í samstarfi við fleiri kennara, með því að dreifa þekkingu sinni og reynslu til annarra skóla og skólastiga í gegnum sameiginlegt verkefni. Núvitund í skólastarfi er orðinn fastur liður í Áslandsskóla hjá ákveðnum árgöngum og í ákveðnum fögum en draumurinn er að núvitund og hugleiðsla verði hluti af heildinni í öllu starfi skólans. 

Þáttur #11: Guðrún Þorsteinsdóttir, mannauðsstjóri Hafnarfjarðarbæjar

Guðrún Þorsteinsdóttir er fæddur Gaflari en fluttist ung til Keflavíkur þar sem hún er búsett í dag. Stefnan er tekin á að flytja aftur til Hafnarfjarðar fyrr en síðar og fjölskyldan er meira að segja búin að finna sér hverfið sem hún vill búa í. Eins og allir sem Guðrúnu þekkja þá er hún hörkutól og óhrædd við að takast á við erfið verkefni. Hún byrjaði að vinna 10 ára í útgerð föður síns, er mikill jafnréttissinni og barðist hart fyrir því að komast á sjóinn. 

Guðrún er menntuð leikskólakennari og með meistaragráðu í mannauðsstjórnun. Tók þátt í að reka einkarekinn leikskóla um tíma í anda Hjallastefnunnar. Hún hefur víðtæka reynslu af mannauðsmálum m.a. hjá Reykjanesbæ, Isavia og núna hjá Hafnarfjarðarbæ. Eldskírnina í mannauðsmálum hlaut hún hjá Reykjanesbæ þar sem hún fór í gegnum nokkur efnahagsáföll með tilheyrandi áskorunum í atvinnumálum bæjarins. Svo tókst hún á við uppganginn hjá Isavia og gríðarlegri fjölgun starfsmanna. Hafnarfjarðarbær er heppinn að fá að njóta starfskrafta Guðrúnar hjá bænum og hennar reynslu. Í viðtalinu fer hún yfir verkefnin hjá bænum, vinnustaðinn Hafnarfjarðarbæ og starf mannauðsstjóra þar sem enginn dagur er eins. Hún finnur sterkt fyrir því hve Hafnfirðingar sækja í að starfa hjá bænum enda mikil lífsgæði að lifa og starfa í sama bæ.

Í frítímanum á golfið hug hennar þar sem hún fær góða hvíld frá erilsömu starfi og er dugleg að fylgjast með tvíburadætrum sínum spila fótbolta. 

Þáttur #10: Eiríkur G. Stephensen, skólastjóri Tónlistarskóla Hafnarfjarðar

Eiríkur G. Stephensen, skólastjóri Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, var minnstur í bekknum þegar hann var yngri, matvandur mjög og frekar feiminn fram eftir aldri og lítill í sér. Hann fékk mjög listrænt uppeldi, lærði á blokkflautu sex ára gamall og kann í dag ekki á öll hljóðfæri eins og margur heldur. Eiríkur ræðir í þessu spjalli Vitans um mikilvægi tónlistar í stóra samhenginu, lífið sem Hundur í óskilum og þá sköpun sem er að eiga sér stað í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar alla daga. Tónlistarskóli Hafnarfjarðar er stór tónlistarskóli sem er alltaf að prófa sig áfram í þróun og nýsköpun í skólastarfi með virkri þátttöku starfsfólks og nemenda.

Eiríkur tók við starfi skólastjóra Tónlistarskóla Hafnarfjarðar haustið 2018 og hefur á stuttum tíma ekki bara náð að stimpla sig vel inn í skólasamfélagið í Hafnarfirði og gera góða hluti með hæfileikaríkum samstarfsfélögum hjá tónlistarskólanum heldur hefur líka séð ljósið, er fluttur til Hafnarfjarðar og búinn að koma sér vel fyrir í hjarta Hafnarfjarðar.

Þáttur #9: Hildur Arna Håkansson, kennari í Skarðshlíðarskóla

Hildur Arna er ungur kennari á unglingastigi í Skarðshlíðarskóla sem hefur vakið talsverða athygli fyrir kennsluhætti sína m.a. með notkun spjaldtölva. Hildur Arna þykir ná sérstaklega vel til unglinganna sem hún segir vera mjög áhugasama enda bera mörg verkefni þeirra þess merki. Í þessu skemmtilega viðtali fer ekki á milli mála að Hildur Arna er kennari af ástríðu. Hún er náttúrubarn og kennir náttúrufræði. Fyrir slíkan kennara er frábært að starfa í Skarðshlíðarskóla sem er með náttúruna í göngufjarlægð. Hildur hélt að hún vildi vera verkfræðingur en gekk út úr tíma í burðarþolsfræði og fór til námsráðgjafa. Þar voru örlög hennar ráðin, hún hóf kennaranám og sér ekki eftir því. Í þessu viðtali er komið víða við, rætt um kennslu og upplýsingatækni, notkun snjalltækja, virkni kennara á Twitter, samfélagsmiðla og börn, aðlögun nemenda af erlendum uppruna og sérstöðu Skarðshlíðarskóla svo fátt sé nefnt. Utan vinnu nýtur Hildur Arna þess að vera úti í náttúrunni (kemur ekki á óvart), stundar kajakróður, ferðalög, er áhugasöm um tungumál og er að afla sér skotvopnaleyfis!

Þáttur #8: Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar

Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, er kvenskörungur mikill og kona allra verka. Hún hefur ósjaldan sést með hamar á lofti og málband um hálsinn við uppsetningu á nýjum sýningum og öðrum þeim verkefnum sem safnið hennar sér um eða tekur þátt í. Korteri seinna er hún komin í hlutverk gestgjafa og farin að taka á móti gestum og gangandi á sýningar, opnanir, leiðsagnir, tónleika og smiðjur með fagfólki sínu í Hafnarborg. Í þessum Vitans ræðir Ágústa m.a. um listina að lifa og hversu stórt hlutverk list, menning og sköpun spilar í hennar lífi.

Þáttur #7: Fanney D. Halldórsdóttir, sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs

Í framsæti Vitans að þessu sinni situr Fanney D. Halldórsdóttir, sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðarbæjar eða Fanney fræðslustjóri eins og hún er jafnan kölluð. Fanney er að eigin sögn lítil, dökkhærð, snaggaraleg og snarvirk 45 ára íslensk sveitastelpa sem alin er upp á Suðurnesjunum og býr þar enn í dag. Í þessum þætti segir hún m.a. frá þeirri ást og kærleik sem býr í nafninu hennar og frá hennar helstu ástríðu sem snýr að uppeldis- og menntamálum. Fanney kom til starfa hjá Hafnarfjarðarbæ sumarið 2016 og hefur síðan þá unnið ötullega að innleiðingu á hvetjandi, skapandi og áhugaverðum verkefnum í öflugu samstarfi við allt sitt góða fólk, verkefni sem eiga öll það sammerkt að efla skólasamfélagið í Hafnarfirði. 

Þáttur #6: Anna Bára Gunnarsdóttir, deildarstjóri þjónustuvers

Hér er rætt við Önnu Báru Gunnarsdóttir, deildarstjóra þjónustuvers Hafnarfjarðarbæjar. Anna Bára er lykilmanneskja í þjónustu bæjarins og fáir sem hafa betri sýn á þjónustu við íbúa og gesti bæjarins. Hún veitir okkur innsýn í dagleg verkefni og hvernig þjónusta bæjarins hefur þróast sl. 15 ár og skemmtilegar sögur af samskiptum við íbúa. Anna Bára er búsett í Hafnarfirði en ólst upp í Keflavík og segir okkur frá uppvexti sínum þar, áhugamálum og fjölskyldu. Hún er hlaupakona, prjónakona og mikil fjölskyldumanneskja sem sinnir barnabörnum og vinnur með Oddfellow í sínum frítíma. Upptökudagur: 4. október 2019

Þáttur #5: Gunnþóra Guðmundsdóttir arkitekt og Þormóður Sveinsson skipulagsfulltrúi á umhverfis- og skipulagssviði

Í þessum þætti er spjallað við tvo af þeim starfsmönnum sem standa í brú skipulagsmála hjá Hafnarfjarðarbæ á degi hverjum. Skipulagsmál geta í eðli sínu verið flókin í undirbúningi og framkvæmd á sama tíma og þau eru afar skemmtileg og skapandi. Gunnþóra og Þormóður segja hér frá sjálfum sér, áhugamálum sínum og framtíðardraumum ásamt því að reyna að útskýra á mannamáli út á hvað skipulagsmál ganga. Hvað er aðalskipulag? Hvað er deiliskipulag? Hvað er forskrift? Og hvernig tengist þetta allt saman? Hvar er uppbygging að eiga sér stað? Hvaða svæði hafa verið skilgreind sem þéttingarsvæði og afhverju? Þetta og margt fleira í þessum áhugaverða þætti um skipulagsmálin í Hafnarfirði. Upptökudagur: 27. september 2019. 

Þáttur #4: Ægir Örn Sigurgeirsson, deildarstjóri stoðdeildar í málefnum hælisleitenda og flóttafólks

Í þessum þætti kynnumst við málefnum hælisleitenda og flóttafólks hjá Hafnarfjarðarbæ. Einnig kynnumst við starfsmanninum Ægi Erni Sigurgeirssyni sem gegnir stöðu deildarstjóra stoðdeildar í málefnum hælisleitenda og flóttafólks. Ægir er litríkur karakter og hefur mjög áhugaverðar sögur að segja frá sínum uppvexti, erfiðri lífsreynslu, skólagöngu, lífi bakarans, kennarans, félagsráðgjafans, handboltadómarans og skýrum markmiðum sem hann hefur sett sér í lífi og starfi. Upptökudagur: 20. september 2019.

Þáttur #3: Andri Ómarsson, verkefnastjóri viðburða

Í þessum þætti Vitans, hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar, ræðir Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri við Andra Ómarsson, verkefnastjóra viðburða. Hafnarfjörður hefur stimplað sig rækilega inn sem menningarbærinn síðustu árin og fjöldi fjölbreyttra viðburða og skemmtana í boði í viku hverri sem hefur haft mjög jákvæð áhrif á samfélagið í heild og rekstur á svæðinu. Þannig hefur m.a. fjöldi nýrra veitingastaða og kaffihúsa sprottið upp út um allan bæ og fjöldi innlendra og erlendra gesta aukist til muna. Hingað koma gestir í margþættum tilgangi, til að upplifa fallegt umhverfi og náttúruperlur, skella sér á tónleika í hjarta Hafnarfjarðar, leiksýningar og listasýningar, á kaffihús eða út að borða. Eða til að upplifa list, sögu, hönnun og hvers kyns hamingju í verslunum og búðum víðs vegar um bæinn. Andri fer hér yfir þá föstu viðburði sem í boði eru yfir árið, ræðir um einstakan samhug Hafnfirðinga og mikilvægi einstaklingsframtaksins. Það styttist í jólin og er undirbúningur Jólaþorpsins í Hafnarfirði kominn á fullt enda um að ræða stóra hátíð sem stendur yfir allar helgar í desember og margar hendur koma að. Hátíð sem er flestum Íslendingum orðin að góðu kunn og orðin fastur liður og hefð á aðventunni. Upptökudagur: 13. september 2019.

Þáttur #2: Eva Michelsen, verkefnastjóri Lífsgæðaseturs St. Jó

Í öðru viðtali Vitans ræðir Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri, við Evu Michelsen, verkefnastjóra Lífsgæðaseturs St. Jó en þann 5.september síðastliðinn var húsnæði St. Jó opnað að nýju eftir 6 ára óvissu. Í dag eru fimmtán fyrirtæki starfandi innan veggja setursins sem öll eiga það sammerkt að starfa í þágu samfélagins á sviði heilsueflingar og bættra lífsgæða. Eva rekur hér forsöguna og segir frá framkvæmdunum sem hafa staðið yfir síðustu tvö árin. Þessi fyrsti áfangi í uppbyggingu St. Jó sem nú hefur verið formlega opnaður, þykir einstaklega vel lukkaður og tilfinningin sem skapast hefur með tilkomu flottra fyrirtækja og félagasamtaka einstök. Á sýningu í anddyri St. Jó hefur sögu St. Jósepssystra í húsinu verið gerð mjög góð skil. Sýningin er öllum opin og velkomið að kíkja í kaffi í „hjartað“ samkomustað starfsmanna og gesta fyrir miðju þeirrar hæðar sem nú hefur verið opnuð.  Upptökudagur: 6. september 2019. 

Þáttur #1: Björn Pétursson, bæjarminjavörður

Í fyrsta viðtali Vitans, hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar, ræðir Sigurjón Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs, við Björn Pétursson, bæjarminjavörð. Viðtalið er tekið upp í hinu sögufræga húsi Bookless Bungalow við Vesturgötu þar sem Björn leiðir okkur í gegnum áhugaverða þætti í starfsemi safnsins, sögu bæjarins og segir skemmtilegar sögur m.a. af draugagangi, atkvæðasmölun Siggu í Siggubæ og gefur okkur uppskrift að góðum sunnudegi í Hafnarfirði.  Upptökudagur: 30. ágúst 2019


Var efnið hjálplegt? Nei