Fróðleiksmolar


Fróðleiksmolar

Hafnarfjarðar er fyrst getið svo heitið geti í heimildum um 1400 en þó er staðarins getið í Landnámabók.

Fyrsta lútherska kirkjan á Íslandi var reist þar sem hét Háigrandi, gegnt Óseyri, rétt við smábátahöfnina. Kirkjan mun hafa verið reist árið 1533.

Sérstaklega góð hafnarskilyrði gerðu Hafnarfjörð snemma að einni helstu verslunarhöfn landsins og hér var aðalhöfn þýskra kaupmanna á 16. öld og á fyrri hluta einokunartímabilsins á 17. öld.

Fyrsta tilraun til þilskipaútgerðar á Íslandi var gerð í Hafnarfirði á vegum Innréttinga Skúla Magnússonar á árunum 1753-1759.

Bjarni Sívertsen, nefndur Bjarni riddari eftir að hafa fengið aðalstign hjá danska kónginum, hóf að versla í Hafnarfirði 1794. Hann var brautryðjandi á Íslandi í innlendri verslun og útgerð. Hann lést 1833 og hefur verið nefndur faðir Hafnarfjarðar. Bjarni lét reisa íbúðarhús fyrir sig 1803-1805 sem stendur enn og hýsir nú hluta Byggðasafns Hafnarfjarðar.

Fyrsti vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur var lagður 1898 (verklok).

Ágúst Flygenring og Einar Þorgilsson hófu báðir útgerð fyrir 1900, Einar byrjaði 1886.

Sími var lagður til Hafnarfjarðar að tilhlutan Telefónfélags Reykjavíkur og Hafnarfjarðar árið 1890 og tekinn í notkun 15. október það ár. Telefónfélagið var stofnað 26. apríl, 1890, að forgöngu Jóns Þórarinssonar, skólastjóra Flensborgarskólans.

Jóhannes Reykdal setti upp vatnsaflsrafstöð 12.desember árið 1904 og bauð almenningi rafmagn til afnota. Það var fyrsta almenningsrafveitan á Íslandi.

Fyrsti togari Íslendinga, Coot, var gerður út frá Hafnarfirði 1905-1908. Ketillinn úr honum stendur við hringtorgið þar sem mætast Reykjavíkurvegur, Strandgata og Vesturgata.

Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1. júní, 1908. Þá bjuggu 1469 manns í bænum.

Fyrsti bæjarstjórinn var Páll Einarsson en hann var þá sýslumaður og því embætti fylgdi bæjarstjóraembættið. Skömmu síðar varð Páll fyrsti borgarstjóri
Reykjavíkur.

Lögregla var stofnuð í Hafnarfirði 1908. Þá voru tvö heljarmenni ráðin til starfans; Jón Hinriksson, kennari, og Jón Einarsson, sjómaður.

Þann 1. janúar, 1909, var hafnarsjóður Hafnarfjarðar stofnaður, samhliða útgáfu reglugerðar fyrir höfnina. Ytri mörk hafnarinnar voru milli ,,Balakletts og Hvaleyrarhöfða".  Með tilkomu reglugerðarinnar urðu öll skip, stærri en 8 smálestir að greiða af farmrými sínu. Skipum þeim sem, sem lagt var í höfninni, var gert skylt að greiða legugjald.

Slökkvilið var stofnað 1909. Fyrsti slökkviliðsstjórinn var Jóhannes Reykdal.

Vatnsveita var lögð til bæjarins og vatnsleiðslur í bænum árið 1909.

Þann 7. nóvember 1911 samþykkir bæjarstjórn að láta smíða hafskipabryggju ásamt vörupalli ofan hennar. Smíði bryggjunnar hófst í maí 1912.

Þann 28. desember 1912 lagðist fyrsta skipið við nýju hafskipabryggjuna. Það hét Sterling. Bryggjan var formlega vígð 16. febrúar, 1913.

Fyrsti bíllinn kom til Hafnarfjarðar 1913. Það voru Booklessbræður sem áttu bílinn sem var ,,auðvitað" sportbíll af gerðinni Austin Martin. Mun þetta hafa verið fyrsta bifreiðin sem komst klakklaust milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Áætlunarferðir milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur með bifreiðum hófust 1914.

Þann 1. ágúst 1969 var höfnin í Straumsvík formlega tekin í notkun. 1. ágúst 1994 hófst nýtt tímabil í rekstri Straumsvíkurhafnar. Þá hafði ÍSAL greitt upp stofnkostnað hafnarinnar og við tók 20 ára tímabil þar sem aðeins var greitt 0,1 % af framleiðsluverðmæti verksmiðjunnar.

Ráðhúsið í Hafnarfirði, Strandgötu 6, var hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Ekki hafði fyrr verið byggt sérstakt ráðhús fyrir starfsemi bæjarskrifstofa en byggingu ráðhússins hér lauk árið 1944.


Var efnið hjálplegt? Nei