FundargerðirFundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð - 3573

Haldinn á fjarfundi,
06.05.2021 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Ágúst Bjarni Garðarsson formaður,
Kristinn Andersen varaformaður,
Ólafur Ingi Tómasson aðalmaður,
Adda María Jóhannsdóttir aðalmaður,
Sigurður Þórður Ragnarsson aðalmaður,
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Jón Ingi Hákonarson áheyrnarfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Guðríður Guðmundsdóttir, 
Einnig sátu fundinn Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigurður Nordal sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2101642 - Samband íslenskra sveitarfélaga, XXXVI. landsþing 2021
Lagður fram tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem boðað er til landsþings sambandsins 21. maí nk.
2. 2105010 - Sörli, Íslandsmót barna- og unglinga 2021, hestaíþróttir, stuðningur
Lagt fram erindi frá stjórn Hestamannafélagsins Sörla dags. 29.apríl sl.
Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og óskar eftir tillögum að aðkomu frá íþrótta- og tómstundafulltrúa.
Íslandsmót barna og unglinga 2021, Hestamannafélagið Sörli.pdf
3. 1110157 - Geymslusvæðið Kapelluhrauni, gatnagerð og gjöld
Lagt fram.
Sigurður Haraldsson sviðsstjóri mætir til fundarins.
Lagt fram og vísað til úrvinnslu hjá bæjarlögmanni.
4. 2005180 - Samgöngusáttmáli
Lagt fram svarbréf dags. 3.maí sl. frá stjórn Betri samgangna ohf.
Bæjarráð þakkar jákvæðar undirtektir og góð viðbrögð.
Bréf til Hafnarfjarðarbæjar 03.05.2021.pdf
Fylgiskjal.pdf
5. 1605469 - Cuxhavengata 2 og Óseyrarbraut 4, lóðarleigusamningar
2.liður úr fundargerð hafnarstjórnar frá 21.apríl sl.
Tekin fyrir að nýju endurskoðun á lóðasamningum Hafnarfjarðarhafnar vegna Cuxhavengötu 2 og Óseyrarbrautar 4 með vísan til breytinga á deiliskipulagi sem tók gildi 4. október 2013.

Hafnarstjórn samþykkir að gefið verði út fylgiskjal með lóðarleigusamningi fyrir lóðina Cuxhavengata 2 sem yfirlýsing um breytta stærð lóðarinnar. Í samræmi við gildandi deiliskipulag stækkar lóðin í 1463,5 fm. Fylgiskjal þetta skal gilda í samræmi við þinglýstan lóðarleigusamning um lóðina. Jafnframt samþykkir hafnarstjórn að lóðarsamningur vegna Óseyrarbrautar 4 verði endurnýjaður til ársloka 2022 og lóðarstærð leiðrétt í samræmi við gildandi deiliskipulag og stækkuð í 2921,3 fm. Hafnarstjórn vísar málinu til endanlegrar afgreiðslu í bæjarráði.
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi fylgiskjal með lóðarleigusamningi sem yfirlýsing um breytta lóðarstærð lóðarinnar Cuxhavengata 2. Bæjarráð samþykkir jafnframt að lóðarleigusamningur vegna Óseyrarbrautar 4 verði endurnýjaður til ársloka 2022 og að lóðarstærð verði leiðrétt til samræmis við gildandi deiliskipulag.
Lóðasamningur Cuxhavnengata 2.pdf
242151_M_121026J_Osbr_2_4_Cux_2_Fb_1_3og16_18.pdf
Cuxhavengata 2.drög.fylgiskjal.21.3.21.pdf
6. 2104581 - Gjótuhraun 1, ósk um endurnýjun á lóðarleigusamningi
Endurnýjun lóðarleigusamnings
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi lóðarleigusamning.
Gjótuhraun 1.drög.lóðarleigusamningur.30.4.21.pdf
218224_3_MBL_Flatahr7.pdf
7. 2104545 - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, 668. mál til umsagnar
Lagt fram
Lagt fram.
FW: Frá nefndasviði Alþingis - 668. mál til umsagnar.pdf
8. 2105011 - Rafvæðing bílaflotans, stefnumótun Hafnarfjarðarbæjar, starfshópur
Lagt fram erindi frá bæjarfulltrúa Viðreisnar:

Stefnumótun Hafnarfjarðarbæjar þegar kemur að rafvæðingu bílaflotans.
Fulltrúi Viðreisnar óskar eftir því að settur verði á fót starfshópur til að koma með tillögur að stefnumótun fyrir Hafnarfjarðarbæ vegna rafvæðingar bílaflotans.
Greinargerð
Drægi rafbíla er stöðugt að aukast og verð á rafbílum lækkar nokkuð hratt í samanburði við bensín og díselbílinn. Það mun ekki líða langur tími þar til að það verði mun hagstæðara fyrir allan almenning að fjárfesta í rafbíl frekar en bíl knúinn bensíni. Þegar það verður munu orkuskiptin ganga yfir nokkuð hratt. Það er því mikilvægt að ríki og bæjarfélög ásamt einkaaðilum vinni saman að því að byggja upp nauðsýnlega innviði þannig að þessi þróun geti átt sér stað hratt og örugglega.
Sem framsækið og nútímalegt samfélag viljum við í Hafnarfirði vera í fararbroddi þessar þróunar og því ekki seinna vænna að vinna skipulega að stefnumótun og framkvæmdaráætlun í þessum málaflokki. Spurningar eins og hvar og hvernig eigi að koma upp hleðslustöðvum í grónum hverfum og hvernig skuli fjármagna slíkt, hvar eigi að setja upp hleðslustöðvar í almenningsrými o.fl. Mikilvægt er að þessi starfshópur fái tækifæri til að kalla til sín færustu sérfræðinga landsins í þessum málaflokki og skili af sér tillögum næsta vetur.
Lagt fram.
9. 1903229 - Miðbær, deiliskipulag, starfshópur
„Bæjarráð óskar eftir því að umhverfis- og skipulagssvið vinni að tillögu að fyrirkomulagi bílastæðamála í miðbæjar Hafnarfjarðar í samræmi við fyrirliggjandi skýrslu. Bílastæðamálin verði almennt endurskoðuð og fundin verði ákjósanleg staðsetning bílastæðahúss/kjallara innan skipulagsmarka miðbæjarins.“
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu.
Miðbær skýrsla 25_01_2021_yfirlesið.pdf
10. 2105012 - Grunnskólar, tíðavörur, aðgengilegar, gjaldfrjálsar, tillaga
Lögð fram tillaga frá bæjarfulltrúa Viðreisnar:

Viðreisn gerir það að tillögu sinni að tíðavörur verði aðgengilegar og gjaldfrjálsar í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar.

Á Íslandi sem og víða erlendis hefur umræðan um fríar tíðavörur á almenningssalernum orðið meira áberandi á undanförnum misserum. Fólk sem hefur blæðingar hefur almennt ekki val um hvort og hvenær blæðingar hefjast. Því hafa ýmsir hópar kallað eftir því að tíðavörur verði taldar til sama flokks og aðrar hreinlætisvörur s.s. salernispappír og handsápa á almennum salernum. Það hefur þó enn ekki verið samþykkt með lögum. Kynþroskaskeiðið getur verið viðkvæmur og flókinn tími fyrir börn og ungmenni á margan hátt. Sum börn eru afar ung þegar kynþroskatímabilið hefst en það getur jafnvel munað 5-6 árum á milli einstaklinga hvenær ferlið fer af stað. Þegar blæðingar eru byrjaðar er algengt að fyrstu árin séu þær óreglulegar og mismiklar. Það getur aukið verulega á kvíða og streitu ungra einstaklinga að óttast að byrja á blæðingum í skólanum eða að þurfa að fara á salernið og hafa ekki tíðavörur meðferðis.
Í Reykjavík hófst tilraunaverkefni í nokkrum skólum og félagsmiðstöðvum árið 2018 og hefur tekist vel og þykir nemendum þar vera mikið öryggi fólgið í því að geta gengið að tíðarvörum vísum ef á þarf að halda.
Bæjarráð vísar fyrirliggjandi tillögu til umsagnar hjá mennta- og lýðheilsusviði.
11. 2105021 - Hafnarborg, listaverk
Til umræðu.Fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi tillögu:

Bæjarráð samþykkir að setja upp listaverkið á gafli Hafnaborgar ekki seinna en föstudaginn 7. maí og biðji listamennina Libiu Castro og Ólaf Ólafsson afsökunar á því að hafa fjarlægt verkið án samráðs við þau.

Tillagan er felld með atkvæðum meirihluta gegn atkvæðum minnihluta. Fulltrúi Miðflokks situr hjá.


Bæjarfulltrúar meirihluta leggja fram svohljóðandi tillögu:

Bæjarráð leggur til að sótt verði um tilskilin leyfi til byggingarfulltrúa um að umræddu verki verði komið upp frístandandi fyrir utan húsið og verði staðsett á þann hátt að merki Hafnarborgar verði sýnilegt. Umhverfis- og framkvæmdasviði verði falið að útfæra uppsetninguna í samráði við listamennina og forstöðumann Hafnarborgar.

Fundarhlé gert kl. 9:54.
Fundi fram haldið kl. 10:05.

Tillagan er samþykkt með atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Miðflokks. Fulltrúi Samfylkingarinnnar situr hjá við atkvæðagreiðsluna.
Bæjarráð óskar eftir því að byggingafulltrúi vinni strax að málinu.


Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri leggur fram svohljóðandi bókun:

Vegna listaverks í Hafnarborg

Undirrituð hefur lagt fram tillögu að málamiðlun milli Hafnarfjarðarbæjar og listamannanna Ólafs Ólafssonar og Liberu Castro vegna listaverks sem komið hafði verið upp á gafli menningarmiðstöðvarinnar Hafnarborgar og hengt yfir nafn hússins.

Verkið var tekið niður 2. maí þar sem tilskilin leyfi vantaði við uppsetningu þess. Um er að ræða hús í eigu Hafnarfjarðarbæjar en þegar óskað er eftir að setja upp skilti, myndverk eða annað á eða við húsnæði bæjarins þarf slíkt erindi að fara í formlegt ferli og afgreiðslu. Þar gengur það sama yfir alla sem áhuga hafa á slíku. Ekkert slíkt liggur fyrir í þessu máli.
Sýningin ,,Töfrafundur ? áratug síðar“ hefur verið í undirbúningi undanfarin misseri og var opnuð í Hafnarborg 20. mars sl. Undirrituð hefur allan þennan tíma verið meðvituð um uppsetningu hennar og fylgst með áhuga í kringum hana. Því er algjörlega vísað á bug að þótt verk af sýningunni sem sett var upp í leyfisleysi á hús bæjarins hafi verið tekið niður sé um ritskoðun að ræða.
Fullur skilningur er á því að sýning af þessu tagi getur teygt sig út fyrir innanhússrými hennar. Lagt er til að sótt verði um tilskilin leyfi til byggingarfulltrúa um að umræddu verki verði komið upp frístandandi fyrir utan húsið og verði staðsett á þann hátt að merki Hafnarborgar verði sýnilegt. Umhverfis- og framkvæmdasviði yrði falið að útfæra uppsetninguna í samráði við listamennina og forstöðumann Hafnarborgar.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri


Fulltrúi Bæjarlista leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Bæjarlistans geldur varhug við því að kjörnir fulltrúar hafi afskipti af listrænni stjórn menningarstofnana bæjarins og þar með frjálsri tjáningu listafólks á vettvangi þeirra. Undirrituð óskaði eftir gögnum um starfsreglur Hafnarborgar undir málið hér í dag hvað varðar sýningastjórn, listræna stjórn o s frv. til að styrkja málefnalega umræðu í ráðinu. Við þessari beiðni var ekki orðið og er hér með gerð athugasemd við það.
Ég tel það listrænu sjálfstæði Hafnarborgar og tjáningarfrelsi listafólks til vansa að bæjarráð Hafnarfjarðar greiði atkvæði um það hvar megi og megi ekki birta listaverk sem eru hluti virkra sýninga.
Það er afvegaleiðing að mínu mati að málið fjalli um húsakost bæjarins og skrúfur í veggi og myndi ég því ekki taka þátt í atkvæðagreiðslu um það hvort verkið eigi að hanga á vegg eða standa frítt þó svo ég hefði atkvæðisrétt hér í dag.
Þegar upp er staðið hefur inngrip bæjarstjóra um síðustu helgi í raun styrkt skilaboð sýningarinnar sem um ræðir, með því að standa fyrir afskiptum stjórnvalds af lýðræðislegri umræðu á vettvangi listarinnar. Að því leyti hefur þetta mál á sér yfirbragð gjörnings og hvata til umræðu, sem er einmitt tilgangur verksins.
Ljóst má vera að ferlar varðandi það hvernig fyrirspurnum listafólks um nýtingu sýningarhúsnæðis Hafnarborgar er háttað eru óskýrir og þörf á því að skýra þá svo ekki þurfi að koma til samskiptavanda af því tagi sem hér um ræðir á ný. Vinna við þá umgjörð ætti að mínu mati að stuðla að aðskilnaði pólitíkurinnar í bænum og listrænnar tjáningar í menningarstofnunum bæjarins.
Guðlaug Svala Kristjánsdóttir


Fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar í bæjarráði gera alvarlegar athugasemdir við þá ritskoðun sem átti sér stað þegar bæjarstjóri stóð fyrir því að listaverk var tekið niður af vegg Hafnarborgar sl. sunnudag. Verkið, „Töfrafundur ? áratug síðar“ er hluti af sýningu spænsk-íslenska listamannatvíeykisins Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar en þau eru handhafar íslensku myndlistaverðlaunanna 2021 og hafa sett upp sýningar um allan heim. Það að tilskilin leyfi hafi vantað er ekki á rökum byggt enda hafa engin gögn verið lögð fram því til staðfestingar. Það er sorglegt, og með öllu óásættanlegt að bæjarstjóri blandi sér með þessum hætti í listtjáningu og hlýtur að teljast alvarleg aðför að tjáningarfrelsi.
Undirrituð taka ekki þátt í því að greiða atkvæði um með hvaða hætti öðrum listaverkið fari upp heldur eigi það að vera listafólksins að ákveða.
Adda María Jóhannsdóttir
Jón Ingi HákonarsonFundargerðir
12. 2001560 - Húsnæði stjórnsýslunnar
Lagðar fram fundargerðir starfshópsins frá 7. og 15.apríl sl.
Fundur 7. apríl 2021.pdf
Fundur 15. apríl 2021.pdf
13. 2104014F - Hafnarstjórn - 1597
Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 21.apríl sl.
14. 2104019F - Hafnarstjórn - 1598
Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 26.apríl sl.
15. 2101087 - Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, fundargerðir 2021
Lögð fram fundargerð heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 26.apríl sl.
265. fundur heilbrigðisnefndar 26.04.2021 - Fundargerð.pdf
16. 2104018F - Menningar- og ferðamálanefnd - 368
Lögð fram fundargerð menningar- og ferðamálanefndar frá 28.apríl sl.
17. 2010357 - Samtök orkusveitarfélaga, fundargerðir
Lögð fram fundargerð stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga frá 16.apríl nk.
stjórn Samtaka orkusveitarfélaga - 46.pdf
18. 2101086 - Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerðir 2021
Lögð fram fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 30.apríl sl.
stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 897.pdf
19. 2101080 - SORPA bs, fundargerðir 2021
Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 9.apríl sl.
Fundargerð 446. fundar stjórnar SORPU.pdf
Fylgiskjal.pdf
20. 2101085 - Stjórn SSH, fundargerðir 2021
Lögð fram fundargerð stjórnar SSH frá 12.apríl sl.
Stjórn SSH 523 fundur_2021_04_12_19.pdf
21. 2101084 - Strætó bs, fundargerðir 2021
Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 9.apríl sl.
Fundargerð stjórnarfundur 338 9 apríl 2021.pdf
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:30 

Til baka Prenta