Fundargerðir


Fundargerðir

Til baka Prenta
Fræðsluráð - 496

Haldinn í Krosseyri, Linnetsstíg 3,
21.09.2022 og hófst hann kl. 14:00
Fundinn sátu: Kristín María Thoroddsen formaður,
Hilmar Ingimundarson aðalmaður,
Bjarney Grendal Jóhannesdóttir varaformaður,
Kolbrún Magnúsdóttir aðalmaður,
Gauti Skúlason aðalmaður,
Karólína Helga Símonardóttir áheyrnarfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Valgerður Sveinbjörnsdóttir, ritari
Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Árný Steindóra Steindórsdóttir, sviðsstjóri, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, Lars Jóhann Imsland Hilmarsson, áheyrnarfulltrúi skólastjóra grunnskóla, Herborg Friðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Særún Þorláksdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Aldís Dröfn Stefánsdóttir, áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla, Kristín Blöndal Ragnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna og Margrét Thelma Líndal áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2203328 - Upplestrarkeppni 7. bekkinga
Lögð fram að nýju skýrsla verkefnisstjóra Upplestrarkeppni 7. bekkinga skólaárið 2021-2022.
Fræðsluráð þakkar Ingibjörgu Einarsdóttur fyrir kynninguna.
Upplestrarkeppnin_Skýrsla-vor-2022.pdf
2. 2208468 - Viðreisn fyrirspurn forvarnir
Svar lagt fram við fyrirspurn Viðreisnar um fíkniefnaneyslu ungmenna.
Fulltrúi Viðreisnar þakkar fyrir samantektina og svar við fyrirspurn um forvarnir, ítrekar að hér sé ekki verið að setja út á eða lítislækka það starf sem hefur verið unnið hingað til. Eingöngu opna augun fyrir því að við búum í breyttu landslagi eftir covid og þurfum að skoða það að alvöru hvað eigi að gera.
Það er jákvætt að breytingar hafa orðið á vímuefnaneyslu barna- og ungmenna á síðustu árum skv. niðurstöðum Rannsóknar- og greininga og Menntamálastofnun. Sem betur fer er neysla ungmenna á hugbreytandi efnum í lægri kanntinum á Íslandi miðað við hin Norðurlöndin, en það er samt sem áður vaxandi vandamál í samfélaginu okkar. Það eru helst þá börnin og ungmennin sem þrífast ekki í tómstundum, finna sig ekki í þessu hefðbundna samfélagi og þarf að finna lausnir til þess að vinna með þeim.
Út í skólasamfélaginu, hvort sem það er í grunnskólum eða framhaldsskólum þá hafa stjórnendur og kennarar áhyggjur af stöðu barna og ungmenna eftir covid. Það eru ýmis áhættumerki, skólaforðun, kvíði, vanlíðan, áhættuhegðun og annað sem er að koma fram í meira mæli en var fyrir covid. Það þarf ekki að fara langt, heyra í skólastjórnendum og kennurum til þess að vita af þessum raunverulegu áhyggjum, eftirköst af covid eru sannarlega að hafa áhrif.
Fulltrúi Viðreisnar ítrekar mikilvægi þess að hækka starfshlutfall forvarnarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar og fjölga stöðugildum í Hamrinum sem og Músík og mótor.

Fræðsluráð þakkar fyrir meðfylgjandi svar. Meirihluti fræðsluráðs vekur athygli á því að í lok síðasta kjörtímabils var samþykkt ný endurskoðuð menntastefna sem tekur m.a. mið af lýðheilsumálum en við gerð hennar var ákveðið að taka ekki forvarnarmálin sérstaklega fyrir þá, enda hvort tveggja stór og mikilvæg verkefni, en að á ákveðnum tímapunkti yrði unnið að endurbættri forvarnarstefnu.
Meirihluti fræðsluráðs leggur til að nú þegar menntastefnan hefur verið útgefin sé ástæða og tækifæri til að hefja vinnu við forvarnarstefnu og leggur til að sú vinna hefjist á nýju ári, 2023.

Svar við fyrirspurn Viðreysnar.pdf
3. 2209163 - Frístundaheimili í Hafnarfirði
Lagt fram svar við fyrirspurn Samfylkingarinnar frá síðasta fundi fræðsluráðs um frístundaheimilin og óráðnar stöður skóla- og frístundaliða.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði leggja fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar þakka framlögð svör. Í þeim kemur fram að nú er 91 barn á biðlista eftir plássi á frístundaheimili. Þar kemur einnig fram að enn á eftir að ráða í 10,5 stöðugildi þegar mánuður er liðinn frá því skólar hófust. Þessi staða er ekki ásættanleg og hún bitnar fyrst og fremst á börnum og barnafjölskyldum í bænum. Fulltrúar Samfylkingarinnar krefjast þess að þessi mál verði tekin fastari tökum og leitað verði lausna og gripið til mótvægisaðgerða til þess að koma til móts við börn og barnafjölskyldur sem treysta á þessa þjónustu. Leita þarf úrlausnar með ráðningu á starfsfólki við fyrsta tækifæri og auglýsa af meiri krafti eftir fólki. Frístundarheimilin eru mikilvægur liður í þjónustu við börn og barnafjölskyldur og því brýnt að allra leiða sé leitað til að leysa úr vanda þeirra.

Meirihluti fræðsluráðs vekur athygli á því að öll börn sem sótt var um á tilsettum tíma hafa nú þegar fengið pláss enda var ráðið í þær stöður í sumar en verið er að manna stöður vegna barna sem sótt var um nú í haust.
Svar við fyrirspurn um mönnun í frístund.pdf
4. 2208463 - Samfylkingin fyrirspurn um leikskólamál
Lagt fram svar við fyrirspurn Samfylkingarinnar um leikskólamál.
Fræðsluráð þakkar þróunarfulltrúa leikskóla fyrir minnisblað og greinagóða yfirferð um stöðuna.

Meirihluti fræðsluráðs vekur athygli á bókun meirihlutans frá fundi í fræðsluráði þann 24. ágúst síðastliðinn þar sem m.a. kom fram að af þeim 426 börnum sem fengið höfðu boð var aðlögun ekki hafin hjá 17 börnum á þeim tíma sem minnisblaðið fjallar um sem er tæp 4% af heildinni og lítill hluti þótt að sjálfsögðu markmiðið sé að öll börn sem fái boð geti hafið aðlögun á tilsettum tíma. Aðlögun hjá þeim börnum sem ekki eru byrjuð hefst um leið og búið er að ráða í þær stöður sem enn vantar í og vill meirihluti fræðsluráðs ítreka þakkir til starfsmanna og stjórnenda leikskóla bæjarins sem leggja allt sitt af mörkum til að það verði sem fyrst og okkar yngstu íbúar geti hafið sína fyrstu skólagöngu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði leggja fram eftirfarandi bókun
Fulltrúar Samfylkingarinnar þakka framlögð svör. Af þeim má lesa að leikskólar í Hafnarfirði búa við mönnunarvanda. Fram kemur að 11 af 17 leikskólum bæjarins eru ekki fullmannaðir og enn á eftir að ráða í 25 stöðugildi. Samkvæmt upplýsingum úr fyrirliggjandi minnisblaði og minnisblaði, sem lagt var fyrir á fundi fræðsluráðs 20. október 2021, þá hefur 41 leikskólakennari sagt stöðu sinni lausri á tímabilinu 2019 til og með 2021 og átta hafa bæst við það sem af er þessu ári. Þá hafa 47 leikskólastarfsmenn með aðra háskólamenntun en kennaramenntun sagt starfi sínu lausu frá árinu 2019 til dagsins í dag. Einnig er vert að benda á að frá og með 2019 til og með 2021 sögðu 179 ófaglærðir einstaklingar upp störfum á leikskólum í Hafnarfirði. Það er því óhætt að segja að leikskólar í Hafnarfirði búi við mönnunarvanda og er það vísbending um að pottur sé brotinn í starfsumhverfi leikskólastarfsfólks í Hafnarfirði. Við þessu þarf að bregðast með skjótum hætti og hefja þegar í stað vinnu sem miðar að því að bæta starfsumhverfi starfsfólks leikskóla og sú vinna á erindi inn í fjárhagsáætlunargerð næsta árs.
Minnisblað_fyrirspurn samfylkingin.pdf
5. 2208502 - Foreldraráð leikskólabarna tillaga, fræðsla og þjálfun ófaglærðra starfsmanna
Lagt fram svar við fyrirspurn foreldraráðs leikskólabarna.
Lagt fram.
Fyrirspurn foreldraráð_loka.pdf
6. 2201750 - Skóladagatal 2022-2023 grunnskólar
Lögð fram ósk um breytingu á skóladagatali Lækjarskóla skólaárið 2022-2023.
Samþykkt.
Lækjarskóli breyting á skóladagatali 2022-2023.pdf
7. 2209787 - Hinsegin hittingar ungmenna í félagmiðstöðinni Vitanum
Fulltrúar Samfylkingarinnar í fræðsluráði leggja til að Hinsegin hittingum í félagsmiðstöðinni Vitanum verði fjölgað úr tveimur í mánuði í a.m.k. fjóra.

Greinargerð:
Hinsegin hittingar fyrir hinsegin ungmenni í Hafnarfirði hafa verið haldnir í félagsmiðstöðinni Vitanum í Hafnarfirði síðan í febrúar á þessu ári. Þessir hittingar eru mikilvægur og nauðsynlegur liður í félagslífi hinsegin ungs fólks. Eins og staðan er núna eru þessir hittingar haldnir tvö kvöld í mánuði. Það er mikil eftirspurn eftir þessari nauðsynlegu þjónustu og það eru fjölmörg ungmenni sem mæta í hvern hitting. Það er því skoðun fulltrúa Samfylkingarinnar að það verði að tryggja fjármagn til þess að Vitinn geti staðið fyrir hinsegin hittingum fyrir ungmenni a.m.k. einu sinni í viku.
Fræðsluráð vísar tillögu til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2023.
8. 2209789 - Íslenskunám meðfram vinnu hjá Hafnarfjarðarbæ
Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar:

Hver er stefna Hafnarfjarðarbæjar þegar kemur að því að gefa starfsfólki sínu svigrúm til þess að stunda íslenskunám meðfram vinnu? Er slíkt nám háð samþykki yfirmanns hverju sinni eða er íslenskunám meðfram vinnu eitthvað sem rúmast innan sí- og endurmenntunaráætlunar þeirra vinnustaða sem Hafnarfjarðarbær rekur?
Fyrirspurn varðandi starfsdeildir er heyra undir mennta- og lýðheilsusvið vísað til sviðsins til úrvinnslu hjá mennta- og lýðheilsusviði

Meirihluti fræðsluráðs vekur athygli á því að Mennta- og lýðheilsusvið getur einungis fjallað um starfsmenn sem heyra undir sviðið og stefnu sviðsins er varðar íslenskunám meðfram vinnu fyrir þá og er það hvorki í verkahring né á valdi sviðsins að setja stefnu Hafnarfjarðarbæjar heilt yfir í þessum málum. Einnig vill meirihluti fræðsluráðs vekja athygli á svari þróunarfulltrúa við dagskrárlið 4, þar sem spurt er um íslenskukennslu, en þar er gerð grein fyrir kennslu starfsmanna í leikskólum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun.
Íslenskunám gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur á því að gera nýjum Íslendingum kleift að taka fullan þátt í íslensku samfélagi. Því er mikilvægt að fólk sem talar litla eða enga íslensku fái svigrúm frá vinnuveitanda til þess að stunda íslenskunám meðfram vinnu. Í kjarasamningum eru oftar en ekki ákvæði sem túlka má með þeim hætti að fólk geti fengið frí frá vinnu til þess að mennta sig. Samfylkingin leggur áherslu á að starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar fái svigrúm til þess að stunda íslenskunám meðfram vinnu en þannig myndi Hafnarfjarðarbær ganga fram með góðu fordæmi á íslenskum vinnumarkaði.
9. 2209790 - Námsflokkar Hafnarfjarðar
Lagðar fram eftirfarandi fyrirspurnir fulltrúa Samfylkingarinnar:

1. Er starfsemi innan Námsflokka Hafnarfjarðar á vegum Miðstöðvar símenntunar í gangi í dag?
2. Hvaða áform hefur Hafnarfjarðarbær varðandi Námsflokka Hafnarfjarðar í náinni framtíð?
3. Er fyrirhugað að bjóða aftur upp á námskeiðið "Íslenska sem annað tungumál" innan Námsflokka Hafnarfjarðar á vegum Miðstöðvar símenntunar?
Fyrirspurn Samfylkingarinnar vísað til úrvinnslu hjá mennta- og lýðheilsusviði

Meirihluti fræðsluráðs bókar eftirfarandi. Samfélagið hefur tekið breytingum og stöðug þróun á sér stað er varðar kennslu og form námskeiða. Meirihluti fræðsluráðs leggur til að í útfærslu á tækni- og nýsköpunarsetrinu, sem samþykkt hefur verið að koma á laggirnar, verði tekið tillit til og rými haft til útleigu fyrir þá sem vilja halda námskeið eða vera með kennslu. Hugmyndafræðin á bakvið setrið er einmitt að vera aðgengilegt fyrir fólk á öllum aldri og auka fjölbreytileika og aðgengi íbúa Hafnarfjarðar að námskeiðum, fyrirlestrum og leiðsögn og styðja við hugmyndir og nýsköpun.
10. 2208008F - Íþrótta- og tómstundanefnd - 355
Lögð fram fundargerð 355. fundar íþrótta- og tómstundanefndar.
11. 2209008F - Íþrótta- og tómstundanefnd - 356
Lögð fram fundargerð 356. fundar íþrótta- og tómstundanefndar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:15 

Til baka Prenta