Fundargerðir



Fundargerðir

Til baka Prenta
Fræðsluráð - 326

Haldinn í Krosseyri, Linnetsstíg 3,
01.06.2015 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Rósa Guðbjartsdóttir. Einar Birkir Einarsson. Hörður Svavarsson. Adda María Jóhannsdóttir. Sverrir Garðarsson.
Fundargerð ritaði: Valgerður Sveinbjörnsdóttir
Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Magnús Baldursson, sviðsstjóri, Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Lars Jóhann Imsland Hilmarsson, áheyrnarfulltrúi skólastjóra grunnskóla, Herborg Friðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Þórður Ingi Bjarnason, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna, Ólafía Guðmundsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Björg Jónatansdótttir, áheyrnarfulltrúi starfsfólks í leikskóla og Helga Hrönn Óskarsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 1505347 - Skapandi efnisveita - Remida
Vegna þessa liðar mættu Ólafía Guðmundsdóttir, Michelle Sonia Horne og Helena Hauksdóttir og kynntu erindið.
Ólafíu Guðmundsdóttur, Michelle Sonia Horne og Helenu Hauksdóttur þökkuð kynningin og fræðslustjóra falið að skoða frekari útfærslu á málinu.
2. 1505404 - Leikskóla- og daggæslumál
Lagðar fram tillögur varðandi leikskólamál og daggæslu í heimahúsum.
Gert var fundarhlé.

Fræðsluráð vísar tillögunni til afgreiðslu í bæjarstjórn og í viðauka fjárhagsáætlunar sem þar verður lagður fram.

Áheyrnarfulltrúi leikskólabarna lagði fram eftirfarandi bókun:
Foreldrar í ungra barna í Hafnarfirði fagna áformum fræðsluráðs varðandi stefnu í átt að lækkuðum inntökualdri sem og lækkun útgjalda foreldra í formi aukinnar niðurgreiðslu til dagforeldra vegna barna hjá dagforeldrum. Einnig viljum við þakka góð viðbrögð við áskorunum okkar og að svör við þeim áskorunum hafi borist á tilsettum tíma.
Við fögnum hugmyndum fræðsluráðs varðandi sex tíma gjaldfrjálsan leikskóladag en viljum þó benda á að erfitt væri að gæta jafnræðis í slíku verkefni. Þar sem áskoranir okkar sneru að því að allir myndu njóta góðs af þá teljum við að mikilvægara sé að lækka leikskólagjöld og auka systkinaafslátt til jafns við nágrannasveitarfélög og er það okkar ósk að tillögur starfshóps um gjaldskrár verði teknar í gildi í haust.
Helga Hrönn Óskarsdóttir (sign)

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar og VG fagna því að meirihlutinn hafi ákveðið að falla frá hugmyndum sínum um hækkun inntökualdurs leikskólabarna frá og með næsta hausti. Með þeirri tillögu sem hér er lögð fram verður inntökualdurinn sá sami og haustið 2014 þegar börn fædd í janúar og febrúar 2013 fengu úthlutað leikskólaplássi í Hafnarfirði. Vegna fámennari árganga væri hægt að ráðast í raunverulega lækkun á inntökualdri strax næsta haust líkt og fulltrúar Samfylkingar og VG hafa ítrekað lagt til í fræðsluráði og bæjarstjórn.
Með samþykkt fræðsluráðs frá 8. september sl. og fjölskylduráðs frá 10. september var skipaður starfshópur sem gera átti tillögur m.a. um greiðslufyrirkomulag og greiðsluþátttöku vegna gjalda hjá dagforeldrum, í leikskólum, Tónlistarskóla, frístundaheimilum og máltíða í grunnskólum. Í hópnum sitja 5 fulltrúar auk starfsmanna viðkomandi sviða. Hópurinn hefur fundað 10 sinnum frá því að hann var stofnaður. Fulltrúar í hópnum lögðu fram hugmyndir að breytingum á greiðslufyrirkomulagi á fundi hópsins þann 20. maí sl. Þær hugmyndir átti að kostnaðarmeta og vissum við ekki betur en að sú vinna stæði yfir hjá starfsfólki bæjarins. Starfshópurinn hefur því ekki fengið tækifæri til að ræða eigin tillögur og leggja á þær efnislegt mat. Það vakti því furðu okkar að sjá að hluti þeirra væri til afgreiðslu á fundi fræðsluráðs í dag og það væri kynnt sérstaklega á heimasíðu bæjarins og með fréttatilkynningum sem sendar voru til fjölmiðla fyrir helgina. Ekkert samráð var haft við starfshópinn og lásu fulltrúar í honum um málið í fjölmiðlum.
Svo virðist sem að í raun hafi aldrei verið ætlunin að eiga samstarf við fulltrúa minnihlutans eða hagsmunaaðila um þessa vinnu. Sú ákvörðun fulltrúa Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks að kynna niðurstöðurnar með þeim hætti sem hér er gert er fullkomlega á skjön við allar yfirlýsingar um mikilvægi breiðrar samvinnu og sorglegt dæmi um bæði óvönduð og ólýðræðisleg vinnubrögð.
Adda María Jóhannsdóttir (sign)
Sverrir Garðarsson (sign)

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi tillögu.
Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja til að það svigrúm sem skapast vegna minni árganga verði nýtt til þess að gera raunverulega lækkun á inntökualdri leikskólabarna á þessu ári. Miðað verði við að öll börn fædd í janúar til apríl 2014 fái úthlutað leikskólaplássi frá ágúst 2015. Um leið verði horfið frá áætlunum og fyrri ákvörðunum um lokun starfsstöðva og deilda og öll pláss nýtt til að mæta þörfum og óskum fjölskyldna með ung börn í Hafnarfirði.
Þá leggjum við einnig til að starfshópi sem gera átti tillögur m.a. um greiðslufyrirkomulag og greiðsluþátttöku vegna gjalda hjá dagforeldrum, í leikskólum, Tónlistarskóla, frístundaheimilum og máltíða í grunnskólum verði gefið ráðrúm til að ljúka sinni vinnu við útfærslu á gjaldskrám og auknum systkinaafslætti. Brýnt er að ekki verði gengið framhjá þeirra niðurstöðum.

Afgreiðslu tillögunnar frestað.
Tillögur í leikskóla- og dagvistarmálum maí 2015.pdf
3. 1012058 - Fjölgreinadeild
Sbr. lið 5 í fundargerð fræðsluráðs frá 18. maí sl.
Skólastjóri Lækjarskóla mætti vegna þessa liðar.
Lagt fram minnisblað með upplýsingum um deildina.

Fræðslustjóra er falið að vinna greiningu á skipan sérrúrræða í grunnskólum Hafnarfjarðar og að tillögur liggi fyrir eigi síðar en um næstu áramót. Þar til verði fyrirkomulag fjölgreinadeildarinnar óbreytt.
Minnisblað - Fjölgreinadeild Lækjarskóla.pdf
4. 1201082 - Skólaskipan í Hafnarfirði
Sbr. lið 1 í fundargerð fræðsluráðs frá 18. maí sl.
Lögð fram umsögn fulltrúa foreldra í skólaráði ásamt minnispunktum varðandi þau atriði sem um var beðið.

Frestað til næsta fundar.
5. 1008206 - Barnaskóli Hjallastefnunnar
Sbr. lið 13 í fundargerð fræðsluráðs frá 4. maí sl.
Sviðsstjóri kynnti stöðu málsins.
Lagt fram bréf, dags. 28. maí 2015 frá foreldraráði og foreldrafélagi leikskólans Álfabergs.
Lagt fram bréf, dags. 28. maí 2015 frá skólaráði Víðistaðaskóla.

Afgreiðslu málsins frestað og fræðslustjóra falið að koma á fundi með bréfriturum og skólastjórnendum og fulltrúa Fasteignafélagsins. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvenær og hvar var tekin ákvörðun um að flytja skjalasafn Hafnarfjarðarbæjar í Engidalsskóla og hver stærð þess rýmis er.

Lögð fram eftirfarandi bókun áheyrnarfulltrúa foreldra leik- og grunnskólabarna.
Fulltrúar foreldra grunnskóla- og leikskólabarna lýsa andstöðu sinni við að þrengt sé að skólastarfi í starfstöð Víðistaðaskóla við Engidal með þvi að bæta við 5. og 6.bekk Hjallastefnunnar inn í húsnæðið. Á sama tíma eru börn sem ljúka 4. bekk í Engidal send yfir í Viðistaðarskóla meðan börn úr grunnskóla Hjallastefnununnar muni geta sótt sitt nám í 5. og 6. bekk í starfstöð Engidal. Þrengt hefur verið að starfi leikskólans og sem kemur niður á starfi leikskólans. Fulltrúar foreldra furða sig á þessari ákvörðun og óska eftir framtíðarstefnu í húsnæðismálum skólans.
Þórður Ingi Bjarnson (sign)
Helga Hrönn Óskarsdóttir (sign)

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Vinstri grænna:
Þar sem enginn fulltrúi frá Vinstri grænum átti þess kost að sitja fund þann 4. maí sl. þegar ákveðið var að Hafnarfjörður hefji viðræður við Barnaskóla Hjallastefnunnar vil ég bóka mótmæli gegn þeirri auknu einkavæðingu sem hér er um að ræða og einnig þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið til að reka málið áfram.
Sverrir Garðarsson (sign)
foreldraráð og félag.pdf
Skólaráð vegna samnýtingar í Engidal 2015.pdf
6. 1503254 - Ungmennaráð, forvarnarfræðsla og fræðsla um geðraskanir
Lögð fram tillaga ungmennaráðs
Vísað til skoðunar og umsagnar skólastjóra grunnskóla og fræðsluþjónustu.
Tillögur ungmennaráðs Hafnarfjarðar til bæjarstjórnar 2014..docx
7. 1503255 - Ungmennaráð, aukin kynfræðsla í efri bekkjum grunnskóla
Lögð fram tillaga ungmennaráðs
Vísað til skoðunar og umsagnar skólastjóra grunnskóla og fræðsluþjónustu.
Tillögur ungmennaráðs Hafnarfjarðar til bæjarstjórnar 2014..docx
8. 1502388 - Ungmennaráð, ungir nýbúar
Lögð fram tillaga ungmennaráðs.
Vísað til skoðunar og umsagnar skólastjóra grunnskóla og fræðsluþjónustu.
Tillögur ungmennaráðs Hafnarfjarðar til bæjarstjórnar 2014..docx
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl.  

Til baka Prenta