Fréttir
  • Gardurgangursotturheim

Vorhreinsun lóða - garðaúrgangur sóttur heim

27. apr. 2018

Íbúar eru hvattir til að hreinsa lóðir sínar og setja garðaúrgang út fyrir lóðamörk í hæfilega þunga poka og binda greinaafklippur í knippi nú í byrjun maí. Starfsmenn þjónustumiðstöðvar Hafnarfjarðarbæjar verða á ferðinni og fjarlægja garðaúrgang þessa daga sem hér segir:

  • 9. maí – Norður-, vesturbær, Hraun og miðbær
  • 14. maí – Setberg, Kinnar og Hvammar
  • 22. maí – Ásland, Vellir og Holtin
  • Sjá meðfylgjandi kort

Íbúar eru hvattir til að vera búnir að setja garðaúrgang út fyrir lóðarmörk fyrir þessa settu hreinsunardaga í hverju hverfi fyrir sig. Garðaúrgangur verður ekki sóttur í þeim hverfum eftir að uppgefinn dagur er liðinn.

Athugið að allur garðaúrgangur þarf að vera í pokum og höfum hugfast að hæfilega þungir pokar (hámark 20 kg) auðvelda starfsmönnum hreinsunarstörfin. Ekki verður tekinn stórfelldur garðaúrgangur sem fylgir stærri framkvæmdum innan lóða, s.s. fellingar á stórum trjám heldur er miðað við lágmarks snyrtingar á trjám og runnum, t.d. svo gróður hindri ekki umferð og sýn á gangstígum og gangstéttum.

Bæjarbúar eru hvattir til að nýta sér þessa þjónustu bæjarins því eftir að vorhreinsun lóða lýkur þurfa lóðarhafar sjálfir að fara með garðaúrgang á endurvinnslustöðvar Sorpu. Tilvalið er einnig að safna garðaúrgangi yfir sumartímann saman í safnhaug á góðum stað í garðinum og nýta til moltugerðar.

Athugið að hirðing á ekki við lausan jarðveg, timbur, málma og spilliefni.