Fréttir
  • Nr1BjornPetursson

VITINN - nýtt hlaðvarp Hafnarfjarðarbæjar

13. sep. 2019

Hafnarfjarðarbær kynnir til sögunnar Vitann, nýtt hlaðvarp Hafnarfjarðarbæjar. Um er að ræða tilraunaverkefni og nýja og spennandi leið í upplýsingagjöf til íbúa og allra þeirra sem áhugasamir eru um sveitarfélagið, viðfangsefni þess, verkefni og þjónustu. 

Sveitarfélagið hefur stækkað mikið undanfarin misseri, íbúarnir á öllum aldri með ólík áhugamál og nýta ólíkar leiðir til upplýsingaöflunar. Hlaðvarpið opnar á ítarlegri umfjöllun um einstaka verkefni, þjónustu og mál sem eru mikið í umræðunni hverju sinni. Hægt er að nálgast þætti Vitans HÉR á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar en einnig á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast og Podcast Addict. Unnið er að því að gera Vitann aðgengilegan á fleiri veitum.

Þáttur #1 – Björn Pétursson bæjarminjavörður 

Í fyrsta þætti Vitans ræðir Sigurjón Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu og þróunar, við Björn Pétursson bæjarminjavörð og forstöðumann Byggðasafns Hafnarfjarðar. Viðtalið er tekið upp í hinu sögufræga húsi Bookless Bungalow við Vesturgötu þar sem Björn leiðir hlustendur í gegnum áhugaverða þætti í starfsemi safnsins, sögu bæjarins og segir skemmtilegar sögur m.a. af draugagangi, atkvæðasmölun Siggu í Siggubæ og gefur okkur uppskrift að góðum sunnudegi í Hafnarfirði.