Fréttir
  • HafnarfjordurAslandid

Virk nágrannavarsla líkleg til að fækka afbrotum

8. nóv. 2019

Tilkynnum afbrot í 112 og forðumst neikvæða umræðu á samfélagsmiðlum.

Það hefur sýnt sig að virk nágrannavarsla fækkar innbrotum, skemmdarverkum og veggjakroti. Íbúar fylgjast betur með nærumhverfi sínu og allir sjá hag sinn í þeirri samvinnu. Síðustu daga hefur nokkuð borið á skemmdarverkum, sér í lagi í ákveðnum hverfum. Öll skemmdarverk og afbrot skal tilkynna beint til lögreglu í síma 112.

Það er hlutverk lögreglunnar að rannsaka afbrot eins og skemmdarverk og því er mikilvægt að tilkynningar berist beint til þeirra þannig að hægt sé að grípa til aðgerða með auknum sýnileika og aukinni löggæslu á svæðinu þannig að uppræta megi vandann. Í öllum tilfellum er nauðsynlegt að tilkynna afbrot þannig að það sé skjalfest en öll afbrot sem færð eru til bókar kalla á einhvers konar viðbrögð. Viðbrögðin fara eftir umfang og eðli og stundum þarf sveitarfélagið að bregðast við með aukinni lýsingu á svæði, uppsetningu á öryggismyndavélum eða breytingu á aðgengi eða umhverfi. Neikvæð umræða á samfélagmiðlum, á hverfasíðum og víðar, sem jafnvel felur í sér nafnbirtingar og myndbirtingar af einstaklingum er engum til framdráttar og getur jafnvel varðað við brot á persónuverndarlögum. Slíku myndefni á frekar að skila beint til lögreglu eða þess hverfisskóla sem afbrot eru að eiga sér stað í enda stundum um að ræða einstaklinga undir lögaldri. 

Vilt þú setja á fót nágrannavörslu í þínu húsi eða þinni götu/hverfi?

Fyrsta skrefið er að fá íbúa til að skrá sig á þátttökulista og velja hópstjóra. Til að um virka nágrannavörslu sé að ræða þurfa að lágmarki 70% íbúa húss/götu/hverfis að taka þátt. Reynslan sýnir að árangursríkara er að skipuleggja nágrannavörslu á minni svæðum s.s. í einni götu eða að það nái yfir eitt fjölbýlishús. Hver er hugur nágranna til nágrannavörslu? Talaðu við 3-5 nágranna og sjáðu hvort áhugi á málinu er til staðar. Ef áhugi er til staðar er tímabært að halda áfram, safna undirskriftum, halda kynningarfund og sækja um uppsetningu nágrannavörsluskiltis.

Sjá nánar upplýsingar um nágrannavörslu