Fréttir  • BetriStofan2021

Vinnurými með besta útsýni bæjarins

29. des. 2021

 

Betri Stofan opnaði í jólamánuðinum á sjöundu og efstu hæð í norðurturni verslunarmiðstöðvarinnar Fjarðar. Um er að ræða stað með óhefðbundinni, notalegri aðstöðu fyrir fólk sem vill geta unnið, nýtt fundarherbergi og átt þess kost eftir vinnudag að njóta samveru að kvöldi á sama stað með vinum og/eða vinnufélögum.

Sveigjanlegur vinnustaður og vinna í fallegu umhverfi

Með breyttum áherslum á covid-tímum felast mörg tækifæri í því að fólk vilji hafa sveigjanlegri vinnustaði og geta jafnvel sleppt því að starfa í venjubundinni skrifstofuaðstöðu. Markmið með rekstri Betri Stofunnar er að skapa gott og þægilegt andrúmsloft þar sem viðskiptavinir geta komið snemma á morgnana og fengið sér kaffi og unnið í fallegu umhverfi með ótrúlegu útsýni yfir höfnina og út á haf. Fallegi bærinn okkar Hafnarfjörður sést þarna í algjörlega nýju ljósi.

Boðið er upp á nokkur fundarherbergi fyrir 8 til 12 manns. Á kvöldin er síðan „lounge“-stemning með uppákomum, fyrirlestrum, happy hour og fleiru. Gestir geta einnig pantað mat frá nálægum frábærum veitingastöðum, t.a.m. KRYDD í næsta húsi. Fram til áramóta er Betri Stofan opin öllum. Á þeim tíma er tekið við umsóknum um aðild sem verður síðan skilyrði eftir áramót.

Jólablað Hafnarfjarðar 2021

Þessi umfjöllun er hluti af efni í jólablaði Hafnarfjarðar 2021. Jólablaðið hefur þann eina og sanna tilgang að kynna jólabæinn Hafnarfjörð fyrir öllum áhugasömum, fyrir gestum og gangandi og varpa ljósi á þann hlýleika og fjölbreytileika sem býr með fólkinu og fyrirtækjunum í jólabænum Hafnarfirði. Í jólablaðinu 2021 er meðal annars að finna umfjöllun um öðruvísi skemmtun, hefðir í hreyfingu, einstaka samheldni íbúa, hús tækifæranna í Hellisgerði, fjölskyldurekin fyrirtæki, norðurljós, töfrum prýdd kaffihús, girnilegar uppskriftir, mikilvægi þess að njóta og slaka, Jólahjartað og hjartasvellið sem opnar í desember, samstarfsverkefni samfélaginu til heilla og síðasta en ekki síst Jólaþorpið sem opnaði fyrstu helgina í aðventu.

Jólablað Hafnarfjarðar 2021