Fréttir
Viðamikil umbótaáætlun lögð fram

1. júl. 2015

Nú liggja fyrir niðurstöður úttekta á rekstri Hafnarfjarðarbæjar sem ráðgjafafyrirtækin Capacent og R3 hafa unnið að undanfarna mánuði. Skýrslurnar og tillögur til umbóta hafa verið birtar á vef Hafnarfjarðar í anda opinnar stjórnsýslu gagnvart bæjarbúum. Tillögurnar verða teknar til meðferðar á næstu vikum og mánuðum innan stjórnkerfis bæjarins. 

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur það markmið að stöðva skuldasöfnun bæjarins og koma rekstri sveitarfélagsins á réttan kjöl. Þannig verður hægt að koma til móts við íbúa Hafnarfjarðar með hagstæða þjónustu og styrkja samkeppnisstöðu bæjarins innan höfuðborgarsvæðisins.

Tillögur ráðgjafafyrirtækjanna gera ráð fyrir að mögulegar breytingar geti létt rekstur bæjarins um allt að 900 milljónir króna á ársgrundvelli, ef þær myndu allar ná fram að ganga. Raunhæft mætti ætla að eftir úrvinnslu tillagnanna á komandi mánuðum muni ávinningurinn fyrir bæjarsjóð nema á bilinu 500-600 milljónum króna.

Tillögurnar fela ekki í sér skerðingu á þjónustu til bæjarbúa heldur er leitast við að ná fram meiri árangri úr núverandi rekstri bæjarins. Einnig eru lagðar til ýmsar sjálfsagðar umbætur eins og að bærinn nýti sér í meiri mæli útboðsleiðir til að lækka kostnað við kaup á þjónustu.

„Það er afar mikilvægt að hafa farið í þessa vinnu við að greina stöðuna í bænum og fá tillögur utanaðkomandi aðila til umbóta,” segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri. „Það er alveg ljóst að við getum gert breytingar á rekstrinum og náð þannig fram verulegum umbótum sem síðan má nota til að létta íbúunum lífið ef svo má segja sem er eitt af okkar megin markmiðum. Við vonumst til að ná góðri sátt þar um.”

Nánar um helstu atriði rekstrargreiningar

Í skýrslu Capacent er að finna nýja greiningu á fjárhagsstöðu Hafnarfjarðarbæjar sem staðfestir aðrar greiningar um alvarlega stöðu bæjarins. Þar kemur fram að framlegð til rekstrar er of lág til að greiða upp skuldir og að svigrúm til skattahækkana sé lítið. 

Árið 2014 var skuldahlutfall Hafnarfjarðarbæjar (A og B hluta) 202% en hæst var það 2011 og stóð þá í 250%. Ef einungis er horft til A hluta að þá var skuldahlutfall bæjarins 185% en hæst árið 2012 þegar það var 222%.

Hvort heldur sem er horft til A eða A og B hluta sveitarfélagsins, þá er skuldahlutfall út frá skuldaviðmiðum  sveitarfélaga enn yfir þeim viðmiðunarmörkum sem getið er um í reglugerð um fjármál sveitarfélaga.

Út frá þeim forsendum sem gefin eru í skuldaviðmiðum var skuldahlutfall Hafnarfjarðar 157% í A hluta en 176% í A og B hluta en skuldaviðmið gerir ráð fyrir að A og B hluti fari ekki yfir 150 %. Hátt skuldahlutafall og lág framlegð þýðir að óbreyttu næst ekki að greiða niður skuldir sveitarfélagsins. 

Úttekt á rekstri og stjórnskipulagi bæjarins. -  Greining og tillögur.

Fjölskylduþjónustan - Greining 

Fjölskylduþjónustan - Tillögur