Fréttir
  • FRI1

Vel heppnað ársþing FRÍ haldið í Hafnarfirði

13. okt. 2020

Þann 2. október síðastliðinn var haldið í Kaplakrika í Hafnarfirði 62. ársþing FRÍ í góðu samstarfi við frjálsíþróttadeild FH og Hafnarfjarðarbæ. Þingið var óvanalegt á margan hátt. Því hafði tvívegis verið frestað áður en var nú haldið í skugga Covid19 en þannig að sóttvarnir voru í hávegum hafðar. Brotið var blað með beinu streymi frá þinginu sem og því að ársþingið tók aðeins einn dag, en ekki tvo, líkt og jafnan hefur áður hefur verið.

Góðir gestir ávörpuðu þingið 

Freyr Ólafsson formaður FRÍ bauð gesti velkomna klukkan 17:00 og setti þingið. Þingforsetar voru kjörnir þeir Gunnlaugur Júlíusson og Gunnar Svavarsson, sem steig inn í fjarveru Bjargar Ágústsdóttur. Þingritarar voru kjörin þau Aðalbjörg Hafsteinsdóttir og Eiríkur Mörk Valsson.
Góðir gestir ávörpuðu þingið en það voru þau Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Ágúst Bjarni Garðarsson formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, Hafsteinn Pálsson annar varaforseti ÍSÍ og Úlfar Linnet formaður frjálsíþróttadeildar FH.

Fri3
Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- menningarmálaráðherra

Fri2

Ágúst Bjarni Garðarson formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar

Þrír leiðtogar gerðir að heiðursfélögum

Á þinginu voru þrír leiðtogar úr hreyfingunni til áratuga gerð að heiðursfélögum FRÍ. Það voru þau Ragnheiður Ólafsdóttir, Þorsteinn Þorsteinsson og Þráinn Hafsteinsson. Ýmsar aðrar heiðursviðurkenningar voru veittar. Nánar verður fjallað um heiðursveitingarnar á FRI.is 

Ný stjórn kjörin

Á þinginu voru afgreiddar 25 tillögur um reglugerða- og lagabreytingar. Vegna fyrirkomulags þings var mörgum vísað áfram til stjórnar eða starfsnefnda.  Á þinginu var kjörin ný stjórn og formenn nefnda sambandsins. Ný inn í aðalstjórn kemur Aðalbjörg Hafsteinsdóttir, en áfram sitja Guðlaug Baldvinsdóttir, Gunnar Svavarsson og Kári Steinn Karlsson. Formaður sambandsins, Freyr Ólafsson, var endurkjörinn til næstu tveggja ára. Á þinginu var einnig kynnt nýtt auðkennismerki og ásýnd fyrir nýja tíma.

Sjá frétt á vef FRÍ