FréttirFréttir

Veislan hefst í kvöld - stjarna Björgvins afhjúpuð

8. júl. 2019

Tónlistar- og bæjarhátíðin Hjarta Hafnarfjarðar hefst í dag. Þessi lengsta tónlistarhátíð landsins er faglegt og flott framtak þeirra Páls Eyjólfssonar og Péturs Stephensen sem hafa rekið menningarhúsið Bæjarbíó síðustu ár. Fjölbreytt tónlistardagskrá verður bæði inni og úti á sérstöku útisvæði sem búið er að koma upp á bílastæði við Bókasafn Hafnarfjarðar. 

Stjarna Björgvins verður afhjúpuð í kvöld kl. 19 og er athöfnin öllum opin.
Nánari upplýsingar um veisluna næstu daga er að finna HÉR

Veislan hefst í kvöld!

Hjarta Hafnarfjarðar hefst í kvöld með afhjúpun á stjörnu Björgvins Halldórssonar á gangstétt fyrir utan Bæjarbíó. Jónatan Garðarsson mun sjá um að setja hátíðina með hátíðarræðu um Björgvin sem er einn fremsti söngvari landsins, fæddur og uppalinn í Hafnarfirði. Öflugt tónleikahald hefur verið í Bæjarbíó undanfarin ár og hefur Björgvin sjálfur troðið þar upp en í kvöld munu fjölmargt listafólk troða upp til heiðurs stjörnunni Björgvini en fjölmargt tónlistarfólk á heima í Hafnarfirði eða á ættir sínar að rekja þangað. Það verða þó ekki bara Hafnfirðingar sem troða upp í kvöld heldur einnig vinir Hafnarfjarðar. Þetta er þriðja árið sem tónlistarhátíðin Hjarta Hafnarfjarðar er haldin og hefur hátíðin vaxið og dafnað með hverju árinu og er í dag orðin ein stærsta slík tónlistarhátíð sem bæjarfélag stendur að. 

Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2018 og nú fyrsta STJARNA Hafnarfjarðar

Björgvin Halldórsson hlaut nafnbótina bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2018 . Björgvin hefur fengið fjöldan allan af viðurkenningum og nafnbótum um árin. Þá hefur hann verið sæmdur heiðursverðunum Íslensku tónlistarverðlauna auk þess að vera handhafi riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu. Björgvin Halldórsson er fæddur í Hafnarfirði 16. apríl 195 og hóf feril sinn með hafnfirsku hljómsveitinni Bendix og síðan tók við sannkallað ævintýri með hljómsveitum á borð við Flowers, Ævintýri, Brimkló, Changes, HLH flokknum og fleiri. Björgvin var valinn poppstjarna ársins árið 1969 – sá eini sem hefur hlotið þann titil. Björgvin hefur í gegnum tíðina brugðið fyrir sig poppi, rokki, kántrý, ballöðusöng og Júróvisjón – að ógleymdum jólalögunum. Björgvin er söngvari, lagahöfundur, upptökustjóri og hljómplötuframleiðandi. Hann hefur tekið upp fleiri hundruð lög á ferlinum sem nú spannar hálfa öld.