Fréttir
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna sveitarstjórnarkosninga

9. maí 2018

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna sveitarstjórnarkosninga 26. maí fer fram í Smáralind frá og með næsta föstudegi, 11. maí. Þar verður opið alla daga frá klukkan 10:00 til 22:00.

Opið verður á kjördag frá klukkan 10:00 til 22:00 fyrir kjósendur sem eru á kjörskrá utan höfuðborgarsvæðisins. Í tilkynningu frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu segir að aðeins sé hægt að senda atkvæði kjósenda sem ekki eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu með pósti í sveitarstjórnarkosningum. Þeir kjósendur sem eru á kjörskrá utan höfuðborgarsvæðisins eru hvattir til að koma í fyrra lagi að kjósa ef þeir ætla að kjósa utan kjörfundar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, það er fyrir hvítasunnu. Að öðrum kosti sé hætta á að atkvæðið berist yfirkjörstjórn í viðkomandi sveitarfélagi of seint.

Kjósendur sem eru með lögheimili í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Kjósarhreppi geta komið hvenær sem er að kjósa utan kjörfundar fram að kjördegi. Atkvæði þeirra fara í kjörkassa viðkomandi sveitarfélags.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar, dvalar- og hjúkrunarheimilum verður á eftirfarandi tímum:

Sólvangur, Hafnarfirði, föstudaginn 18. maí, kl. 14:30-16:00.

Hrafnista Hafnarfirði, föstudaginn 18. maí, kl. 13:30- 17:30.