Fréttir
  • Ungmennarad

Ungt fólk og umferðaröryggi - sameiginleg ályktun

10. des. 2018

Þær Birta Guðný Árnadóttir og Lilja Ársól Bjarkadóttir fóru fyrir hönd Ungmennaráðs Hafnarfjarðar á málþing á vegum Ungmennaráðs Grindarvíkurbæjar sem fékk styrk frá Eramus+ til þess að standa fyrir málþingi um ungt fólk og umferðaröryggi.  Um sautján ungmennaráð tóku þátt á málþinginu. Einnig mættu til leiks samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir hjá Samgöngustofu og fleiri góðir gestir. Fundargestum var skipt í hópa og var kallað eftir hugmyndum um hvernig hægt sé að bæta umferðaröryggi hér á landi. Málþingið var haldið dagana 8.-9. nóvember í Grindavík. 

Sjá frétt RÚV frá málþingi HÉR - sjá á 10. mínútu

Í framhaldi af málþingi sendu ungmennaráðin frás ér sameiginlega yfirlýsingu til stjórnvalda.

Sameiginleg ályktun frá sautján ungmennaráðum 

Fulltrúar ungmennaráða á málþinginu UMFERÐARÖRYGGI OKKAR MÁL! skora á stjórnvöld að efla enn frekar fræðslu og forvarnir í umferðaröryggismálum og setja fram skýra stefnu og aðgerðaáætlun um úrbætur í almenningssamgöngum og vegakerfinu. Árangur í fækkun slysa af völdum ungs fólks í umferðinni sýnir að hækkun bílprófsaldurs er ekki brýnasta verkefnið. Aukin fræðsla og áhersla á forvarnir eru tæki sem þarf að nýta og stórefla þarf kennslu á öllum skólastigum um umferðaröryggi.

Brýnt er að fræða erlenda ökumenn um aðstæður á Íslandi og bæta aðstæður fyrir ferðamenn. Auk þess er löngu tímabært að einbreiðum brúm verði útrýmt. Að mati ungs fólks er nauðsynlegt að aðskilja akstursstefnur á fjölförnum vegum. Tæknin mun á næstu árum gjörbreyta umferðinni á Íslandi og það er brýnt að byrja nú þegar að undirbúa bæði vegakerfið og vegfarendur undir þær breytingar.  Ungt fólk er tilbúið að taka þátt í þeirri stefnumótun. Umferðaröryggi er okkar mál!