Fréttir
  • Vefumferd2020

Umferð um vef bæjarins hefur stóraukist

10. sep. 2020

Unnin hefur verið greining á umferð um hafnarfjordur.is á fyrri hluta ársins 2020. Í stuttu máli má segja að umferð um vefinn hefur stóraukist og sprenging orðið í lestri á fréttum. Þetta hefur verið óvenjulegt ár fyrir margra hluta sakir og áhrif Covid19 eru bersýnileg á vefnum eins og annars staðar.

Ný ábendingagátt fær góðar viðtökur

Í stuttu máli má segja að umferð um vefinn hefur stóraukist, sprenging hefur verið í lestri á fréttum og eðlilega hefur sókn í upplýsingar um viðburði dottið niður enda fáir viðburðir haldnir á árinu. Greiningin leiðir í ljós að ný ábendingagátt hefur fengið afar góðar viðtökur og almennum fyrirspurnum fjölgar mikið. Áhugavert er að sjá umferð með snjalltækjum (símar og spjaldtölvur) er orðin meiri en með hefðbundnum tölvum. Eftir sem áður er lestur fundargerða lang mest sótta efnið en þar á eftir kemur bæjarvefsjáin Granni þar sem íbúar og aðrir sækja teikningar og aðrar nytsamlegar upplýsingar um bæjarfélagið, skipulag, þjónustu og umhverfi.

Áhugaverðar staðreyndir um umferð á frá 1. janúar til 30. júní 2020

  • Vefurinn var heimsóttur rúmlega 245 þúsund sinnum á fyrri helmingi ársins sem er 19% aukning milli ára
  • Gestum í yngsta aldurshópnum fjölgaði úr 7% í 12% milli ára á meðan hlutur þeirra sem eru 45 ára og eldri minnkaði
  • Heimsóknir frá vefnum yfir á ráðningavef bæjarins hefur fjölgað um 19%
  • Fréttir voru skoðaðar tæplega 61 þúsund sinnum sem er aukning um 49% milli ára
  • Skoðuðum viðburðum fækkaði um 35% milli ára
  • Á liðlega þremur mánuðum komu 380 ábendingar frá bæjarbúum í gegnum nýja ábendingagátt 
  • Ný ábendingagátt dró ekki úr almennum fyrirspurnum, þvert á móti fjölgaði þeim um 36% en þær voru alls 503 á fyrri hluta ársins
  • Umferð með snjallsímum var 48,7% á tímabilinu og fór upp í 57% í júní

Það sést á þessari upptalningu að vægi upplýsingagjafar á netinu og stafrænnar þróunar hefur líklega aldrei verið meiri.

Greiningin var unnin af Vefgreiningu fyrir Hafnarfjarðarbæ.