Fréttir
 • OnlineTraffic

Umferð um vef er nú öllum aðgengileg

8. nóv. 2019

Upplýsingar um umferð um vef Hafnarfjarðarbæjar, hafnarfjordur.is, hafa frá og með deginum í dag verið gerðar öllum aðgengilegar.

Vefmælingar gegna lykilhlutverki í vefþróun. Ákvarðanir um næstu skref og þróun vefja byggja á upplýsingum um notkun og þannig eru m.a. heimsóknir inn á vefinn rýndar, fjöldi gesta skoðaður og upplýsingar fengnar um hvaðan gestir koma inn á vefinn, um ábendingar sem berast, hvaða efni er mest lesið og hvað er minnst skoðað og eins hvaða upplýsingar það eru sem gestir leita helst að í gegnum leitarglugga. Allar þessar upplýsingar eru nýttar til að gera vefinn aðgengilegri og áhugaverðari og það út frá þörfum og notkun. Um er að ræða enn eina nýjungina í upplýsingaþjónustu bæjarins. 

Opna vefmælaborð Hafnarfjarðarbæjar

Vefmaelingabord-hfj

Umferð um vefinn er nú öllum sýnileg

Þessar vefmælingar hafa legið til grundvallar í þróun vefs Hafnarfjarðarbæjar síðustu árin en hingað til hafa þessar mælingar ekki verið opinberar.  Gögnin eru stöðugt uppfærð en þau eru sótt í Google Analytics vefgreiningartólið. 

 • Hvernig fór með fréttina sem fór í loftið í síðustu viku, var hún eitthvað lesin? 
 • Er einhver búinn að skoða viðburðina í dag? 
 • Eru þetta bara Hafnfirðingar sem skoða vefinn? 
 • Að hverju leita notendur og hvaða orð nota þeir?

Fá dæmi þess eru að sveitarfélag, stofnun eða fyrirtæki galopni sín gögn með þessum hætti.  Vefur Stjórnarráðsins er eitt fárra dæma sem hefur opnað fyrir sínar vefmælingar.  Markmið Hafnarfjarðarbæjar með að opna á þessi góðu gögn er að veita ákveðið aðhald í eigin aðgerðum og gera íbúa og aðra hagsmunaaðila meira meðvitaða um mikilvægi vefsins fyrir starfsemi bæjarins. Framsetning mælaborðanna var unnin af fyrirtækinu Vefgreiningu og þróuð í samvinnu við starfsmenn þjónustu- og þróunarsviðs.

Nokkrar staðreyndir um vef Hafnarfjarðarbæjar

 • Frá áramótum til dagsins í dag hafa 350 þúsund heimsóknir verið á vefinn
 • Gestir það sem af er ári eru liðlega 130 þúsund
 • Gestum á vef hefur fjölgað um 7% milli 2018-2019
 • Tæplega 2/3 heimsókna koma utan Hafnarfjarðar
 • Stærsti aldurhópurinn er 25-34 ára
 • Konur nota vefinn meira en karlar
 • Þriðjungur heimsókna kemur frá leitarvélum
 • Mest sótta efnið í þessari röð: 
  • Fundargerðir
  • Teikningar eða upplýsingaslóðin
  • Laus störf
  • Starfsfólk 
  • Upplýsingar um sundlaugar
 • Vefurinn er mikil fréttanáma en það er búið að lesa yfir 71.500 fréttir á árinu sem er 26% aukning á lestri frétta það sem af er ári

Gestir og notendur eru beðnir um að taka þátt í stafrænni vegferð með sínu sveitarfélagi með því að segja sína skoðun á vefnum með ábendingavirkni á undirsíðum: Var efnið hjálplegt? eða með því að koma skilaboðum á framfæri í gegnum netfangið hafnarfjordur@hafnarfjordur.is

Markmiðið er að  búa til notendavænan vef sem fylgir þörfum og miðlar efni sem fólk skilur. Framundan eru áframhaldandi spennandi verkefni í stafrænni þróun. Þessi gögn verða nýtt í þeirri þróun ásamt því að virku sambandi verður komið á við notendur á næstu misserum. 

Fylgist endilega með þessari þróun og takið þátt.