Fréttir
Umbætur í rekstri skila góðum árangri

28. okt. 2015

Samkvæmt tillögu að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2016, sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar í dag, verður 300 milljón króna afgangur á A og B hluta. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 15% af heildartekjum eða 3,3 milljarðar kr. en það er forsenda þess að árangur náist í að lækka skuldir bæjarins. Umbótum í rekstri og sparnaðaraðgerðum er ætlað að skila því að þjónustustig verði áfram óbreytt og svigrúm verði til niðurgreiðslu skulda. Skuldahlutfall Hafnarfjarðarbæjar verður samkvæmt áætlun 177% í lok árs 2016 en var 202% í árslok 2014 og 216% í árslok 2013. Erlendar skuldir bæjarins verða að stærstum hluta greiddar upp í árslok 2015 þannig að á árinu 2016 verða nær allar skuldir sveitarfélagsins í íslenskum krónum.

Áætlaðar eru miklar umbætur í rekstri Hafnarfjarðarbæjar. Sumar hafa þegar átt sér stað og aðrar koma til framkvæmda á næsta ári. Sem dæmi má nefna lækkun rekstrarkostnaðar með því að notast við útboð í ríkari mæli. Áætlunin gerir ráð fyrir hallalausum rekstri A hluta á næsta ári. Annað árið í röð er ekki gert  ráð fyrir að vistgjöld á leikskólum hækki. Fasteignaskattur hækkar en á móti lækka vatns- og fráveitugjöld þannig að álögur á íbúa aukast ekki.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að lóðaúthlutanir hefjist í byrjun árs í Skarðshlíð sem er nýtt íbúðahverfi á Völlunum. Einnig verður hafinn undirbúningur framkvæmda við nýjan leik- og grunnskóla í hverfinu.  Söluandvirði lóða í hverfinu er ætlað að standa undir þeim kostnaði.  Jafnframt er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við byggingu hjúkrunarheimilis á byggingarreit við Sólvang. Gert er ráð fyrir að ljúka við byggingu nýs leikskóla, Bjarkarvalla, fyrir allt að 100 nemendur og starfsemi hans hefjist haustið 2016.

Gert er ráð fyrir að fara í átak við sölu iðnaðarlóða á Völlunum.  Söluandvirði þeirra lóða verði nýtt til að greiða niður skuldir.

„Verði áætlunin samþykkt í þessa veru tel ég að búið sé að ná tökum á undirliggjandi vanda í rekstri bæjarfélagins. Sé rétt haldið á málum eru bjartir tímar framundan í Hafnarfirði.  Það sem af er þessu ári hefur farið mikill tími í að endurskipuleggja reksturinn með það að markmiði að ná niður kostnaði, sem virðist ætla takast gangi þessi áætlun eftir.  Nú er hægt að fara að snúa sér frekar að ýmsum öðrum málum sem hingað til hafa fengið minni athygli. Gangi áætlunin eftir mun skuldaviðmið Hafnarfjarðar verða komið niður fyrir þau 150% sem sveitarstjórnarlög kveða á um á árinu 2017“ segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri 

Bæjarstjóri mun halda fund í Bæjarbíói kl. 20 þann 10. nóvember n.k. þar sem hann kynnir tillögu að fjárhagsáætlun.