Fréttir
  • 53873385_10158132963724989_6130448293232115712_o

Tvö tónlistaratriði áfram í Nótuna

18. mar. 2019

Það styttist í Nótuna (uppskeruhátíð tónlistarskóla) en svæðistónleikar eru í gangi  þessa dagana um allt land þar sem valin eru 7 atriði frá hverju svæði á lokahátíð Nótunnar sem fram fer á í menningarhúsinu Hofi á Akureyri þann 6. apríl nk. Tvö atriði frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar voru valin um helgina til að taka þátt í uppskeruhátíðinni. Sinfóníuhljómsveit skólans og gítardúett skipaður þeim Sóleyju Örnu Arnarsdóttur og Valgerði Báru Baldvinsdóttur náðu að komast áfram. 

Nótan hefur verið árlegur viðburður síðan árið 2010 og er ætlað að vera vekja athygli á starfi tónlistarskólanna og um leið veita tónlistarnemendum viðurkenningu fyrir afrakstur vinnu sinnar. 

Um Nótuna

NÓTAN - uppskeruhátíð tónlistarskóla var fyrst haldin skólaárið 2009-2010 og er árlegur viðburður í kerfi tónlistarskóla á Íslandi. Uppskeruhátíðin er ný vídd í starfsemi tónlistarskóla. Hátíðin er í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í skólastarfið fyrir alla aðstandendur skólanna jafnt innan veggja þeirra sem utan. Uppskeruhátíðin er þrískipt og skipulögð þannig að allir geti tekið þátt. Þátttakendur eru:

  • frá öllu landinu,
  • á öllum aldri og
  • á öllum stigum tónlistarnáms

Tónlistarskólar starfa eftir heildarstefnu um nám og kennslu sem sett er fram í aðalnámskrá tónlistarskóla. Námið skiptist í þrjá megináfanga: grunnnám, miðnám og framhaldsnám og nær frá samþættu tónlistarnámi í forskóla upp að tónlistarnámi á háskólastigi. Í samræmi við áherslu á sjálfstæði skóla og sveigjanlegt skólastarf er starf tónlistarskóla gríðarlega fjölbreytt og gegna sérhæfð og staðbundin markmið tónlistarskóla lykilhluverki í þróun öflugs tónlistarskólakerfis á landsvísu. Tónlistarskólar landsins eru um 90 talsins og um 15.000 nemendur stunda nám innan tónlistarskólakerfisins.

Með uppskeruhátíðinni er kastljósinu beint að samfélagi tónlistarskóla og tónlistarnemendum veittar viðurkenningar fyrir afrakstur vinnu sinnar. Helsta verkefni menntastofnana er að stuðla að almennri menntun og alhliða þroska nemenda. Einnig að efla sjálfsmynd þeirra og sjálfstraust, vellíðan, sköpunarkraft og hæfni til að takast á við áskoranir daglegs lífs. NÓTAN speglar vel víðfeðmt gildi tónlistarnáms og hlutverk tónlistarskóla sem mennta- og menningarstofnana. NÓTAN - uppskeruhátíð tónlistarskóla er samstarfsverkefni Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, Samtaka tónlistarskólastjóra, Tónastöðvarinnar, Töfrahurðar og Tónlistarsafns Íslands. Á Nótunni 2016 bættist Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í hóp samstarfsaðila.