Fréttir
  • Tonajol_1543921066229

Tónajól með 2 dívum og 200 nemendum

4. des. 2018

Annað árið í röð mun Tónlistarskóli Hafnarfjarðar blása til stórtónleika í samstarfi við vel þekkta hafnfirska tónlistarmenn. Í fyrra voru það bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónsson sem stigu inn til samstarfs en í ár eru það söngkonurnar Guðrún Árný og Margrét Eir sem báðar eru búsettar í Hafnarfirði. Tveir tónleikarnir undir yfirskriftinni Tónajól verða haldnir 8. desember í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Stefnt er að því að tónleikarnir verði árviss viðburður í hafnfirsku menningarlífi.

Miðasala á Tix.is eða HÉR

TonajolDagskra

Á dagskrá Tónajóla eru ýmis jólalög, sum í nýjum útsetningum kennara við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Í skólanum eru tæplega 600 nemendur og eru margir þeirra í hinum fjölmörgu og fjölbreyttu hljómsveitum sem starfa við skólann. Má þar nefna sinfóníuhljómsveit, lúðrasveit, hrynsveit, gítarsveit, klarinettusveit og flautusveit. Einnig koma fram nemendur úr söngdeild og píanódeild og eldri hópur úr forskóla. Á annað hundrað nemenda koma fram að þessu sinni.  Þannig flytja til að mynda yngri strengjaleikarar Litla trommuleikarann, nemendur í forskóladeild, gítardeild og strengjadeild lagið Klukknahljóð og Sjö litlar mýs og hrynsveit lagið Jólasnjór. Margrét Eir mun flytja lagið Óskasteinn og Guðrún Árný Skammdegissól. Saman syngja þær í dúett lagið Dansaðu vindur eftir Nanne & Peter Grönvall við texta Kristjáns Hreinssonar í útsetningu Þrastar Þorbjörnssonar fyrir blandaða hljómsveit.  Punkturinn yfir Tónajólin er svo settur með lokalaginu Nóttin var sú ágæt ein eftir Sigvalda Kaldalóns við sálm Einars Sigurðssonar í útsetningu Stefáns Ómars Jakobssonar fyrir sinfóníuhljómsveit og söng. Lagið verður flutt af öllum þátttakendum. 

Viðburðinn Tónajól á Facebook er að finna HÉR