Fréttir
 • Fulltrúar ungmennaráðs kynntu tillögur sínar fyrir bæjarstjórn

Þrettán tillögur frá Ungmennaráði Hafnarfjarðar

28. maí 2020

Ungmennaráð Hafnarfjarðar lagði þrettán tillögur fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar á fundi bæjarstjórnar í gær sem taka til málefna sem viðkemur unga fólkinu okkar á einn eða annan hátt; skólastarfs, tómstundastarfs og skipulags á nánasta umhverfi. Bæjarstjórn tók jákvætt í allar tillögur Ungmennaráðs og samþykkti samhljóða að vísa þeim til umræða og afgreiðslu í viðeigandi ráðum.

Tillögur Ungmennaráðs Hafnarfjarðar eru eftirfarandi:

 

 1. Frítt í strætó – lagt til að hafnfirsk börn og ungmenni fái frítt í strætó. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til umhverfis- og framkvæmdaráðs.
 2. Fjölgun og endurnýjun ruslatunna – lagt er til að ráðist verði í endurnýjun á ruslatunnum bæjarins og þeim fjölgað. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til umhverfis- og framkvæmdaráðs
 3. Nýtt hundasvæði – lagt til að aðstaða fyrir hundaeigendur verði bætt með nýju hundasvæði. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til umhverfis- og framkvæmdaráðs.
 4. Skyndihjálp í grunnskóla – lagt til að meiri áhersla verði lögð á kennslu skyndihjálpar í grunnskólum Hafnarfjarðar. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til fræðsluráðs.
 5. Kvikmyndahús til Hafnarfjarðar – lagt til að leitað verði leiða til að fá kvikmyndahús í Hafnarfjörð. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til bæjarráðs.
 6. Ekkert skólasund í unglingadeild – lagt til að skólasund verði afnumið fyrir nemendur í unglingadeild grunnskóla. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til fræðsluráðs.
 7. Bláfjallarúta frá Hafnarfirði – lagt til að boðið verði upp á rútuferðir frá Firði til Bláfjalla. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til umhverfis- og framkvæmdaráðs.
 8. Minna heimanám í grunnskólum – lagt til dregið verði úr heimanámi í grunnskólum Hafnarfjarðar. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til fræðsluráðs.
 9. Jafnréttisfræðsla – lagt til að jafnréttisfræðsla verði efld í grunnskólum Hafnarfjarðar. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til bæjarráðs.
 10. "Kakóstöðin" – félagsmiðstöð – lagt til að opnuð verði félagsmiðstöð í miðbæ Hafnarfjarðar sem opin verði unglingum úr öllum hverfum bæjarins. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til fræðsluráðs.
 11. Skólinn byrji seinna – lagt til að grunnskólinn hefjist seinna á daginn. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til fræðsluráðs.
 12. Hleðslustöðvar í miðbæinn – lagt til að komið verði upp fleiri hleðslustöðvum fyrir bíla og rafskútur í miðbæ Hafnarfjarðar. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til umhverfis- og framkvæmdaráðs.
 13. Skólahreystivöll í Hafnarfjörð – lagt til að settur verði upp skólahreystivöllur í Hafnarfirði. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til umhverfis- og framkvæmdaráðs.

Hægt er að skoða fundargerð bæjarstjórnar hér

 

Um Ungmennaráð Hafnarfjarðar

Ungmennaráð Hafnarfjarðar er vettvangur fyrir ungt fólk á aldrinum 13-18 ára. Áhersla er lögð á þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum ásamt því að koma skoðunum ungs fólks til réttra aðila innan stjórnkerfisins. 

Ungmennarad2020Flottur hópur frá Ungmennaráði Hafnarfjarðar með bæjarstjórn Hafnarfjarðar. 

Í Ungmennaráði sitja tveir fulltrúar úr hverjum grunnskóla í Hafnarfirði, þrír úr hverjum framhaldsskóla í Hafnarfirði og þrír fulltrúar sem eru valdir í gegnum Hamarinn að Suðurgötu 14. Starfsmenn ráðsins eru tveir og starfa þeir fyrst og fremst sem ráðgjafar og hafa því ekki áhrif á starfsemi þess. Markmið ráðsins að skapa vettvang og leiðir fyrir þá sem eru yngri en 18 ára til að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila. Þátttaka ungs fólks er mikilvæg til þess að bæta þjónustu og aðstæður þeirra. Á það fyrst og fremst við um málefni sem viðkemur ungu fólki á einn eða annan hátt og þau þekkja af eigin raun. Þar má nefna skólastarf, tómstundastarf og skipulag nánasta umhverfis.

Nánari upplýsingar um Ungmennaráð Hafnarfjarðar er að finna hér