Fréttir
  • IMG_7315

Til hamingju Hjalli!

25. sep. 2019

Leikskólinn Hjalli hóf starfsemi 25. september 1989 undir stjórn Margrétar Pálu Ólafsdóttur. Í dag fagnaði leikskólinn 30 ára afmæli með nemendum, starfsmönnum, bæjarstjóra, frumkvöðlinum sjálfum og fleiri gestum. Leikskólinn Hjalli hefur á þessum árum stimplað sig inn sem leikskóli sem fer óhefðbundnar leiðir í svo margþættu tilliti og hefur það í forgrunni að nemendunum líði vel og jafnrétti sé grunnstefið í allri nálgun í starfseminni. 

Leikskólinn Hjalli fór strax óhefðbundnar leiðir í leikskólastarfi sem var umtalað bæði hérlendis sem erlendis. Hjalli er meðal annars þekktur fyrir að fara óhefðbundnar leiðir í vali á efnivið eða leikefni fyrir börnin sem ýta undir sköpun og hugmyndaflug. Einnig fyrir sérstaka áherslu á jöfn tækifæri stúlkna og drengja til leiks og náms og hafa frá upphafi skipt nemendum í stúlkna- og drengjahópa. Þannig er báðum kynjum tryggt ákveðið svigrúm til leiks í jafningjahópi. Í dag starfrækir skólinn fjórtán leikskóla á landinu í tíu sveitarfélögum. Einnig rekur Hjallastefnan þrjá grunnskóla í þremur sveitarfélögum fyrir börn á aldrinum 5 – 10 ára; þar af einn í Hafnarfirði. Hjá Hjallastefnunni starfa um 450 manns og eru nemendur um 1.800 talsins. 

Einstakt umhverfi - steinsnar frá náttúruperlum

Staðsetning leikskólans Hjalla í Hafnarfirði er einstök. Hjalli stendur við Víðistaðatún sem er eitt af stærstu útivistarsvæðum Hafnfirðinga og býður upp á fjölbreytta möguleika til leiks og útivistar. Svo er hraun og fjara skammt undan, að ógleymdu Hellisgerði sem er í göngufjarlægð frá skólanum. Útivist og hreyfing er stór hluti af leikskólastarfinu og býður staðsetningin því upp á ógrynni tækifæra.

Hafnarfjarðarbær óskar leikskólanum Hjalla innilega til hamingju með 30 ára afmælið!