Fréttir
  • HaukarAfmaeli

Til hamingju Haukar og takk fyrir ykkar faglega framlag!

12. apr. 2021

Heilsubærinn Hafnarfjörður – til hamingju Haukar með stórafmælið! 

Heilsubærinn Hafnarfjörður hefur um langt skeið lagt ríka áherslu á fjölbreyttar forvarnir með öflugu samstarfi, frístundastyrkjum og heilsutengdum verkefnum sem auðga og efla lífsgæði og heilsu Hafnfirðinga. Bærinn hefur löngum verið mikill íþróttabær og hefur árum saman alið af sér meistara á nær öllum sviðum íþróttalífsins. Þar spila Haukar stórt hlutverk með faglegu félagsstarfi og öflugu stuðningsneti. Glæsileg mannvirki hafa risið á Ásvöllum síðustu áratugina og í dag, á sjálfan afmælisdaginn, er 90 ára afmæli Hauka fagnað með fyrstu skóflustungunni að nýju og glæsilegu knattspyrnuhúsi sem mun gjörbreyta allri aðstöðu knattspyrnudeildar Hauka á Ásvöllum.  

Asvellir1Fámennur en góðmennur hópur fagnaði stórafmæli Hauka á Ásvöllum í dag. 

Asvellir4

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar tekur hér fyrstu skóflustunguna að nýju knatthúsi Hauka á Ásvöllum. 

Til hamingju Haukar með 90 árin og takk fyrir ykkar faglega framlag! 

Afmæliskveðja frá bæjarstjóra Hafnarfjarðar

Níutíu ár eru nú liðin frá því að ungir og öflugir piltar komu saman til að stofna íþróttafélag hér í Hafnarfirði. Félagið fékk heitið Haukar og er saga félagsins, uppbygging, kraftur og vöxtur samofin sögu Hafnarfjarðar. Haukar hafa átt sinn þátt í því að stimpla Hafnarfjörð inn sem íþrótta- og heilsubæ og hafa, líkt og önnur félög innan bæjarmarkanna, bæði fyrr og síðar, alið af sér íþróttafólk á heimsmælikvarða. Frábær árangur íþróttamanna Hauka hefur borið hróður bæjarins víða. Glæsilegur árangur Hauka um margra áratuga skeið segir mikið um þann metnað, slagkraft og fagmennsku sem einkennir fjölbreytt starf félagsins. Þá býr félagið yfir öflugu og dýrmætu stuðningsneti sjálfboðaliða, sem hafa í gegnum árin unnið óeigingjarnt starf í þágu þess. Fyrir það verður seint fullþakkað. Einstakur félagsandi svífur yfir vötnum á Ásvöllum og þangað eru háir sem lágir jafnan velkomnir.

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa ætíð lagt áherslu á að efla og styrkja íþróttastarfið samhliða annarri uppbyggingu í bænum. Skiptir þar máli að góður skilningur hefur verið á þörfinni en auk þess hefur það sýnt sig að öll hreyfing, hvetjandi félagsskapur og flottar fyrirmyndir hafa mikið forvarnargildi. Með hverju árinu sem líður eykst áhersla á þætti sem hafa góð áhrif á heilsu og lífsgæði einstaklinganna. Það kemur samfélaginu okkar öllu til góða. Haukafélagar hafa notið góðs af markvissri uppbyggingu íþróttamannvirkja félagsins og öflugum stuðningi bæjarins í þeim efnum. Þá hafa þjónustu- og rekstrarsamningar og frístundastyrkir skipt sköpum í að fjölga iðkendum og byggja upp metnaðarfullt starf sem eflist stöðugt og þróast. Nú hyllir í að framkvæmdir hefjist við byggingu langþráðs knatthúss á Ásvöllum. Tilkoma þess mun valda byltingu í aðstöðu til knattspyrnuiðkunnar. Húsið verður mjög kærkomið og mun eiga stóran þátt í að gera nýjustu uppbyggingarsvæði bæjarins enn eftirsóknarverðari til búsetu. Samhliða er verið að byggja upp nýja grasvelli á svæðinu sem mætir þeirri miklu þörf sem skapast hefur. Við fögnum þessum framkvæmdum og er sérlega ánægjulegt að þær hefjist nú á 90 ára afmælisári félagsins.

Á þessum tímamótum vil ég, fyrir hönd bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og starfsfólks bæjarins, senda öllu Haukafólki innilegar hamingjuóskir í tilefni stórafmælisins með hjartans þökkum fyrir faglegt og mikilvægt framlag til íþrótta- og bæjarlífsins. Takk Haukar fyrir samstarfið og skemmtunina í gegnum tíðina og fyrir ykkar þátttöku í uppeldi ungmennanna okkar.

Rósa Guðbjartsdóttir
bæjarstjóri Hafnarfjarðar

Haukar90Ara

Afmæliskveðja bæjarstjóra og afmæliskveðja til Hauka birtist í afmælisblaði Hauka sem barst til landsmanna fimmtudaginn 8. apríl 2021 í aldreifingu Morgunblaðsins.