Fréttir
  • Smaralundur

Þrír skólar fá viðurkenningu fræðsluráðs

14. jún. 2019

Viðurkenning fræðsluráðs Hafnarfjarðar er veitt á hverju ári fyrir verkefni í skólastarfi sem ýta undir skólaþróun, fagsamvinnu og samstarf. Leikskólinn Smáralundur hlaut í vikunni viðurkenningu fyrir fjölbreyttan heilsueflandi skóla, Setbergsskóli fyrir lestur og ritun á yngsta kennslustigi og Víðistaðaskóli fyrir námsumhverfið veröld fyrir tvítyngda nemendur.

Innleiða núvitund í leikskólastarfið

Leikskólinn Smáralundur í Hafnarfirði hefur verið heilsueflandi leikskóli frá árinu 2016. Leikskólinn leggur mikla áherslu á daglega hreyfingu innan jafnt sem utanhúss og eru leiðarljós skólans; hreyfing, hollusta og vellíðan daglega sett á oddinn. Með því er lagður grunnur að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð barnanna til framtíðar. Eitt af markmiðum leikskólans er að efla hreyfifærni barna ásamt því að stuðla ávallt að fjölbreyttu og heilsusamlegu fæðuvali. Í dag vinnur leikskólinn að þriggja ára þróunarverkefni en hann hlaut árið 2018 styrk úr lýðheilsusjóði til þess að innleiða núvitund í leikskólastarfið. Smáralundur er með því verið að stíga enn frekara skref í átt að heilsueflandi sjónarmiðum sem stuðla jafnt að andlegu og líkamlegu heilbrigði barna og starfsfólks. Markmið núvitundar er að stuðla að meiri ró, betri sjálfsstjórn og aukinni einbeitingu auk almennrar vellíðunar. Þetta verkefni hefur verið unnið af mikilli fagmennsku og síðast en ekki síst hefur það haft jákvæð áhrif á staðblæ skólans jafnt sem starfsánægju.

Kennslan sjálf verður miðpunktur athyglinnar

Síðastliðin fimm skólaár hefur Setbergsskóli unnið að þróun lestrar- og ritunarkennslu í upphafi grunnskólans með aðlögun á kennsluaðferðinni bein kennsla (e. direct instruction) inn í daglegt starf á yngsta stigi skólans. Verkefnið byrjaði sem þriggja ára rannsóknarverkefni með Háskóla Íslands og síðustu tvö ár hefur skólinn haldið áfram að þróa verkefnið á eigin vegum. Í þessari þróun á lestrar- og ritunarkennslu hefur skólinn aðlagað umrædda kennsluaðferð að íslensku skólastarfi og bætt við hana, til dæmis ritunarþætti og ýmsu lestrarefni frá MMS. Jafnframt hafa kennarar á yngsta stigi Setbergsskóla unnið að margvíslegu fagsamráði til að styðja hvern annan í því að ná tökum á aðferðinni, rætt saman um leiðir til að styðja einstaka nemendur, skipulagt flókið kennslusamráð og búið til efni sem hentar í lestrar- og ritunarkennslu skólans. Innleiðingin var þannig þróun á langri hefð lestrarkennslu í skólanum sem byggðist á hljóðaaðferðinni sem áfram er til staðar en nýtt í víðara samhengi en áður. Kennarar hafa með þátttöku í þessari samvinnu unnið að því að efla eigin fagmennsku, séð aðferðina skila góðum árangri í lestrar- og ritunarkennslu sem hafi bætt við getu nemenda og sýnt sig að vera kennsluframkvæmd sem styður við hugmyndir um menntun fyrir alla. Jafnframt verður að segja að innleiðing á þessu verkefni í Setbergsskóla endurspegli gott dæmi um jákvæðar breytingar í skólastarfi þar sem kennslan sjálf verður miðpunktur athyglinnar, þ.e. námsárangur nemenda, fagsamvinna kennara og aðlögun kennslukenninga að staðbundnum aðstæðum.

Aðstoð við aðlögun að bekkjarstarfi, skóla og samfélagi

Veröld er sérstakt námsúrræði sem Víðistaðaskóli hefur byggt upp á síðustu þremur árum. Það hefur það hlutverk að taka á móti öllum nýjum tvítyngdum nemendum skólans og hjálpa til við aðlögun þeirra að bekkjarstarfi, skólanum og íslensku samfélagi. Sem námsúrræði styður Veröld íslenskunám nemenda með sérstakri kennslu í aðstöðu Veraldar í starfsstöðinni við Víðistaðatún en það er einnig með útibú í Engidalnum. Einnig hjálpar Veröld nemendum að aðlagast bekkjarstarfi og taka virkan þátt í daglegu skólastarfi með þeim viðfangsefnum í skólastarfinu sem nemendur takast á við í hverjum árgangi. Þá ýtir Veröld undir félagslega virkni nemenda, t.d. með sérstökum heimsóknum fyrir þá út fyrir skólann, t.d. á Þjóðminjasafnið, í leikhús og á söfnin í Hafnarfirði. Starfsmenn Veraldar eru íslenskir kennarar með fjölbreytta tungumálakunnáttu en einnig eru starfsmenn úrræðisins af erlendu bergi. Sérstaða Veraldar er að það er eins konar samhæfingarmiðstöð skólans við móttöku á tvítyngdum nemendum sem sér um að skipuleggja nám þeirra og tryggja sem heppilegasta aðlögun nemenda inn í daglegt skólastarf uns þeir þurfi ekki á þjónustu hennar að halda. Á þessum þremur árum sem starfsemin hefur verið skipulögð hefur starfsemin þróast og mótast og er komin til að vera.

Viðurkenningarathöfn fer fram í hverjum skóla þar sem starfsfólk skólins fær viðurkenningarskjöld, blómvönd og veitingar. Óskað er eftir tilnefningum til viðurkenninga og geta allir sent inn tilnefningar.