Fréttir  • GentleTeaching2017

Þjónandi leiðsögn innleidd í starf með fötluðu og öldruðu fólki

25. apr. 2017

Nú hafa flestir starfsmenn, sem starfa á heimilum fatlaðs fólks, vinnustöðum, skammtímavistun þar sem fatlað fólk dvelur, og starfsmenn heimaþjónustu Hafnarfjarðarbæjar fengið fræðslu um þjónandi leiðsögn. Unnið er að innleiðingu hugmyndafræðinnar á öllum þessum starfsstöðvum. Almennt fellur hugmyndafræðin vel að því starfi sem fyrir er og getur ekki annað en styrkt þau vinnubrögð og áherslur enn frekar í sessi. Starfsfólk er jákvætt og áhugasamt fyrir þessari viðbót í starfið. 

Hafnarfjarðarbær vinnur að því að hafa Þjónandi leiðsögn sem hluta af þeirri hugmyndafræði sem unnið er eftir í þjónustu við fatlað fólk og aldrað. Þjónandi leiðsögn leggur áherslu á stuðning við fólk, að skapa aðstæður í stað stýringar; skapa félaga í stað starfsmanna; og hlúa að eðli einstaklingsins svo hann fái notið sín sem hann sjálfur í stað þess að vera mótaður af öðrum. Áherslur þjónandi leiðsagnar eru að leitast við að allir upplifi öryggi og umhyggju, sýni umhyggju og séu virkir þátttakendur. Þjónandi leiðsögn gerir kröfur um að starfsmaðurinn horfi inn á við, nýti það góða sem býr innra með hverjum manni og gefi af sér hlýju og umhyggju í garð annarra. Að hann nýti sjálfan sig sem verkfæri til að hjálpa öðrum. Að gefa fólki tækifæri til að vera virkir þátttakendur á eigin forsendum. Hlutverk starfsmanna er gríðarlega mikilvægt og krafist er aukinnar skuldbindingar sem leiðir til breytinga, bæði persónulegra og samfélagslegra. Ferlið byrjar hjá okkur sjálfum.

Sjónum beint að tengslamyndun og samkennd

Þjónandi leiðsögn beinir sjónum sínum að tengslamyndun og samkennd. Við myndun félagslegra tengsla dregur úr ofbeldishegðun, hún hverfur jafnvel alveg og nýtt hegðunarmynstur þróast. Við náum til annarra með góðvild, með því að skynja þörf þeirra fyrir mannlega nánd og með því að sýna umhyggju og kærleika. Starfsmenn þurfa ekki eingöngu að tryggja að einstaklingarnir séu öruggir, heldur er ekki síður mikilvægt að þeir upplifi öryggi. 

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Hrönn Hilmarsdóttir, þroskaþjálfi og deildarstjóri reksturs- og þróunar í málefnum fatlaðs fólks hjá fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar - netfang: hronnhilmars@hafnarfjordur.is