Fréttir
  • Skipulagsmars2016

Þinn staður - okkar bær

30. mar. 2016

Mars er tileinkaður hönnun og skipulagi í Hafnarfirði. Vinnustofan „Þinn staður - okkar bær“ var opnuð í Hafnarborg miðvikudaginn 9. mars og stendur hún yfir til 3. apríl.  Þar eru til sýnis þær hugmyndir og sviðsmyndir sem lagðar hafa verið til í skipulagi Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar m.a. í tengslum við skýrslu um þéttingu byggðar og Flensborgarhöfn

Hafnarfjörður hversdagsins - sýning og samtal í Hafnarborg

Fimmtudagskvöldið 31. mars kl. 20 mun Stas Zawada ljósmyndari sýna og segja frá Hafnarfirði hversdagsins í máli og myndum. Að auki mun Þormóður Sveinsson skipulagsstjóri fjalla um aðlögun og þróun umhverfis okkar í samtali við Ágústu Kristófersdóttur forstöðumann Hafnarborgar. 

Opin vinnustofa í Hafnarborg

Skipulag og hönnun umhverfis skiptir okkur öll miklu máli enda um að ræða þætti sem geta haft mikil áhrif fyrir það mannlíf sem ætlað er að dafna á hverjum stað. Mikilvægt er að sem flestar raddir fái að hljóma í skipulagsvinnunni og tekið sé tillit til óska þeirra sem eiga að gæða hið byggða umhverfi lífi með nærveru sinni. Í opnum vinnustofum og samtali í Hafnarborg í mars gefst almenningi tækifæri til að ræða áherslur skipulagsyfirvalda og koma með ábendingar um það sem vel er gert og hvað má bæta. Í Sverrissal Hafnarborgar verður rýnt í það sem er efst á baugi í framkvæmdum og skipulagsmálum í miðbæ Hafnarfjarðar og aðliggjandi svæðum. Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðar, Hafnarborg og Markaðsstofa Hafnarfjarðar standa sameiginlega að sýningunni og vinnustofunum.

Myndir Stans Zawada má meðal annars sjá hér