Fréttir
  • IMG_4354

Þátttaka grunnskólanemenda í hádegismat eykst

19. feb. 2018

Þátttaka nemenda í grunnskólum Hafnarfjarðar í hádegismat hefur aukist í vetur. Þannig eru að jafnaði 75,5% nemenda í grunnskólunum sem eru að kaupa hádegismat, um 73% í fastri áskrift og nálægt 3% í lausasölu (dagval). Alls eru framreiddar rúmlega um 2.600 máltíðar á dag fyrir grunnskólanemendur í þeim sjö grunnskólum sem kaupa mat frá Skólamat ehf og rúmlega 3.500 nemendur sækja. Einn skóli, Áslandsskóli, er utan þessarra talna þar sem hann framreiðir sjálfur mat til nemenda og er þátttaka nemenda í hádegismat þar einnig góð.

Þetta er aukning á þátttöku frá því fyrr í vetur en sl. haust var þátttakan í lágmarki eða rúmlega 50% nemenda sem keyptu þá hádegismat. Í kjölfar aðgerða sem bæjaryfirvöld stóðu fyrir tókst þannig að auka þátttökuna í hádegismat upp í það sem hún hafði verið áður.

Það er stefna bæjaryfirvalda að nemendum standi til boða hollur og góður hádegismatur í grunnskólum. Fræðsluráð Hafnarfjarðar hefur einnig ákveðið að setja á laggirnar starfshóp til að fara fyrir framkvæmd á matarmálum í grunnskólum. Það er í þeim tilgangi að skoða frekari möguleika á því að einstaka skólar geti valið eigin leiðir í matarmálum, hvort bjóða eigi upp á meiri fjölbreytni (t.d. hvað varðar grænmetisfæði og vegan) og skapa önnur þau skilyrði fyrir því að grunnskólar færi nemendum máltíðir í hádegi sem mæti sem best þörfum nemenda og manneldissjónarmiðum. Í framhaldi á vinnu starfshópsins sem mun frekari samræða um matarmálin færast inn í skólasamfélag hvers grunnskóla á næsta skólaári áður en ákvörðun verður tekin um breytingar á því fyrirkomulagi sem nú er í gangi.

Á meðfylgjandi mynd er  Kristinn Guðlaugsson skólastjóri í Hvaleyrarskóla að borða með nemendum.