Fréttir
  • Taupokar_1

Skapandi samstarf kynslóða: Taupokar í stað plastpoka

4. sep. 2019

Um 150 taupokar hafa verið saumaðir í samstarfsverkefni Hrafnistu og leikskólans Norðurbergs „pokalaus Hafnarfjörður“, en það hefur staðið yfir í eitt skólaár. Þetta fallega framtak er liður í að framfylgja umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðar. Formleg afhending á taupokunum fór fram í samkomusal Hrafnistu í dag. 

Enn eitt skrefið í átt að plastlausum Hafnarfirði

Nemendur, starfsfólk og foreldrar leikskólans söfnuðu saman efni, s.s. gömlum gardínum, dúkum, sængurverum og fleiru, og komu því á vinnustofu iðjuþjálfunnarinnar á Hrafnistu. Heimilsfólk, þjónustunotendur og starfsfólk á Hrafnistu saumuðu síðan taupokana undir óhrein og blaut föt leikskólabarnanna, sem notaðir verða í stað plastpoka. Í upphafi leikskólaárs er pokunum dreift í fatahólf barnanna og í lok skólaárs innheimtir leikskólinn pokana og eiga foreldrar að skila þeim hreinum og stroknum til næstu barna. Tilgangur verkefnisins er að gera leikskólann eins plastpokalausan og hægt er. Eina sem keypt var voru skóreimar sem notaðar eru til að loka pokunum. Saumaskapurinn tók um eitt skólaár og börnin fóru tvær ferðir á Hrafnistu til að þræða reimarnar í pokana.

30546379_10215980803177757_1412483664_oElin-Eiriksdottir-og-Sigurborg-Sigurgeirsdottir-i-vinnustofu-idjuthjalfunarinnar.-

Þetta er langt frá því að vera fyrsta og eina samstarfsverkefni Hrafnistu og Norðurbergs. Í sex vetur hafa börn frá Norðurbergi heimsótt Hrafnistu einu sinni í mánuði. Leikskólinn á sína vinadeild á Hrafnistu sem er Báruhraun. Þá er verið syngjast á, spjalla og njóta dýrmætrar samveru. Oft eru bakaðar kökur eða vöfflur og borðað saman og gleðin er einkennandi á báða bóga.

Umfjöllun um verkefni birtist fyrst í Fjarðarpóstinum.

Tökum þátt í Plastlausum september

Hafnarfjarðarbær hvetur íbúa og fyrirtæki í Hafnarfirði til virkarar þátttöku í Plastlausum september, árvekniátaki sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um ofgnótt og skaðsemi plasts í umhverfinu. Samhliða því að benda á leiðir til að draga úr notkun á einnota plasti.

Ljósmyndir sem fylgja frétt koma frá Olgu Björt, Norðurbergi og Hrafnistu.