Fréttir
  • IMG_2903

TAKK veggur í miðbæ Hafnarfjarðar - taktu þátt

19. jún. 2020

Hafnarfjarðarbær hvetur íbúa og vini Hafnarfjarðar til að taka virkan þátt í „Til fyrirmyndar“ hvatningarátakinu sem stendur yfir dagana 17. – 30. júní. Átakið er tileinkað frú Vigdísi Finnbogadóttur og íslensku þjóðinni í tilefni þess að þann 29. júní nk. verða 40 ár síðan Frú Vigdís var kjörin forseti Íslands.

IMG_2892

Þessi flotti útskriftarhópur frá leikskólanum Arnarbergi heimsótti bæjarstjóra í vikunni og af því tilefni var smellt í myndatöku við flotta TAKK vegginn í Hafnarfirði. 

Stöldrum við og tökum eftir því sem vel er gert

Á þessum merku og fallegu tímamótum er verðugt að staldra við, huga að því sem vel er gert og þakka þeim sem hafa verið til fyrirmyndar á einn eða annan hátt. Dagana 17. til 30. júní eru landsmenn allir hvattir til að senda handskrifaða eða rafræna kveðju til fjölskyldu, vina, vinnustaða, félagasamtaka eða annarra sem bréfritarar vilja þakka fyrir að vera til fyrirmyndar. Hvatningarátakið hófst á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní og var þá póstkorti dreift í 75.000 eintökum með aldreifingu á Morgunblaðinu. Á vefnum www.tilfyrirmyndar.is er hægt að nálgast allar upplýsingar um átakið og sækja rafrænar myndir sem hægt er að deila á samfélagsmiðlum. Einnig er þar hægt að nálgast rafræn eintök af bréfsefninu á fjölmörgum tungumálum, bæði til sendingar og útprentunar sem er vel viðeigandi enda hefur Vigdís alla tíð lagt mikla rækt við tungumál og menningu.

TAKK veggur í Hafnarfirði – taktu mynd og deildu með öðrum

Landsmenn og þar með Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar eru hvattir til þess að taka virkan þátt í hvatningarátakinu með því að deila myndum á samfélagsmiðlum með áherslu á Instagram og Facebook undir merkjunum: @tilfyrirmyndar og #tilfyrirmyndar. Fallegur Takk veggur hefur verið málaður á gaflinn á húsinu að Strandgötu 4, í miðbæ Hafnarfjarðar og blasir veggurinn við öllum þeim sem leið eiga um Strandgötuna og um Reykjavíkurveginn.

Við hvetjum ykkur til að skella ykkur í myndaferð í miðbæinn, smella af mynd og birta undir merkjunum @tilfyrirmyndar og #tilfyrirmyndar og leggja þannig verðugu og fallegu átaki lið og þakka á sama tíma þeim sem hafa verið til fyrirmyndar á einn eða annan hátt.