Fréttir
Sumarhátíð Vinnuskólans

24. júl. 2020

Sumarhátíð Vinnuskóla Hafnarfjarðar fór fram fimmtudaginn 23. júlí í blíðskaparveðri þar sem voru saman komin á fjórða hundrað ungmenni á Víðistaðatúni.

Í Vinnuskólanum í ár störfuðu um 600 ungmenni í 8. til 10. bekk í almennum hópum en hlutverk þeirra er að sjá um beða- og ruslahreinsun ásamt almennri garðvinnu. Gert var út frá átta grunnskólum í bænum þar sem þau hreinsa til í sínu skólahverfi.

Sumarhátíðin er hugsuð sem uppskeruhátíð fyrir krakkana og þakklæti til þeirra fyrir að hafa hreinsað til í bænum í sumar.

Víðistaðatún iðaði af lífi þennan fallega sumardag eins og myndirnar, sem Andri Þór Unnarsson tók, bera með sér. Krakkarnir léku sér á bátum á tjörninni, farið var í ýmsa leiki eins og kubb, tennis, badminton og boltaleiki. Í grillhúsinu var boðið upp á pylsur og svaladrykki.

Á sama tíma var jafningjafræðsla Vinnuskólans með fatamarkað þar sem hægt var að kaupa notaðar flíkur frá 200 – 1000 kr. og rann ágóðinn, 12.500 kr, til UNICEF.