Fréttir




Sterk fjárhagsstaða og stöðugleiki

13. nóv. 2019

791 milljón króna afgangur af rekstri á árinu 2020.
Áhersla á aukna þjónustu og þróun og eflingu stafrænna þjónustuleiða

Samkvæmt tillögu að fjárhagsáætlun verður 791 milljón króna afgangur á A og B hluta á árinu 2020. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði tæp 12% af heildartekjum eða 3,6 milljarðar króna. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er sterk. Skuldaviðmið heldur áfram að lækka, er áætlað 120% í árslok 2019 og verður samkvæmt áætlun 105% í lok árs 2020. Áhersla verður lögð á að nútímavæða og þróa þjónustu sveitarfélagsins með hagnýtingu upplýsingatækni og skýrari verkferlum. Skipulagsbreytingar, sem gerðar voru nýlega með stofnun á nýju sviði þjónustu og þróunar hjá sveitarfélaginu, eru til þess fallnar að bæta og þróa þjónustuna og verkferla í takti við breyttar þarfir og umhverfi. Aukin þjónusta við íbúa og fyrirtæki verður áfram grundvallarverkefni sveitarfélagsins þar sem forvarnir verða í forgrunni og áfram unnið að stórum innleiðingarverkefnum sem snúa m.a. að fjölþættri heilsueflingu allra aldurshópa, snemmtækri íhlutun, fjölmenningu, notendasamráði og umbótum á starfsumhverfi nemenda og starfsfólks. Leikskólagjöld haldast þau sömu nú sjöunda árið í röð. 

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2020:

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 791 milljóna króna
  • Skuldaviðmið verður um 105% í árslok 2020
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta 3,6 milljarðar króna eða tæp 12% af heildartekjum
  • Útsvarsprósenta óbreytt eða 14,48%
  • Heildarálagning fasteignagjalda lækkar með lægri vatns- og fráveitugjöldum til að koma til móts við hækkun fasteignamats
  • Almennt er gert ráð fyrir að gjaldskrá fyrir árið 2020 haldist óbreytt eða hækki í takt við vísitölu. Dvalargjöld á leikskólum verða óbreytt sjöunda árið í röð
  • Áætlun gerir ráð fyrir lóðarsölu að andvirði 1.000 milljónir króna
  • Áætlaðar fjárfestingar nema samtals 3,1 milljörðum króna
  • Kaup á félagslegum íbúðum nema 500 milljónum króna

„Fjárhagsáætlunin ber þess glöggt merki að rekstur Hafnarfjarðar gengur vel og fjárhagur bæjarins er traustur. Skuldaviðmiðið heldur áfram að lækka og enn verður einungis framkvæmt fyrir eigið fé sveitarfélagsins og innkomu af lóðasölu,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. „Lögð er áhersla á að tryggja og efla þjónustuna við bæjarbúa en halda gjöldum í lágmarki og sýna ráðdeild í rekstri og fjárfestingum“.

Áhersla á forgangsröðun í grunnþjónustu

Fjárheimild til framkvæmda árið 2020 er samtals 3.125 milljónir króna. Hluti af þessari upphæð fer í frekari uppbyggingu á suðurhöfninni, kaup á félagslegu húsnæði og framkvæmdir veitna. Lögð er áhersla á forgangsröðun í grunnþjónustu, svo sem skólamannvirkjum, samgöngum, fráveitumálum og endurnýjun á Sólvangi. Á árinu er áætlað að gera samgönguáætlun fyrir Hafnarfjörð þar sem áhersla verður lögð á umferðaröryggismál og vistvænar samgöngur fyrir íbúa bæjarins. Ásvallabraut milli Skarðshlíðar og Kaldárselsvegar fer í framkvæmd og gert er ráð fyrir að sú framkvæmd taki tvö ár auk þess sem tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi lýkur á árinu. Gert er ráð fyrir áframhaldandi framkvæmdum við nýjan leik-, tónlistar- og grunnskóla í Skarðshlíð sem hófust á árinu 2017 og að kostnaður við þessar fræmkvæmdir verði í kringum 800 milljónir króna á árinu. Unnið verður að frágangi á nýbyggingarsvæðum víðsvegar um bæinn sem og gerð nýrra stíga til að stuðla að vistvænni samgöngumátum. Sérstakt fjármagn er ætlað til vinnu að ýmsum verkefnum á sviði umhverfismála auk þess sem áfram verður unnið að undirbúningi á uppbyggingu íþróttamannvirka.

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar er lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag. Fjárhagsáætlun nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2021-2023. Gert er ráð fyrir að síðari umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar í bæjarstjórn verði miðvikudaginn 11. desember.

Meðfylgjandi eru drög að fylgigögnum fjárhagsáætlunar 2020-2023: