FréttirFréttir

  • IMG_1734

Stefán Karl og hláturinn hafa fengið fastan stað í Hellisgerði.

11. sep. 2017

Stefán Karl Stefánsson leikari gróðursetti í síðustu viku tré í Hellisgerði í lágstemmdri athöfn með nánustu fjölskyldumeðlimum. Tilefnið og aðdragandinn var sá að eftir frumsýningu á „Með fulla vasa af grjóti“ í Þjóðeikhúsinu á dögunum, færði Ari Mattíasson þjóðleikhússtjóri Stefáni tré í stað blómvandar eins og venja er. Ari tilkynnti Stefáni að trénu væri ætlaður staður í Hellisgerði sem hafði verið fundin í samráði við garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar og í framahaldi var athöfn síðustu viku sett saman.

Með Stefáni voru í Hellisgerði við þetta tilefni móðir Stefáns, Hulda Karen Ólafsdóttir, eiginkona Stefáns, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, systir Stefáns og fleiri nánir ættingjar og Ari Þjóðleikhússtjóri. Garðyrkjustjóri Hafnarfjarðarbæjar Ingibjörg Sigurðardóttir var Stefáni til halds og trausts.

Stefán sagði viðstöddum að hann væri þakklátur fyrir að fá að gróðursetja tréð í Hellisgerði. Þaðan á hann margar æskuminningar og steig sín fyrstu skref í leiklistinni. „Hingað getur fólk komið og hlegið“ sagði leikarinn þegar hann hafði sett tréð niður. Stefán Karl og hláturinn hafa því fengið fastan stað í Hellisgerði.