Fréttir
  • Hafnarfjörður sumarkvöld
    Hafnarfjörður sumarkvöld

Staða mála og næstu skref í skipulagi miðbæjar

9. sep. 2019

Til og með 20. september 2019 gefst íbúum og öðrum áhugasömum tækifæri til að senda inn athugasemdir og viðbætur við fyrirliggjandi drög að skýrslu frá starfshópi um skipulag miðbæjar Hafnarfjarðar. Mikilvægt er að halda því til haga að þær teikningar sem liggja fyrir eru ekki hluti af vinnu eða tillögum starfshópsins. Þær þarf að vinna áfram í takt við þá forskrift (forsögn) sem starfshópurinn leggur til í skýrslu sinni og íbúum og öðrum áhugasömum gefst nú tækifæri til að hafa áhrif á. Öll vinna við skipulag miðbæjar er enn á hugmyndastigi.  

Íbúafundur 17. september kl. 17:30 í Bæjarbíó

Opinn fundur fyrir íbúa og aðra áhugasama verður haldinn þriðjudaginn 17. september frá kl. 17:30 – 18:30 í Hafnarborg. Þar gefst gestum tækifæri á að leggja mat á aðferðafræði hugmyndavinnunnar nú á upphafsstigunum skipulagsferilsins, reifað hugmyndir sínar og tekið þátt í umræðu um framtíð miðbæjarins. Þormóður Sveinsson skipulagsfulltrúi mun fara yfir hugmyndir arkitektastofanna og skipulagsferlið í heild sinni. Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður starfshóps um skipulag miðbæjarins, mun segja frá tillögum hópsins og drögum skýrslu og Kári Eiríksson, arkitekt og fulltrúi íbúa í starfshóp, mun leiða vinnufund þar sem gestir geta viðrað hugmyndir sínar og skoðanir.

Drög að skýrslu frá starfshópi um skipulag miðbæjar Hafnarfjarðar

Miðbær Hafnarfjarðar - hugmyndavinna TRÍPÓLÍ arkitekta vegna nýrrar uppbyggingar fyrir Hafnarfjarðarbæ

Einnig er hægt að senda inn ábendingar á samráðsvettvanginum Betri Hafnarfjörður , í tölvupósti á hafnarfjordur@hafnarfjordur.is eða bréfleiðis til Hafnarfjarðarbæjar, Strandgötu 6, 220 Hafnarfirði til og með 20. september 2019. Á fundi bæjarráðs 15. ágúst 2019 var samþykkt að drög að skýrslu frá starfshópi um skipulag miðbæjar Hafnarfjarðar færu á vef Hafnarfjarðarbæjar í 30 daga. Bæjarráð samþykkti einnig að starfshópurinn haldi tvo aukafundi til að yfirfara innsendar athugasemdir / viðbætur og skili fullunnu skjali til bæjarráðs fimmtudaginn 26. september nk.