Fréttir
  • IMG_9646

Stabat Mater og tónleikar tileinkaðir hafinu

27. nóv. 2018

Tvö verkefni hlutu styrk úr Friðrikssjóði í dag á sjálfum fæðingardegi Friðriks Bjarnasonar.  Það eru tónleikar sem tileinkaðir eru hafinu og flutningur á verkinu Stabat Mater. Alls bárust 9 umsóknir að þessu sinni um styrk úr sjóðnum en stjórn sjóðsins tók ákvörðun um að styrkja tvö verkefni um 145.000 kr. hvort verkefni. Að hausti ár hvert er auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Sjóði Friðriks Bjarnasonar og Guðlaugar Pétursdóttur. Hlutverk sjóðsins er að efla tónlistarlíf í Hafnarfirði og styrkja hafnfirska nemendur til framhaldsnáms í tónlist og fræðimenn í tónlist.

Stabat mater

Flutningur ungra og upprennandi íslenskra tónlistarnema sem stunda nám í tónlistarháskólum erlendis á verkinu Stabat Mater eftir Giovanni Battista Pergolesi í Hafnarborg. Flytjendur eru Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, sópran, Kristín Sveinsdóttir, mezzósópran, Pétur Björnsson, fiðluleikari auk annarra meðlima kammersveit Elju.

Tónleikar tileinkaðir Hafinu

Cauda Collective er tónlistarhópur sem hefur það að markmiði að blanda saman klassískri kammertónlist við nýja tónlist og flétta saman við önnur listform. Meðlimir eru Sigrún Harðardóttir, fiðluleikari og Þórdís Gerður Jónsdóttir, sellóleikari. Styrkurinn er fyrir tónleika tilenkaða hafinu sem fara fram í Hafnarborg á svipuðum tíma og Sjómannadagurinn.

Um Friðrikssjóð

Í erfðaskrá frá 1960 arfleiddu hjónin Friðrik Bjarnason og Guðlaug Pétursdóttir Hafnarfjarðarbæ af miklum hluta eigna sinna og mæltu svo fyrir að bækur og munir skyldu varðveittar í bókasafninu og að stofnaður væri sjóður til að "efla tónlistarlíf í Hafnarfirði með þeim hætti er best þykir fara hverju sinni, þó einkum til eflingar sönglífs í bænum“, og „styrkja nemendur til tónlistarnáms og fræðimenn í tónlist“. Styrkveiting fer fram á afmælisdegis Friðriks 27. nóvember ár hvert.

Hafnarfjarðarbær óskar styrkþegum innilega til hamingju!