Fréttir
Söngkeppni Hafnarfjarðar 2015

23. jan. 2015

Þann 21. janúar var haldin Söngkeppni félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar en þessi árlega keppni er undankeppni Söngkeppni Samfés sem haldin verður í Laugardalshöll laugardaginn 14. mars.

Keppnin fór fram í Víðistaðaskóla í félagsmiðstöðinni Hrauninu en þar hefur hún verið haldin undanfarin ár. Alls tóku 14 atriði þátt, tvö atriði úr hverri félagsmiðstöð en þau atriði höfðu verið valin í undankeppnum sem félagsmiðstöðvarnar héldu fyrr í vetur.

Dómarar voru Björk Jakobsdóttir leikkona, Ingvar Jónsson tónlistarmaður, Rebekka Sif Stefánsdóttir söngkona og Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir leikkona. Atriðin tvö sem valin voru sem sigurvegarar og þar með  fulltrúar félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar á Samfés voru Telma Kolbrún Elmarsdóttir, söngur og Inga Steinunn Henningsdóttir á Píanó, þær koma úr félagsmiðstöðinni Ásnum og fluttu lagið Halleluja.

Svo var það Eyþór Eysteinsson úr Mosanum en hann flutti lagið Svartur Afgan. Í öðru sæti var Sara Renee Griffin úr félagsmiðstöðinni Hrauninu og í því þriðja voru Márus Björgvin Gunnarsson og Fanný Lísa Hevesi úr félagsmiðstöðinni Vitanum. Kynnar kvöldsins voru þeir Sindri Blær Gunnarsson og Viktor Pétur Finnsson.

Dómarar sem og áhorfendur voru allir sammála um að keppnin hafi verið einstaklega hörð í ár enda ótrúlega hæfileikaríkir krakkar í Hafnarfirði sem fá góðan stuðning frá félögum og fjölskyldum. Það sást vel í gær því húsið var troðfullt og mikil stemning.

Til hamingju allir keppendur - þið voruð frábær.