Fréttir
  • IMG_4392

Söfn og menningarstofnanir opna í dag

4. maí 2020

Frá og með miðnætti 23. mars hafa söfn og menningarstofnanir í Hafnarfirði, líkt og í öðrum sveitarfélögum, verið lokaðar. Tilslakanir yfirvalda frá og með 4. maí heimila að nýju opnun í Hafnarborg, Byggðasafni Hafnarfjarðar og á Bókasafni Hafnarfjarðar. Við tekur hefðbundinn afgreiðslutími á öllum stöðum. 50 gestir geta verið á söfnunum samtímis og gilda áfram viðmið um 2 metra reglu, þrif á sameiginlegum snertiflötum og almennar sóttvarnir. Allir þeir sem eru í sóttkví, með flensulík einkenni eða eru slappir eru vinsamlega beðnir um að bíða með heimsókn þar til heilsan er orðin 100%. Við erum jú öll almannavarnir áfram.

Bókasafn Hafnarfjarðar opnar kl. 10 - heimsækja vef bókasafns

  • Öll skil munu fara fram við sjálfsafgreiðsluvélina. Utan opnunartíma má skila í skilalúgu
  • Skilafrestur allra safngagna hefur verið framlengdur til 14. maí svo allir hafi nægan tíma til að skila. Engar sektir reiknuðust á meðan á samkomubanni stóð
  • Búið er að framlengja gildistíma bókasafnsskírteina (sem voru í gildi) um 6 vikur, sem nemur herta samkomubanninu

Hafnarborg opnar kl. 12 - heimsækja vef Hafnarborgar

  • Opið verður eins og venjulega, alla daga, nema þriðjudaga, kl. 12–17, og aðgangur er ókeypis.
  • Í Hafnarborg stendur nú yfir sýningin Þögult vor, eftir Herttu Kiiski, Katrínu Elvarsdóttur og Lilju Birgisdóttur, í sýningarstjórn Daríu Sólar Andrews. Þar kalla þær fram hlýjar tilfinningar til náttúrunnar og vekja okkur til umhugsunar um þau áhrif sem skaðvænlegar neysluvenjur okkar hafa á umhverfið. Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands.

Byggðasafn Hafnarfjarðar - heimsækja vef Byggðasafns

  • Í maí er opið í Pakkhúsi laugardaga og sunnudaga frá kl. 11-17. Í Pakkhúsinu eru að öllu jöfnu þrjár sýningar í gangi í einu, fastasýning um sögu bæjarins, leikfangasýning og þemasýning
  • Sumaropnun á öllum söfnum Byggðasafns Hafnarfjarðar hefst 1. júní og stendur til og með 31. ágúst. Þá verður opið alla daga vikunnar frá kl. 11-17


Hlökkum til að taka á móti ykkur í raunheimum en þökkum á sama tíma fyrir góða skemmtun á netinu síðustu vikur og daga!