Fréttir
  • Img_7632

Snyrtileikinn verðlaunaður

30. ágú. 2018

Fjöldi ábendinga frá bæjarbúum og starfsmönnum fyrirtækja í Hafnarfirði barst þegar óskað var eftir tilnefningum til viðurkenninga fyrir snyrtileika og fegurð lóða og garða í sveitarfélaginu. Icelandair og Rafal ehf. fengu viðurkenningu fyrir snyrtilegustu fyrirtækjalóðirnar á athafna- og iðnaðarsvæðum og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar heiðurverslun fyrir brautryðjandastarf í landgræðslu, gróðurvernd og fjölbreyttri trjá- og skógrækt en verðlaunin eru ætið afhent í Gróðrarstöðinni Þöll sem skógræktin rekur við Kaldárselsveg.

Hafnarfjarðarbær leitaði fyrr í sumar til íbúa og annarra áhugasamra eftir tilnefningum til viðurkenninga fyrir snyrtileika og fegurð eigna, garða og gatna í Hafnarfirði. Viðurkenningarnar voru veittar við hátíðlega athöfn í húsnæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar í blíðaskaparveðri á miðvikudagskvöld. Eigendur garða við Álfaskeið 85, Brekkuás 15, Erluhraun 15, Fjóluhvamm 9, Gauksás 37, Hellisgötu 7, Jófríðarstaðaveg 13 og Spóaás 18 fengu viðurkenningu fyrir fallega og snyrtilega garða með fjölbreytni í gróðri, góða hirðingu og metnað í garðyrkjustörfum sínum þrátt fyrir rigningarsumar. Þá fékk Norðurbakki 23 og 25 a-d viðurkenningu fyrir skemmtilega og fallega fjölbýlishúsalóð við strandstíginn sem gerir gönguferð þeirra sem ganga stíginn ánægjulega þar sem eigendur hafa gert sína hellulögðu afnotafleti fallega með allavega mublum, blómakerjum, hitalömpum og allavegana garðskrauti.

Snyrtilegustu lóðirnar við fyrirtæki á athafna- og iðnaðarsvæðum

Tvö fyrirmyndarfyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir umhverfisfrágang á nýju athafnasvæði á Völlunum. Icelandair hefur lagt mikinn metnað í að laga lóð sína við Flugvelli að umhverfinu en allar gönguleiðir eru hellulagðar og snyrtilegar. Þá blasir fjölbreyttur gróður og falleg hraunhleðsla við þegar gengið er inn um aðalinngang og þar er aðstaða fyrir reiðhjól til fyrirmyndar, góð lýsing og flokkunartunnur. Rafal ehf. við Hringhellu 9 sker sig úr í hverfinu með mjög snyrtilega lóð með góðri aðstöðu fyrir starfsfólk með bekkjum og borðum, gróðri, hleðslum og hellulögðu stæði fyrir fatlaða. Lóðin er til fyrirmyndar og öðrum fyrirtækjum á þessum stað hvatning til að gera slíkt hið sama.

Með viðurkenningunum vill Hafnarfjarðarbær vekja áhuga almennings á fegrun umhverfis innan bæjarins með því að beina athyglinni að þeim sem til fyrirmyndar teljast og ættu þannig að vera öðrum hvatning til framkvæmda.

Img_7618

Á myndunum má sjá verðlaunahafa taka við viðurkenningum og á einni þeirra eru Helga Ingólfsdóttir, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs, Steinar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri og Berglind Guðmundsdóttir, umhverfisfulltrúi.

Img_7628