Fréttir
  • Gaukas

Snyrtileikinn verðlaunaður

26. ágú. 2016

Fjöldi ábendinga frá bæjarbúum og starfsmönnum fyrirtækja í Hafnarfirði barst þegar óskað var eftir tilnefningum til viðurkenninga fyrir snyrtileika og fegurð lóða, garða og gatna í sveitarfélaginu. Fyrirtækin Héðinn, Krónan og Te og kaffi þykja góðar fyrirmyndir fyrirtækja í snyrtimennsku og almennri umgengni. Stjörnugatan er Gauksás 39-65 þar sem íbúar hafa í samstarfi sínu skapað snyrtilega og fallega götuásýnd.   

Hafnarfjarðarbær leitaði fyrr í sumar til íbúa og annarra áhugasamra eftir tilnefningum til viðurkenninga fyrir snyrtileika og fegurð eigna, garða og gatna í Hafnarfirði. Í dag voru viðurkenningarnar veittar við hátíðlega athöfn í húsnæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Eigendur garða við Brekkugötu 25, Dvergholt 11, Fléttuvelli 29 og Hringbraut 39 fengu viðurkenningu fyrir fjölbreytni í gróðri, góða hirðingu, snyrtimennsku og metnað í garðyrkjustörfum sínum. Þá fékk fjölbýlishúsið við Hringbraut 2a, 2b og 2c viðurkenningu fyrir snyrtilegt útisvæði sem greinilega hefur verið byggt upp og við haldið í samstarfi áhugasamra nágranna.  Gaukás 39-65 þykir fallegasta gatan í Hafnarfirði og hefur hlotið nafnbótina Stjörnugatan. Þar hafa íbúar lagt metnað í að ganga snyrtilega frá lóðum sínum.

Fjögur fyrirtæki verðlaunuð fyrir góða umgengni og framlag til umhverfismála

Fyrirtækið Héðinn hefur lagt mikinn metnað í góðan frágang á lóð sinni að Gjáhellu 4 og þykir til fyrirmyndar hvað varðar snyrtileika á lóð á skilgreindu iðnaðarsvæði. Héðinn er að fá verðlaun fyrir framlag sitt til fegrunar á atvinnusvæði í annað sinn.  Te og Kaffi er dæmi um annað hafnfirskt fyrirtæki sem hefur með samfélagshugsun sinni og framkvæmdagleði breytt iðnaðarumhverfi með undraveðrum hætti og gert það snyrtilegt í samstarfi við nágrannafyrirtæki sín.  Krónan er þriðja fyrirtækið sem hlaut í dag viðurkenningu Hafnarfjarðarbæjar. Krónan hefur byggt upp nýja verslun við Flatahraun í Hafnarfirði. Búðin byggðist upp á ótrúlegum hraða og þykir frágangur á lóð og aðgengi fyrir viðskiptavini til fyrirmyndar. Krónan er fyrsta verslunin í Hafnarfjarðarbæ sem setur upp græn bílastæði með hleðslustaurum fyrir gesti sína, öll stæði eru vel merkt og gönguleiðir að verslun skýrar.

Með þessum viðurkenningum vill Hafnarfjarðarbær vekja áhuga almennings á fegrun umhverfis innan bæjarins með því að beina athyglinni að þeim sem til fyrirmyndar teljast og ættu þannig að vera öðrum hvatning til framkvæmda.