Fréttir  • IMG_4949

Snjallbærinn Hafnarfjörður verður til

6. nóv. 2020

„Smart City“ eða snjallborg er hugtak sem hefur verið áberandi í umræðunni undanfarin misseri og þó Hafnarfjörður sé ekki borg þá er bærinn að taka ákveðin skref í að gerast snjall. Verkefnin ganga út að nýta upplýsingatæknina til að bæta gæði og skilvirkni þjónustunnar og koma á enn betri samskiptum við íbúa. 

HopurinnsnjallbaerinnSnjallhópurinn - starfsfólk og fulltrúar frá Hafnarfjarðarbæ og Lýsir.  

Síðustu daga hefur fyrirtækið Lýsir sett upp nýja þjónustu í Hafnarfirði sem miðar að því að greiða aðgengi að mikilvægum og hagnýtum upplýsingum, auka gagnaöryggi og spara útgjöld til lengri tíma litið. Ný þjónusta felur í sér veðurstöð, loftgæðamæla og snjallar ruslatunnur auk þess sem til skoðunar er að setja upp „heita reiti“ innan Hafnarfjarðar. Lýsir, sem er framsækið fyrirtæki á sviði fjarskipta, sér um uppsetningu á búnaði, viðeigandi kerfum og tengingum.  „Við erum að prófa okkur áfram með nýjum og snjöllum lausnum. Tökum þetta í litlum skrefum og leyfum þessum skrefum að aðstoða okkur við frekari ákvarðanir um innleiðingu“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Lysir1

Lifandi mælingar um veður og loftgæði

Hafnarfjarðarbær hefur fest kaup á nýrri veðurstöð sem búið er að koma tryggilega fyrir á góðum stað í miðbæ Hafnarfjarðar. Stöðin, sem tengist LoRaWAN kerfi Lýsir, opnar leið fyrir sveitarfélagið til að birta lifandi mælingar á vef bæjarins . LoRaWAN er þráðlaust fjarskiptakerfi sem hefur langa drægni en notar litla orku og þykir kjörið fyrir sendingar á tiltölulega einföldum upplýsingum á öruggan hátt. Þannig geta íbúar og aðrir áhugasamir fengið rauntíma upplýsingar um m.a. úrkomu, vindátt, vindhraða, svikryksmengun, uppgufun, sólargeislun og loftþrýsting auk upplýsinga um veðurspá sem ættu að aðstoða fólk við hversdagslegar ákvarðanir eins og t.d með klæðnað þann daginn og hverskyns útivist. Samhliða hefur Hafnarfjarðarbær fest kaup á þremur færanlegum loftgæðamælum til notkunar innanhúss. Þannig er með upplýstum hætti hægt að bregðast fljótt og örugglega við aðstæðum sem kunna að hafa áhrif á loftgæði.

Skoða upplýsingar um veður og loftgæði á vef bæjarins

Lysir8

Svona lítur veðurstöð út en einni slíkri hefur verið komið upp í miðbæ Hafnarfjarðar.  

Snjallar ruslatunnur og heitir reitir

Skynjara hefur verið komið fyrir í ruslatunnum á Strandgötunni sem lið í tilraunaverkefni til eins árs. Skynjarinn greinir magn í ruslatunnunum og hjálpar þannig til við ákveðna hagræðingu á sorphirðu sem er til þess fallin að draga úr mengun, spara eldsneyti og tíma starfsfólks. Hafnarfjarðarbær leigir búnaðinn frá Lýsi til að byrja með og mun með tímanum meta hvort hagkvæmt sé að setja upp slíka skynjara í allar jarðfestar ruslatunnur sveitarfélagsins. Markmið með þessu verkefni er að lækka kostnað við tæmingu og draga úr líkum á yfirfullum ruslafötum en þessar snjöllu tunnur geta m.a. gefið til kynna hvenær þarf að tæma þær.

SkynjararVidHvaleyrarvatnSkynjara hefur verið komið fyrir í nokkrum ruslatunnum í Hafnarfirði sem lið í tilraunaverkefni til eins árs. 

Til skoðunar er að setja upp „heita reiti“ (e. hot spots) á fjölförnum stöðum innan sveitarfélagsins og opna þannig fyrir þráðlaust net sem ætlað er til almenningsnota og þá ekki síst fyrir þá innlendu og erlendu ferðamenn sem sækja bæinn heim. Og munu sækja bæinn heim í náinni framtíð. Slíkir reitir henta vel fyrir upplýsingagjöf og hafa hvorutveggja Thorsplan og Víðistaðatún verið nefnt í þessu samhengi. Hafnarfjarðarbær hlaut á árinu 2 milljóna króna styrk úr evrópska samstarfsverkefninu WiFI4EU til að koma upp heitum reitum innan sveitarfélagsins.

„Við horfum til framtíðar með snjöllum lausnum en snjallbæjarverkefni sem þessi eiga mikinn möguleika á að auka skilvirkni, hagræðingu og bæta þjónustu við bæjarbúa. Mikil tilhlökkun er að sjá hvernig til tekst í þessum upphafsverkefnum snjallbæjarins Hafnarfjarðar og þá getum við farið að skoða önnur spennandi verkefni eins og lýsingu sem er til þess fallin að draga úr orkunotkun og ljósmengun og skynjara í bílastæði sem gæti aukið nýtingu þeirra og auðveldað aðgengið“ segir Rósa.