Fréttir
Skrifað undir samning um þjónustu við hælisleitendur

23. okt. 2015

Hafnarfjarðarbær og Útlendingastofnun hafa skrifað undir samningum  um þjónustu og búsetuúrræði fyrir þrjár fjölskyldur hælisleitenda meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri, og Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, skrifuðu undir samninginn ásamt Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu sem staðfesti samninginn fyrir hönd ráðherra. Samningurinn gildir til 1. mars 2016.

„Þetta er stór áfangi sem skiptir miklu máli þó þetta séu ekki margar fjölskyldur,“ sagði Kristín Völundardóttir. „Nú hyllir undir að við náum utan um þjónustuna sem við veitum í dag.“ „Við ætlum að vanda til verka og Hafnarfjarðarbær mun takast á við þetta verkefni af metnaði,“ sagði Haraldur L. Haraldsson. „Þetta er nýtt verkefni sem við erum að takast á við og hlökkum til að vera í frekara samstarfi við Útlendingastofnun.“

Með samningum skuldbindur Hafnarfjarðarbær sig til að þjónusta allt að fimmtán manns meðan þau bíða úrlausnar sinna mála hér á landi. Fjölskylduþjónusta annast þjónustuna sem felst í að tryggja hælisleitendum fæði og húsnæði, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu og sérstaklega hugað að þjónustu fyrir börn. Þá sér Hafnarfjarðarbær um að hælisleitendur fái notið þjónustu túlks eftir því sem við á og bjóða uppá íslenskukennslu.

Hafnarfjarðarbær skal sjá um að gefa hælisleitendum tækifæri til að kynnast íbúum og staðháttum í Hafnarfirði og þeirri þjónustu og afþreyingu sem stendur til boða í nærsamfélaginu, s.s. bókasafn og sundlaugar.

Fjölskylduþjónustan hefur auglýst eftir verkefnastjóra til að hafa yfirumsjón með þjónustu við hælisleitendur og flóttamenn og samþætta og skipuleggja þjónustuna í samvinnu við þjónustuaðila. Umsóknarfrestur er til 4. nóvember næstkomandi.