Fréttir
Skólabyrjun

21. ágú. 2018

Formlegt skólastarf nemenda í grunnskólum Hafnarfjarðar hefst miðvikudaginn 22. ágúst. Rétt rúmlega 4.000 börn setjast á skólabekk þetta haustið, og af þeim um 130 börn í Skarðshlíðarskóla sem flytur inn nýtt skólahúsnæði í Skarðshlíð. 

Að byrja í grunnskóla er stórt skref í lífi hvers barns og við slík tímamót er samstarf heimilis og skóla afar mikilvægt.  Síðar í haust munu foreldrar 1. bekkinga fá sérstakan bækling um upphaf grunnskólagöngunnar. 

Allar upplýsingar um skólasetningu eru á heimasíðum skólanna sem gefa auk þess góðar upplýsingar um starf og áherslur skólanna og er áhugavert að gefa sér tíma til að líta á það með barninu. 

Hafnarfjarðarbær útvegar grunnskólanemendum námsgögn þeim að kostnaðarlausu. Skólar hafa því keypt ritföng sem nemendur þurfa að nota í skólastarfinu. Þannig munu nemendur fá stílabækur, skriffæri, möppur og annað slíkt sem þeir þurfa á að halda í daglegu skólastarfi til viðbótar við námsbækur sem hafa ávallt verið nemendum að kostnaðarlausu.