FréttirFréttir

Sandur í boði fyrir íbúa

12. feb. 2019

Vetur konungur kallar og nú er staðan sú og veðurskilyrði þannig að nokkur hálka hefur myndast á götum, göngustígum og bílaplönum víða um bæinn. Þjónustumiðstöð Hafnarfjarðarbæjar sér um mokstur og hálkuvarnir en einnig eru kallaðir til verktakar á annatímum. Almennt viðmið er þjónusta frá kl. 7:30 - 22 en veður og færð stýra þjónustutíma. Þegar þannig viðrar hefst þjónustan mjög snemma og endar seint.

Nánari upplýsingar um hálkuvarnir og snjómokstur, fyrirkomulag og forgang er að finna HÉR

Sandur er aðgengilegur að Norðurhellu 2


Íbúum í Hafnarfirði stendur til boða að nálgast sand við Þjónustumiðstöðina að Norðurhellu 2. Sú breyting hefur orðið að íbúar þurfa nú sjálfir að koma með ílát (margnota poka, fötur, bala) undir sandinn. Síðustu ár hafa plastpokar og skóflur verið á staðnum en eftirleiðis verður bara sandur og skófla. Talar þessi breyting í takt við yfirlýsta stefnu Hafnarfjarðarbæjar í umhverfismálum um m.a. minni plastnotkun.

Við hvetjum íbúa til að vera meðvitaða um nærumhverfi sitt og aðstoða við söndun þannig að tryggja megi öryggi allra. Fyrirfram þakkir fyrir ykkar þátttöku!