Fréttir
  • SamspilHafnarOgBaejar

Samspil hafnar og bæjar - rammaskipulag samþykkt

5. feb. 2020

Rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í dag. Rammaskipulagið er stefnumótandi framtíðarsýn um heildaryfirbragð hafnarsvæðisins þar sem gerð er grein fyrir öllum helstu efnistökum við uppbyggingu sem síðan verður útfærð nánar í deiliskipulagi. Við tekur nú aðalskipulagsferli og síðan deiliskipulagsvinna fyrir einstaka reiti.

„Nýtt rammaskipulag markar tímamót. Nú getum við hafist handa við uppbyggingu á hafnarsvæðinu okkar“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar sem er ánægð með þá vinnu og þá framtíðarsýn sem nýtt rammaskipulag felur í sér. „Hafnarsvæðið býður upp á mikla möguleika og tækifæri bæði til búsetu og rekstrar og efa ég ekki að eftirspurn eftir íbúðum og lóðum eigi eftir að vera mikil. Þarna mun rísa skapandi og skemmtilegt hverfi sem hefur sterka tengingu við sögu, sjóinn og miðbæinn.“

Blönduð byggð í sátt við aðliggjandi hverfi og hafnarstarfsemi

Markmið rammaskipulags fyrir hafnarsvæðið er að endurmóta uppbyggingu við Fornubúðir, Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði með blandaðri byggði í sátt við aðliggjandi hverfi og hafnarstarfsemi. Til stendur að skapa heildstæðari byggð í anda sögu og umhverfisgæða staðarins með betri landnotkun og nýtingu innviða. Áhersla er lögð á að rekstur fyrirtækja á hafnarsvæðinu verði tryggður og að þar sé gott viðlegu- og þjónustusvæði fyrir minni fiskiskip, smábátaútgerð og skemmtibáta. Rammaskipulagstillagan endurspeglar markmið svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins með tilliti til þéttingar byggðar á fyrirhuguðum þróunar- og samgönguási. Áhersla er lögð á vistvænar samgöngur, m.a. með góðum tengingum við aðliggjandi byggð s.s. hjóla- og göngustíga og nálægð við biðstöð Borgarlínu á Strandgötu. Meðfram hafnarbakkanum er komið fyrir bryggjupöllum sem mynda samfellda gönguleið frá miðbæ að Fornubúðum 5 og tengjast útivistarsvæði og torgum. Opin svæði og sjónlínur milli húsa tryggja að sjónræn tengsl verði á milli hafnarinnar og byggðar ofan í hlíðinni.

https://www.youtube.com/watch?v=7CZ3lOwnXk4

Kynningarmyndband arkitekta um útlit og umgjörð rammaskipulagsins sem einnig sýnir sögu, starfsemi og framtíðarsýn Hafnarfjarðarhafnar.

Ára langur undirbúningur

Frá árinu 2003 hefur með nokkrum hléum verið unnið að undirbúningi fyrir nýtt rammaskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis. Haustið 2014 var haldin opinn íbúafundur um framtíð hafnarsvæðisins og í framhaldinu unnin forsögn fyrir svæðið. Í ársbyrjun 2018 var auglýst opin hugmyndasamkeppni þar sem tvær tillögur báru sigur bítum. Ákveðið var að sameina vinningstillögurnar í eina og byggir þetta rammaskipulag á niðurstöðum þeirrar vinnu. Til að skapa góðan hljómgrunn og sátt um rammaskipulagið voru haldnir fjórir samráðsfundir fyrir íbúa, lóðarhafa, eigendur fyrirtækja og aðra hagsmunaaðila. Á fundi bæjarstjórnar í dag var árangur þessarar vinnu skjalfestur í formi nýs rammaskipulags sem nú fer í aðalskipulagsferli og deiliskipulagsvinnu.