Fréttir
  • IMG_7255

Samskiptahæfni nemenda í Hafnarfjarðarbæ styrkt

19. feb. 2018

Hafnarfjarðarbær skrifaði nýverið undir samning við þjálfunarfyrirtæki KVAN sem miðar að því að efla samskiptahæfni nemenda. Í þeim tilgangi fá grunnskólakennarar í 5. eða 6. bekkur fræðslu á námskeiði sem gengur undir heitinu Verkfærakistan en það hófst núna í byrjun mánaðar. KVAN  stendur fyrir kærleik, vinátta, alúð og nám og hefur fyrirtækið unnið í mörg ár að fjölbreyttum verkefnum sem snúa að þjálfun, fræðslu og menntun ungs fólks, fagaðila, stjórnenda og starfsmanna fyrirtækja.

Markmið bæjaryfirvalda með því að bjóða upp á þessa fræðslu fyrir alla grunnskóla er að fjölga þeim verkfærum sem kennurum og skólum standa til boða til að vinna með samskipti í grunnskólastarfinu til að bæta líðan og styrkja félagsfærni nemenda. Byrjað er á einum árgangi til tveimur árgöngum eftir skólum og þetta fyrsti veturinn sem fræðslan á sér stað. Ráðgert er að fræðslan haldi síðan áfram í sama árgangi framvegis.

Nánar um verkfærakistuna: Verkfærakistan er hagnýtt námskeið fyrir kennara og annað fagfólk. Markmið námskeiðsins er að veita þátttakendum verkfæri til að takast á við einstaklinga sem eiga í félagslegum vanda annars vegar og hópa sem glíma við samskiptavanda hins vegar. Þá nýtist efni námskeiðsins einnig til að efla bekkjaranda og jákvæð samskipti. Vandinn í hópunum getur verið fólginn í samskiptaerfiðleikum, ljótu orðfari, lélegum bekkjaranda, einelti, ágreiningi innan hópsins, lélegum vinnufrið og svo mætti áfram telja.

Vandi einstaklinga getur verið vinaleysi, klaufagangur í samskiptum, höfnun, einelti, hegðunarvandi og önnur félagsleg vandamál. Námskeiðið samanstendur af sex skiptum, tvær og hálfa klukkustund í senn. Inn á milli tímanna prófa þátttakendur aðferðirnar í sínum hópi og fá stuðning og handleiðslu í næsta tíma á eftir. Dæmi um aðferðir og verkfæri eru vináttuþjálfun, jákvæð leiðtogaþjálfun, afleiðingaaðferðin, vinna með gerendur, samvinnuleikir og samvinnuverkefni, félagsfærniþjálfun og hópefli. 

Myndin: Frá undirritun samnings við KVAN. Fanney Dóróthe Halldórsdóttir sviðsstjóri fræðsluþjónustu Hafnarfjarðar og fulltrúar KVAN, Jón Halldórsson og Vanda Sigurgeirsdóttir.