Fréttir  • IMG_5840

Samkomulag um húsnæði fyrir nútímabókasafn

26. jan. 2021

Mikil fjárfesting í uppbyggingu á miðbæ Hafnarfjarðar

Samkomulag á milli 220 Fjarðar og Hafnarfjarðarbæjar var undirritað á dögunum þess efnis að Hafnarfjarðarbær fái afhent til leigu eða kaups 1.200-1.500 m2 húsnæði undir nýtt bókasafn í nýjum miðbæjarkjarna sem mun rísa á Strandgötu 26-30 og tengjast núverandi Verslunarmiðstöð að Fjarðargötu 13-15.

Fjárfestingarfélagið 220 Fjörður hyggst hefja framkvæmdir um að reisa um 6.000 m2 verslunar- og þjónustubyggingu á Strandgötu 26-30, sem mun tengjast við Fjörð verslunarmiðstöð. Þjónustukjarninn mun bjóða alla þá kjarnaþjónustu sem góður miðbær þarf að bjóða uppá, svo sem, góða matvöruverslun, pósthús, heilsugæslu, bankaþjónustu, apótek, veitingastaði, kaffistaði ásamt því að upp á nútímalegt bókasafn. Samkomulagið gerir ráð fyrir að Hafnarfjarðarbær fái sinn hluta af húsnæðinu afhentan á tímabilinu 2023-2026 og reisi þar nútímalegt bókasafn sem svarar betur þörfum notenda og opnar á nýja möguleika og tækifæri til fjölbreyttari þjónustu, miðlunar og samveru.

Fj1Mismunandi útfærslur að viðbyggingu við Fjörð verslunarmiðstöð eru til skoðunar.

Fjolmidlunarsetur2

„Með þessari framkvæmd erum við bæði að svara ákalli íbúa um aukna þjónustu og verslun og aukinni eftirspurn eftir verslunar- og þjónustuhúsnæði í Hafnarfirði. Um er að ræða mjög metnaðarfullt verkefni sem mun stórauka verslunar- og þjónusturými í miðbænum auk þess að bæta aðgengi íbúa að verslun og þjónustu í heimabyggð. Viðræður eru þegar hafnar við stóra verslunarkeðju um opnun á matvöruverslun í húsinu. Með nýbyggingunni náum við loksins að tengja betur Strandgötuna og Fjarðargötuna og tryggja þannig betur flæði og umferð um miðbæinn. Húsið er hornsteinn uppbyggingar í miðbænum. Það eru spennandi tímar framundan og vonandi getum við hafist handa strax á þessu ári,“ segir Guðmundur Bjarni Harðarson framkvæmdastjóri Fjarðar.

Það verður mikil lyftistöng fyrir Hafnarfjörð þegar byggingin verður risin og framboð fjölbreyttrar starfsemi heldur áfram að aukast í bænum. Sveitarfélagið er einnig að taka spennandi skref með því að ákveða að flytja bókasafnið í þetta nýja húsnæði og stuðla þannig að frekari þróun og eflingu á þjónustu þess,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við nýbygginguna hefjist á árinu 2021. Samhliða hefst vinna við að móta og vinna með hugmyndir fyrir þjónustu og nýjungar á nýju og nútímalegu bókasafni þar sem m.a. verður leitað í hugmyndabrunn íbúa, starfsfólks og annarra hagsmunaaðila. 

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í nóvember 2020 fyrirliggjandi hugmyndir um að flytja Bókasafn Hafnarfjarðar úr núverandi húsnæði að Strandgötu 1 í nýtt húsnæði að Strandgötu 26-30. 

 

Á myndinni hér fyrir ofan eru Sigurjón Ólafsson sviðstjóri þjónustu- og þróunarsviðs, Sigríður Kristinsdóttir fyrrum sviðstjóri stjórnsýslusviðs og núverandi sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, Ágúst Bjarni Garðarsson formaður bæjarráðs, Guðmundur Bjarni Harðarson framkvæmdastjóri Fjarðar og  Haraldur Reynir Jónsson.