Fréttir  • Img_9090

Samið um kaup á gæðaritföngum fyrir grunnskólanemendur

2. júl. 2018

Hafnarfjarðarbær hefur ritað undir samning við Pennann/Eymundsson um kaup á ritföngum fyrir nemendur í grunnskólum Hafnarfjarðar fyrir skólaárið 2018-2019. Samningsundirritunin er lok á löngu ferli sem staðið hefur frá byrjun árs 2018 við að skilgreina vörur og undirbúa útboð á ritföngum. Penninn/Eymundsson reyndist hlutskarpastur í útboðinu af þremur aðilum sem buðu í ritföngin. Alls reyndust útboðspöntunin hljóða upp á um 176 þúsund vörur (137 vörutegundir sem hægt var að velja úr sem lutu ákveðnum gæðaviðmiðum) sem deilast á þá 4000 nemendur sem eru í grunnskólunum og samningsupphæð er um 30 milljónir króna.

Hluti af ritfangaútboðinu var að ákveðnar vörur kæmu frá Múlalundi, vinnustofu SÍBS fyrir fólk með skerta starfsorku, eða þær vörur sem Múlalundur framleiddi sjálft (því Múlalundur flytur einnig inn vörur). Með kaupum á vörunum frá Múlalundi var verið að kaupa gæðavörur um leið og íslensk framleiðsla væri studd. Að sögn Múlalundar eru þeir afar þakklátir Hafnarfjarðarbæ fyrir þetta frumkvæði í ritfangakaupum til grunnskólanemenda sem hefur orðið til þess að önnur sveitarfélög (a.m.k. 10 í dag) hafa farið sömu leið og Hafnarfjörður í ritfangakaupum sínum. Þá segir í fréttatilkynningu frá Múlalundi að vegna þessara viðskipta hafi verið bætt við starfsfólki í vinnu hjá Múlalundi sem áður hafi ekkert haft fyrir stafni. Einnig að það plast sem Múlalundur notar í framleiðslu sinni standist mikla öryggis- og gæðastaðla og sé 40-60% endurunnið plast. Plastið hafi einnig góða endingu og muni endast vel í skólastarfi, langt umfram það sem margt ritfanga úr plasti á almennum markaði geti gert.

Ritfangakaup til grunnskólanemenda í Hafnarfirði koma nú í annað skipti. Þetta verkefni er enn í mótun og unnið er eftir margvíslegum sjónarmiðum að tryggja nemendum góð ritföng, stuðla að sem minnstu vistspori og viðhafa gæði ritfanga sem kemur öllum nemendum til góða óháð efnahag og félagslegri stöðu. Starfsfólk grunnskólanna er enn að læra á nýtt fyrirkomulag þar sem mikilvægt er að kenna nemendum að fara vel með ritföngin og taka ábyrgð á notkun þeirra í daglegu skólastarfi í samræmi við verklag í hverjum skóla. Áfram er gert ráð fyrir að nemendur þurfi að hafa eigin ritföng heima til að sinna heimanámi, t.d. blýant, strokleður og yddara að lágmarki, þótt flest öll gögn séu færð nemendum, þ.e. ritföng í skóla, stílabækur og önnur kennslu- og námsgögn. 

Ritföngin munu koma í skólana í byrjun ágúst og verða tiltæk þegar nemendur koma til skóla þann 22. ágúst þegar skólasetning verður í grunnskólum Hafnarfjarðar.

 Myndin hér sýnir frá undirritun samningins. Á myndinni eru fulltrúar Pennans/Eymundsson, Múlalundar og Hafnarfjarðarbæjar.